Reynir Traustason, fyrrverandi ritstjóri Mannlífs, hefur verið dæmdur fyrir meiðyrði gagnvart Ingva Hrafni Hálfdánssyni. Ummælin fjölluðu um hnífaárás á veitingastað.
Dómurinn féll í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 8. október síðastliðinn.
Téður Ingvi Hrafn hafði stefnt Reyni og Sólartúni ehf, útgáfufélagi Mannlífs, vegna ummæla sem voru birt á vef miðilsins þann 8. júlí árið 2021. Krafðist hann að ummælin yrðu dæmd dauð og ómerk.
Þau eru eftirfarandi:
Þá krafðist hann bóta upp á 2,5 milljón krónur sem og að Reyni og Sólartúni yrði gert að greiða honum tæpa hálfa milljón til að birta dóminn í fjölmiðlum. Þá var þess einnig krafist að forsendur og dómsorð yrðu birt á vef Mannlífs.
Reynir og Sólartún höfnuðu kröfunum og kröfðust sýknu í málinu. Einnig kröfðust þau málskostnaðar úr hendi Ingva Hrafns.
Fram kemur í dóminum að Ingvi Hrafn hafi ranglega verið nafngreindur og myndbirtur hjá Mannlífi sem árásarmaður í hnífsstunguárás sem átti sér stað tveimur dögum áður á veitingastað í miðborg Reykjavíkur.
Fréttin var ekki merkt höfundi. Í henni var einnig birt myndskeið af árásinni. Eru ummælin þrjú öll úr viðkomandi frétt.
Kemur fram að Ingvi Hrafn beri sömu eiginnöfn en annað föðurnafn og árásarmaðurinn sem dæmdur var 22. apríl árið 2022 til 15 mánaða fangelsisrefsingar fyrir téða hnífaárás.
Lögmaður Ingva Hrafns sendi kröfubréf á Reyni og Sólartún þann 12. júlí árið 2021 og gerði kröfu upp á 1,5 milljón krónur í bætur, afsökunarbeiðni og ótvíræðrar yfirlýsingar um að hann tengdist ekki árásinni. Tvö kröfubréf fylgdu í kjölfarið, en þeim var annað hvort ekki svarað eða þá að viðtakendur höfnuðu því að hafa fengið þau.
Hvernig sem á það er litið náðist ekki sátt í málinu og endaði það því fyrir dómi.
Reynir og Sólartún höfnuðu því ekki að um ranga nafngreiningu hafi verið að ræða. En hins vegar hafi ummælin verið dregin til baka og ómerking þeirra því tilgangslaus. Um mistök hafi verið að ræða.
Var því borið fyrir að fréttaflutningurinn hafi orðið til með þeim hætti að starfsmaður Mannlífs hafi fyrir tilviljun verið staddur í nágrenni við veitingastaðinn þetta umrædda kvöld. Hann hafi dregið þá röngu ályktun að af því sem hann sá og heyrði að Ingvi Hrafn væri hinn grunaði árásarmaður.
„Að mati dómsins fer því nokkuð fjarri að vinnubrögð sem svona er lýst standist þær lágmarkskröfur sem gerðar eru til vinnubragða blaðamanna, hvað þá að þau geti talist vönduð,“ segir í niðurstöðu dómsins.
Væri því um gróft gáleysi að ræða sem sá sem ritaði greinina sem og stefndu bæru ábyrgð á. Hvorki hafi verið birt afsökunarbeiðni né sérstök frétt um að mistök hefðu verið gerð.
Eins og áður segir voru ummælin þrjú dæmd dauð og ómerk. Þá var Reyni gert að greiða Ingva Hrafni 350 þúsund krónur í bætur og Reyni og Sólartúni gert að greiða 1 milljón króna í málskostnað. Voru stefndu sýknir af öðrum kröfum og var nefnt að aðrir aðilar stjórna mannlif.is í dag.