Hreyfill hefur sent frá sér í yfirlýsingu í kjölfar fyrirspurnar DV vegna máls Aðalheiðar Óskar Þorsteinsdóttur, sem segist árangurslaust hafa óskað eftir áheyrn hjá fyrirtækinu vegna ofbeldis sem hún segir fyrrum sambýlismann hafa beitt sig, en hann starfaði sem leigubílstjóri hjá fyrirtækinu.
Leigubílstjórinn var rekinn þann 30. september frá Hreyfli, nokkrum dögum síðar var annar bílstjóri fyrirtækisins rekinn samdægurs eftir að hafa verið handtekinn af lögreglu vegna ofbeldis gegn konu í Dugguvogi í Reykjavík. Í færslu sem Aðalheiður Ósk skrifaði á Facebook, og margir hafa dreift, sem og í viðtali við DV, sagðist hún furða sig á mismunandi verklagi í málum bílstjóranna tveggja.
Yfirlýsing Hreyfils er birt á vef fyrirtækisins og var sömuleiðis send til DV. Yfirlýsinguna má lesa í heild sinni hér fyrir neðan:
Lokun á stöðvarleyfi tveggja leigubílstjóra á síðustu vikum sýnir að Hreyfill bregst ákveðið við þegar ofbeldi, áreiti eða alvarlegur misbrestur á starfsháttum á sér stað hjá bílstjórum sem aka undir merkjum leigubílastöðvarinnar. Þessi mál staðfesta að stjórnendur Hreyfils grípa eins skjótt og auðið er til þeirra úrræða sem standa til boða þegar slík atvik koma upp, eins og brottrekstur bílstjóra vegna ofbeldisbrots um síðastliðna helgi sýnir fram á. Það er kappsmál Hreyfils að tryggja öryggi farþega, viðhafa fagleg vinnubrögð og njóta trausts viðskiptavina.
Eins og á flestum vinnustöðum geta komið upp mál sem tengjast einkalífi starfsfólks en ekki beint störfum þeirra. Þau mál sem koma á borð stjórnenda Hreyfils, eru ávallt rýnd vandlega og metið hvort og hvaða viðbrögð séu nauðsynleg og í samræmi við lög og reglur. Eðli sínu samkvæmt geta þessi mál verið flókin í úrlausn, sérstaklega ásakanir um ofbeldi í nánum samböndum. Stjórn Hreyfils fylgist með slíkum málum og grípur inn í þegar tilefni er til, meðal annars ef niðurstaða eða upplýsingar benda til þess að viðkomandi uppfylli ekki þær kröfur sem gerðar eru til háttsemi rekstrarleyfishafa sem aka undir merkjum félagsins.
Slíkt mál kom inn á borð Hreyfils þegar Aðalheiður Ósk Þorsteinsdóttir óskaði eftir að leggja fram gögn því til staðfestingar að fyrrverandi sambýlismaður hennar hefði beitt hana ofbeldi á þeim tíma sem hann starfaði sem leigubílstjóri hjá Hreyfli. Stjórn Hreyfils harmar að ekki hafi verið tekið nægilega skýrt fram í samskiptum við hana að ávallt var vilji til staðar til að hlusta á sjónarmið hennar og taka við þeim gögnum sem hún vildi leggja fram, sem bárust stjórn ekki. Hjá Hreyfli er gagnrýni og umræður síðustu daga tekin mjög alvarlega og verður nýtt til að styrkja verklag fyrirtækisins enn frekar, auka fræðslu til starfsfólks og tryggja áfram öryggi farþega og traust viðskiptavina, líkt og hefur verið meginmarkmið Hreyfils frá stofnun árið 1943.
Virðingarfyllst
Stjórn Hreyfils