fbpx
Þriðjudagur 14.október 2025
Fréttir

Ferðamaður frá Víetnam í miklum vandræðum eftir að lögreglan á Selfossi haldlagði vegabréfið hans

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 14. október 2025 19:00

Lögreglustöðin á Selfossi. Mynd; Facebook.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ef ekki væri fyrir hjálpsama landa hans hérna á Íslandi þá væri hann á götunni núna. Hann vill bara fá vegabréfið sitt og komast heim enda hefur hann ekki gert neitt af sér,“ segir Bjarni Bergmann Vilhjálmsson, atvinnubílstjóri og Víetnam-fari, í samtali við DV. Bjarni lýsir miklum hremmingum sem níu manna hópur Víetnama lenti í hér á landi en lögregla sakar forsvarsmann hópsins um ólöglega atvinnustarfsemi hér á landi í tengslum við ferðina. Bjarni segir þær ásakanir fráleitar.

Bjarni var sjálfur á ferðalagi í Víetnam í lok árs 2024 og segist hafa hrifist af gestrisni heimamanna. Hann komst í kynni við fólk sem hafði áhuga á Íslandsferð og bauðst Bjarni til að aka fólkinu um ferðamannastaði enda hefur hann tilskilin leyfi til að aka með ferðahópa. Bjarni segist hins vegar hafa veikst illa og ekki getað sinnt þessu hlutverki. Varð því úr að hann leiðbeindi fólkinu um að leigja sér bílaleigubíl hjá Bílaleigu Akureyrar.

Bílaleigan gerði ekki athugasemdir ökuskírteini bílstjóra hópsins en það gerði hins vegar lögreglan á Selfossi þar sem bíllinn var stöðvaður í hefðbundnu eftirliti. Bjarni segir lögreglu hafa sýnt fólkinu dónaskap en það sem verra var, vegabréf tveggja úr hópnum voru gerð upptæk. Annars vegar bílstjórans, en lögregla véfengdi ökuskírteini hans. Bjarni segir það ekki rétt að maðurinn hafi ekki verið með fullgilt ökuskírteini, enda búi hann í Finnlandi og sé handhafi ökuskírteinis sem er gilt hér á landi.

Bílstjóranum var gefinn kostur á því að ljúka málinu með því að greiða 70 þúsund króna sekt. Hann ákvað að gera það nauðugur viljugur til þess að komast heim með bókuðu flugi sínu. Bjarni segir hins vegar að hann hafi ekki fengið vegabréfið afhent fyrr en rétt fyrir fyrir brottför og mátti ekki tæpara standa.

Sakaður um ólöglega atvinnustarfsemi

Hinn maðurinn sem vegabréfið var tekið af er sakaður um ólöglega atvinnustarfsemi hér á landi. Bjarni segir það fráleitt en orsakarinnar er að leita í vefsíðu sem hann setti upp þar sem veittar voru upplýsingar um kostnað við ferðir og uppihald á Íslandi. Lögreglan uppástendur að vefsíðan sé ferðaskrifstofa og ferðamaðurinn umræddi leiðsögumaður. Því neita maðurinn og Bjarni, segja að fólkið hafi komið á eigin vegum og vefsíðan hafi verið til upplýsingagjafar og fólki gefinn kostur á að spjalla um Íslandsferð og deila með sér kostnaði, t.d. varðandi bílaleigubíl.

Bjarni segir í samtali við DV: „Hann kemur frá fátæku landi, þaðan sem dýrt er að fara, þá ertu í krafti fjöldans að reyna að lækka þinn kostnað. Hann hafði lengi langað til að koma hingað, þannig að hann bjó til vefsíðu og bað áhugasama um að spjalla saman á vefsíðunni um þetta allt saman, ef þau vildu koma, en þetta yrði dýrt ferðalag miðað við Víetnam. Þessi vefsiða var engan veginn ferðaskrifstofa heldur bara til upplýsingar fyrir þá sem væru áhugasamir um að fara. Þegar lögreglan stöðvar þau og fær upplýsingar um þessa vefsíðu þá er hún allt í einu orðin að ferðaskrifstofu í þeirra huga. En hún var það auðvitað ekki.“

Brögð eru að því að erlendir ferðahópar taki við greiðslum fyrir leiðsögn og aðra þjónustu hér á landi án þess að hafa leyfi til ferðaþjónustu á Íslandi, né að greidd séu áskilin gjöld af starfseminni til ríkisins. Bjarni segi að það hafi engan veginn átt við í þessu tilviki. Tortryggni lögreglu í þessum efnum sé skiljanleg en þarna hafi fólk verið dæmt fyrirfram.

