Fyrirtækið SK37, sem samkvæmt fyrirtækjaskrá er að fullu í eigu Lýðs Guðmundssonar athafnamanns, sem löngum hefur verið kenndur við fyrirtæki sitt og Ágústs bróður síns, Bakkavör, hefur kært synjun Reykjavíkurborgar á ósk fyrirtækisins um að breyta deilskipulagi fyrir lóðina að Skólavörðustíg 37 til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Samkvæmt tillögu fyrirtækisins yrði því heimilt að rífa húsið sem stendur á lóðinni og byggja nýtt með sama ytra útliti. Skólavörðustígur 37 er sögufrægt hús og hefur lengi verið kennt við Hvítabandið, líknarfélag kvenna, sem lét byggja það á fjórða áratug síðustu aldar.
Í Hvítabandinu var lengst af rekin sjúkrahússtarfsemi. Reykjavíkurborg fékk það að gjöf um áratug eftir að það var byggt en ríkið keypti húsið undir lok síðustu aldar en seldi það árið 2023 til SK37 fyrir um 500 milljónir króna. Síðast, áður en ríkið seldi húsið, var rekin þar göngudeild geðdeildar Landspítalans fyrir fólk með átröskunarsjúkdóma.
Kæra SK37 var tekin fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsráðs borgarinnar í gær og er birt með fundargerð fundarins. Í kærunni er minnt á að ráðið hafi staðfest neikvæða umsögn skipulagsfulltrúa um fyrirspurn um breytingu á deiliskipulaginu. Erindi fyrirtækisins hafi lotið að því að heimila niðurrif núverandi húss og endurbyggingu þess með sama ytra útliti, en með breyttri útfærslu á kvistum, auk nýs kjallara að norðurmörkum lóðarinnar.
Í kærunni er þess krafist að synjunin verði felld úr gildi og borginni gert að taka málið upp að nýju. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur hins vegar margsinnis ítrekað í úrskurðum sínum að hún hafi vald til að fella kærðar ákvarðanir úr gildi en ekki til að taka nýjar í stað þeirra.
Minnt er á í kærunni að aðeins ytra útlit hússins njóti verndar samkvæmt skilmálum núgildandi deiliskipulags. Segir enn fremur að í upphafi hafi staðið til að breyta notkun hússins með þeim hætti að þar yrðu veitingastaður og verslun á 1. hæð og í kjallara, listagallerí á 2. hæð og íbúðir á 3. og 4. hæð. Áformað hafi verið að setja stærri kvisti á þakið, án þess að raskað væri heildarútliti hússins að öðru leyti. Hugmyndir eigenda hafi verið mótaðar í góðri trú. Síðar hafi komið í ljós að staðsetningin styddi vel við verslunar- og veitingarekstur, auk þess sem Minjastofnun Íslands hafi veitt jákvæða umsögn um fyrirhugaða kvistabreytingu og aðrar minniháttar útlitsbreytingar, þar á meðal óverulegar tilfærslur á gluggum og jarðhæð og efstu hæð.
Í kærunni segir hins vegar að við burðarþolsrannsókn hafi komið í ljós að burðarvirki húsins stæðist ekki nútímakröfur varðandi til dæmis jarðskjálftaþol. Járnabinding væri til að mynda í lágmarki. Til að styrkja burðarvirkið hefði meðal annars þurft að reisa nýja veggi innan við burðarveggi. Slíkar framkvæmdir væru flóknar og fjárhagslega íþyngjandi. Einnig hefði skoðun á steypunni í húsinu leitt í ljós að hún væri af lélegum gæðum. Þar af leiðandi hafi verið send fyrirspurn um að fá að rífa húsið og byggja nýtt í sömu stærð og með sama ytra útliti.
Minnt er á í kærunni að Minjastofnun hafi veitt jákvæða umsögn um áformin en samt hefði skipulagsfulltrúi hafnað þeim og vísað til sögulegs, menningarlegs og listræns gildis hússins. Við niðurstöðuna sé hins vegar ekki hægt að una. Húsið sé ónothæft nema til komi verulegar endurbætur eða niðurrif og endurbygging frá grunni. Ekki muni fást heimild til að nýta húsið í núverandi ástandi og verði ekki orðið við kröfum fyrirtækisins sé ekki annað í stöðunni en að láta húsið grotna niður. Er í kærunni fullyrt að endurbætur yrðu svo kostnaðarsamar að það fengist enginn arður af húsinu.
Vill fyrirtækið meina að umsögn skipulagsfulltrúa skorti rökstuðning og málsmeðferðin hafi ekki verið í samræmi við rannsóknarreglu stjórnsýluslaga og ekki verið byggð á málefnalegum forsendum. Því séu lagaleg rök fyrir því að fella synjunina úr gildi.
Í greinargerð Reykjavíkurborgar vegna kærunna rer vísað til áðurnefndrar umsagnar skipulagsfulltrúa borgarinnar um sögulegt gildi hússins. Minnt er á að í umsögninni komi fram að samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 gildi hverfisvernd á svæðinu. Markmiðið sé að varðveita fagurfræðileg einkenni þessa hluta Reykjavíkur.
Borgin krefst þess að kærunni verði vísað frá á grundvelli þess að ekki sé um kæranlega stjórnvaldsákvörðun að ræða. Umsögn skipulagsfulltrúa hafi aðeins verið svar við fyrirspurn um breytingu á deiliskipulaginu. Það breyti engu þótt að umhverfis og skipulagsráð hafi staðfest hana. Varakrafa borgarinnar er að öllum kröfum í kærunni verði hafnað. Borgin segist hafa vald samkvæmt lögum til að skipuleggja og hafa áhrif á þróun byggðar á svæðinu. Hin neikvæða umsögn hafi byggt á gildandi deiliskipulagi og hafi verið veitt á málefnalegum forsendum. Borgin segir áformin ganga gegn gildandi hverfisvernd á svæðinu og minnir á að íbúar hafi ekki lögvarinn rétt til að knýja fram breytingar á deiliskipulagi.