Um helgina var greint frá því að hinn alræmdi barnaníðingur og fyrrverandi söngvari rokkhljómsveitarinnar Lostprophets Ian Watkins hafi verið myrtur í fangelsi í Bretlandi. Nú hafa fleiri atriði varðandi morðið komið í ljós. Fyrrverandi kærasta Watkins segir skrýtið að hann hafi ekki verið myrtur fyrr.
Hljómsveitin Lostprophets var stofnuð í Wales árið 1997 og var ein stærst rokksveit Bretlands á fyrsta áratug þessarar aldar. Sveitin gaf út fimm breiðskífur og náði toppi breska vinsældalistans árið 2006 með plötunni Liberal Transmission.
Allt virtist í blóma og söngvari sveitarinnar, Ian Watkins, var eiginleg rokkstjarna. En upp úr árinu 2010 virtist kvarnast úr hljómsveitinni og Watkins byrjaði að fjarlægjast hina meðlimina og eiturlyfjanotkun hans jókst dag frá degi. Enginn bjóst samt við því hvað myndi gerast næst.
Þann 19. desember árið 2012, skömmu eftir tónleika Lostprophets á tónleikahátíðinni Warped, var Ian Watkins handtekinn vegna vörslu fíkniefna. Seinna komu þó miklu hræðilegri hlutir í ljós. Watkins var ákærður í þrettán liðum fyrir kynferðisbrot gegn börnum, þar á meðal tilraun til nauðgunar eins árs gamallar stúlku.
Hinir hljómsveitarmeðlimirnir sögðust koma af fjöllum. En eftir því sem fleiri smáatriði úr málinu komu í ljós var ljóst hvers konar skrímsli Ian Watkins hafði að geyma. Sumt játaði hann að hafa gert en sumt ekki.
Hafði hann brotið kynferðislega gegn börnum og unglingum um nokkurra ára skeið, að minnsta kosti frá árinu 2008, og í mörgum tilfellum gefið þeim fíkniefni. Meðal annars hafði hann brotið gegn tveggja ára barni á meðan hljómsveitin tók upp plötu í Los Angeles árið 2009. Einnig hafði hann fengið aðdáendur sína til þess að misnota börn.
Við leit á tölvu hans fannst einnig ólöglegt efni. Bæði barnaklám og mjög gróft dýraklám. Lykilorðið á tölvuna hans var „I FUK KIDZ“ (ég serði börn).
Lostprophets hættu í október árið 2013 og skömmu síðar gáfu hinir meðlimirnir út yfirlýsingu þar sem þeir hörmuðu athæfi Watkins og hvöttu öll hans fórnarlömb til að tilkynna glæpi hans.
Skömmu seinna, það er 18. desember árið 2013, var Ian Watkins dæmdur til 29 ára fangelsisvistar fyrir kynferðisbrot gegn börnum, vörslu barnakláms og dýrakláms. Árið 2014 bannaði breska ríkisútvarpið BBC alla spilun á efni Lostprophets.
Watkins hafði aflplánað 12 ár af fangelsisdómi sínum í konunglega fangelsinu í Wakefield í norðausturhluta Englands þegar hann var stunginn til bana af tveimur samföngum sínum á laugardag, 11. október. Hann var 48 ára gamall.
Greint var frá því að tveir fangar, annar á þrítugsaldri en hinn á fimmtugsaldri, hefðu verið handteknir og grunaðir um verknaðinn.
Bent var á að Watkins hefði verið „gangandi skotmark“ í fangelsinu um langa hríð og hefði meðal annars orðið fyrir alvarlegri stunguárás árið 2023. Þegar varsla var lítil í fangelsinu hafi samfangar hans, sem voru margir af harðsvíruðustu glæpamönnum Bretlands, látið til skarar skríða og reynt að myrða hann. Watkins lifði þá árás af en ekki árásina á laugardag.
Nú hefur verið greint frá því hverjir eru grunaðir um verknaðinn. Það er Rashid Gedel, 25 ára, og Samuel Dodsworth, 43 ára. Þeir eru sakaðir um að hafa veist að Watkins og skorið hann á háls skömmu eftir að klefahurðirnar voru opnaðar um morguninn. Ekki var hægt að bjarga Watkins, sem dó úr blóðmissi, jafn vel þó að fangaverðirnir hafi komið strax á staðinn.
„Þetta var hræðileg aðkoma, það var blóð alls staðar og stanslaust sírenuvæl,“ sagði ónefndur sjónarvottur í viðtali við dagblaðið The Sun. Var árásin talin mjög ofbeldisfull, meira að segja miðað við ofbeldi í fangelsum yfir höfuð. „Lögregla og sjúkralið var kallað á staðinn og útgöngubann var sett á í fangelsinu, allir urðu að vera í klefum sínum.“
Gedel og Dodsworth mættu fyrir dómara í Leeds í dag, mánudag, og gerð grein fyrir ásökununum. Munu þeir aftur mæta fyrir dómara á morgun, þriðjudag, en ekki liggur fyrir hvort þeir hafi játað verknaðinn eða ekki.
Þá hefur fyrrverandi unnusta Watkins, Joanne Mjadzelics, tjáð sig um morðið en hún var lykilmanneskja í að koma upp um hina hræðilegu glæpi hans.
„Þetta er mikið sjokk, en það kemur mér á óvart að þetta hafi ekki gerst fyrr,“ sagði Mjadzelics í viðtali við breska blaðið The Daily Mail. „Ég var alltaf að bíða eftir þessu símtali. Hann gekk um með skotmark á bakinu frá fyrsta degi sem hann steig inn í fangelsið. Ég er búin að vera mjög hrædd um að hann myndi reyna að finna mig þegar honum yrði sleppt, þannig að þetta er mikill léttir.“
Greindi hún frá því að hafa verið með áfallastreituröskun eftir sambandið með Watkins. Einnig að hún hafi byrjað að stunda sjálfskaða.
„Í langan tíma vildi ég að hann myndi deyja út af öllu sem hann gerði,“ sagði Mjadzelics. „Mér er létt, mér líður eins og fargi sé af mér létt.“
Talið er að morðið á Watkins hafi verið fyrir fram skipulagt og hafi átt sér einhvern aðdraganda. Ekki er víst að það tengist þeim hræðilegu glæpum sem hann framdi. Frekar er talið að það tengist annað hvort fíkniefnaskuld eða það að Watkins hafi ekki vilja borga fyrir „vernd.“
Watkins hefur marg oft lent í vandræðum út af fíkniefnaskuldum áður. Meðal annars í fangelsi þegar hann var í eitt skipti frelsissviptur í sex klukkutíma af samföngum sínum vegna 900 punda skuldar, það er 150 þúsund króna.