Var manninum boðið að ljúka málinu með 200 þúsund króna sektargreiðslu en hann hvorki getur né vill reiða gjaldið af hendi. Lögreglan hefur kært hann til Útlendingastofnunar þar sem krafist er brottvísunar hans frá landinu. Maðurinn vill hins vegar yfirgefa landið af sjálfsdáðum eins og ávallt stóð til en er fastur hér á landi þar sem hann hefur ekki vegabréf. Þann 8. október tjáði Útlendingastofnun Bjarna að maðurinn fengi vegabréf sitt til baka ef hann gæti keypt og sýnt flugmiða frá landinu. Þetta gerði hann en þá tjáði Útlendingastofnun honum að vegabréfið væri enn í fórum lögreglunnar á Selfossi. Lögreglan vildi ekki ræða við Bjarna um málið og farmiði mannsins úreltist.

Staurblankur og húsnæðislaus

Að sögn Bjarna stendur maðurinn uppi hér slyppur og snauður og landar hans hafa af góðsemi skotið yfir hann skjólshúsi. Hann vill bara fá vegabréfið sitt og komast burt frá landinu. Mál hans verður tekið fyrir hjá Útlendingastofnun þann 17. október.

Bjarni telur að lögreglan hafi framið lögbrot með haldlagningu vegabréfsins. Ljóst er að lögregla hefur nokkuð ríkar og um leið óljósar lagaheimildir til að haldleggja vegabréf. Hún getur til dæmis lagt halda á vegabréf ef menn eru handteknir eða settir í farbann. Í 109. grein laga um útlendinga segir ennfremur um haldlagningu vegabréfa:

„Ef vafi leikur á hver útlendingur er við komu til landsins eða síðar getur lögregla lagt hald á ferðaskilríki, farseðla og annað sem getur gefið upplýsingar um hver hann er. Sama gildir þegar vafi er um fyrri dvalarstað og það skiptir máli um rétt til dvalar hér á landi.

Lögregla getur lagt fyrir útlending að afhenda vegabréf eða annað kennivottorð ef ástæða er til að ætla að útlendingur muni koma sér undan framkvæmd ákvörðunar um brottvísun, sbr. 3. mgr. 105., eða í þeim tilvikum sem útlendingur sýnir af sér hegðun sem gefur til kynna að hann ógni allsherjarreglu, öryggi ríkisins eða almannahagsmunum. Við mat á því hvort ástæða sé til að ætla að útlendingur muni koma sér undan framkvæmd ákvörðunar er heimilt að taka tillit til almennrar reynslu af undankomu.

 Lögregla skal leiðbeina útlendingi um að hann geti borið réttmæti haldlagningar undir dómara samkvæmt reglum laga um meðferð sakamála.“

Gætu Íslendingar lent í því sama?

Bjarni segir í samtali við DV að málið hefði aldrei komið upp ef hann hefði ekki veikst og hefði getað farið sjálfur með hópnum um landið, eins og til stóð. Einnig þetta: „Ef hann hefði gefið lögreglunni símanúmerið mitt þegar þau voru stöðvuð hefði þetta líklega ekki heldur komið fyrir. En líklega var hann of hæverskur til þess,“ segir Bjarni og bætir við:

„Lögreglan vill meina að þetta sé skipulögð ferðaþjónusta, sem er alls ekki rétt. Mér þykir líka vera athyglisverður punktur í þessu að við gætum verið að lenda í því ef við kaupum ferð til Spánar og við kynnum okkur ekki hvort viðkomandi ferðaskrifstofa sé að borga til Spánar, að þá er það undir sama hatti, að vegabréfin gætu verið tekin af okkur.“

Sp: En þau komu bara hingað á eigin vegum?

„Jájá, þau komu hingað bara á eigin vegum og ég ætlaði að fara með þeim. En ég komst ekki og þar af leiðandi leigðu þau bílaleigubíl.“

DV hefur sent fyrirspurn til Lögreglunnar á Suðurlandi vegna málsins. Verði fyrirspurninni svarað verður greint frá efni svarsins.

Bjarni hefur skrifað um málið á Facebook-síðu sinni, sjá nánar ef smellt er á tengilinn hér fyrir neðan:

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Liðskonur Pussy Riot tjá sig um brottreknu tvíburana og ógnarstjórn Pútíns

Liðskonur Pussy Riot tjá sig um brottreknu tvíburana og ógnarstjórn Pútíns
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Aldís hefur verið beitt grófu stafrænu ofbeldi í 10 mánuði – „Ég vil bara fá líf mitt til baka. Mig langar bara að elda kvöldmat fyrir börnin mín “

Aldís hefur verið beitt grófu stafrænu ofbeldi í 10 mánuði – „Ég vil bara fá líf mitt til baka. Mig langar bara að elda kvöldmat fyrir börnin mín “