Karlmaður hefur verið sakfelldur í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir eignaspjöll með því að hafa brotið rúðu í lögreglubíl en til þess notaði maðurinn sitt eigið höfuð.
Atvikið átti sér stað undir lok ársins 2023. Lögreglubíllinn var kyrrstæður í Hafnarstræti í Reykjavík. Maðurinn skallaði ítrekað hægri hliðarrúðu bílsins, farþegamegin að aftan, með þeim afleiðingum að hún brotnaði. Það er ekki tekið skýrt fram í dómi héraðsdóms hvort maðurinn sat inni í lögreglubílnum þegar hann skallaði rúðuna.
Maðurinn játaði brot sitt skýlaust. Hann á nokkurn sakaferil að baki. Árið 2018 frestaði lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu útgáfu ákæru á hendur manninum, skilorðsbundið í þrjú ár, vegna brots gegn lögum um ávana og fíkniefni. Árið 2019 gekkst maðurinn undir greiðslu sektar og sviptingu ökuréttar með sektargerð lögreglustjóra vegna umferðarlagabrota. Með dómi héraðsdóms 2022 var maðurinn dæmdur í tveggja mánaða fangelsi skilorðsbundið í tvö ár vegna líkamsárásar og loks með öðrum dómi héraðsdóms til greiðslu sektar og sviptingu ökuréttar vegna umferðarlagabrota.
Maðurinn var enn á skilorði vegna dómsins frá 2022 þegar hann braut rúðuna í lögreglubílnum með höfðinu og var það því metið honum til hegningarauka í þetta sinn og hlaut hann dóm fyrir bæði brotin. Á móti tók héraðsdómur tillit til játningar mannsins og þess að hann sýndi iðrun.
Við hæfi þótti því að dæma manninn í 90 daga skilorðsbundið fangelsi en refsingin fellur niður haldi maðurinn skilorðið næstu tvö árin. Maðurinn samþykkti einnig bótakröfu Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu upp á um 130.000 krónur og þarf að auki að greiða af kröfunni vexti og dráttarvexti.