Ungur maður hefur verið dæmdur í 15 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir tvær líkamsárásir sem framdar voru fyrir utan íþróttamiðstöðina á Seltjarnarensi í lok ágúst árið 2021.
Maðurinn er 22 ára í dag en var aðeins 18 ára er hann framdi árásirnar. Annars vegar veittist hann að manni með ofbeldi og sló hann með krepptum hnefa í höfuðið þannig að hann féll aftur fyrir sig í götuna. Hlaut hann brot á fjarlæga hluta sveifarbeins vinstri handar, bólgu yfir vinstra kinnbeini og hrufl á hægri hendi.
Hins vegar réðst hann í kjölfarið á annan mann, sló hann hnefahöggi í höfuðið og stakk hann með hníf í vinstri síðuna. Hlaut brotaþoli langan og djúpan, gapandi skurð á bakvegg brjóstkassa með seytlandi blæðingu út frá skornum bakbreiðavöðva, og einhliða lungnamar.
Er síðarnefnda árásin flokkuð sem stórhættuleg líkamsárás.
Maðurinn játaði brot sín skýlaust og var tekið tillit til þess við ákvörðun refsingar. Einnig var tekið tillit til ungs aldurs hans er árásin var framin og svo þess að hann hefur lokið námi eftir að þessi atburður átti sér stað. Niðurstaðan er sú að hann þarf ekki að sitja í fangelsi ef hann rýfur ekki skilorð næstu þrjú árin, fær 15 mánaða skilorðsbundinn dóm.
Hann er hins vegar dæmdur til að greiða öðrum brotaþolanum 600 þúsund krónur í miskabætur og hinum 500 þúsund krónur. Auk þess þarf hann að greiða tæplega 800 þúsund krónur í sakarkostnað.
Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 8. október síðastliðinn.