Segja má að augu heimsins séu nú á Alaska í Bandaríkjunum en Donald Trump forseti landsins og Vladimir Pútín Rússlandsforseti munu funda þar í kvöld að íslenskum tíma. Takmörkuð bjartsýni ríkir meðal stjórnmálaskýrenda um að einhver árangur muni nást á fundinum í þá veru að binda endi á stríðsrekstur Rússa í Úkraínu án þess að síðarnefnda ríkið þurfi að gefa alfarið eftir. Óttast sumir að Trump muni verða að miklu leyti við kröfum Pútín og semja við hann um uppgjöf Úkraínu. Trump virðist þó hvergi banginn og segir að hinn rússneski kollegi hans muni ekki komast upp með neitt múður. Hillary Clinton, fyrrum forsetafrú, þingmaður, utanríkisráðherra og mótframbjóðandi Trump í forsetakosningunum 2016, segir að muni forsetinn ná þeim árangri að koma á friði milli Rússlands og Úkraínu með samkomulagi sem yrði ásættanlegt fyrir síðarnefnda ríkið muni hún sjálf tilnefna þennan fjandvin sinn til friðarverðlauna Nóbels.
Clinton og Trump hafa eldað grátt silfur saman alveg síðan í baráttunni fyrir kosningarnar 2016 og oft látið þung orð falla hvort í garð annars. Clinton ræddi um hinn fyrirhugaða fund Trump og Pútín í viðtali við hlaðvarpið Raging Moderates en viðtalið tók annar stjórnenda þess, Jessica Tarlov sem hefur veitt Demókrataflokknum ráðgjöf en er einnig einn stjórnenda umræðuþáttar á hinni hægri sinnuðu sjónvarpsstöð Fox News.
Það hefur komið fram að Trump sé afar áhugasamur um að hljóta friðarverðlaun Nóbels. Clinton segir hins vegar að hann muni ekkert græða á því að gefa algerlega eftir gagnvart Pútín. Clinton virðist ekki bjartsýn á árangur af fundinum í Alaska en segir að ef Trump nái að koma fram ásættanlegum friði á milli Úkraínu og Rússlands muni hún tilnefna hann til friðarverðlaunanna:
„Ef hann nær því fram að þetta hræðilega stríð, þar sem Pútín er árásaraðilinn með því að gera innrás í nágrannaríki til að breyta landamærunum, endi. Ef hann nær að enda þetta án þess að koma Úkraínu í þá aðstöðu að þurfa gefa eftir landsvæði til árásaraðilans, til að ýta undir sýn Pútín um Stór-Rússland, en í staðinn að standa uppi í hárinu á Pútín. Það er hins vegar nokkuð sem við höfum ekki séð.“
Clinton bætir við:
„En kannski er þetta tækifæri til að koma því skýrt á framfæri að það verði að koma á vopnahléi, það verði engin skipti á landsvæði og að með tímanum þurfi Pútín raunverulega að draga sig til baka frá því svæði sem hann hertók til þess að sýna að hann sé að semja í góðri trú. Við skulum segja að hann eigi ekki að ógna öryggi Evrópu. Ef við næðum þessum árangri. Ef Trump forseti væri arkitektinn að þessu þá myndi ég tilnefna hann til friðarverðlauna Nóbels vegna þess að mitt markmið er að leyfa það ekki að gefist verði upp fyrir Pútín með aðstoð Bandaríkjanna.“
Clinton varar eindregið við því að gefið verði eftir gagnvart Pútín. Slíkt muni skapa slæmt fordæmi og ógna öryggi Bandaríkjanna. Segir hún að árásargirni Pútín muni halda áfram sé honum ekki mætt af festu.
Clinton er þó ekki bjartsýn á að grunnur að slíkum árangri verði lagður á fundinum í kvöld. Hún segir að af orðum Trump og starfsfólks hans sé ljóst að verið sé að sýna Pútín allt of mikla linkind. Hún minnir forsetann á að hann sé ekki að fara að funda með vini sínum heldur fjandmanni. Hún vonar að Trump hætti að horfa á Pútín með jafn óraunsæum augum og hingað til. Trump verði að skilja að Pútín þrái helst eyðileggingu Bandaríkjanna og vestrænnar samvinnu.
Clinton segir að vilji Trump virkilega stilla til friðar þá þýði ekki að gera það með sama hætti og Neville Chamberlain forsætisráðherra Bretlands gerði gagnvart Adolf Hitler 1938. Trump verði að sýna festu til að semja raunverulega frið. Hann verði að standa með úkraínsku þjóðinni og tryggja öryggi hennar til framtíðar. Vilji hann líkjast frekar Winston Churchill en forvera hans Chamberlain sé ekkert annað í stöðunni en að standa með lýðræði og frelsi á móti árásargirni.