Lögreglan á Suðurnesjum varar fólk við að ganga út á hraunið við gosstöðvarnar við Sundhnúkagígaröðina. Það geti verið lífshættulegt.
„Við viljum biðja þá sem eru á gosstöðvunum að ganga ekki á hrauninu undir neinum kringumstæðum. Það er bæði óöruggt og getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir líf- og heilsu viðkomandi,“ segir í tilkynningu lögreglunnar.
Ekki nóg með það að það sé stórhættulegt að ganga á hrauninu þá er takmarkað sem viðbragðsaðilar geta gert ef viðkomandi lendir í háska.
„Þar að auki geta viðbragðsaðilar ekki brugðist við með fullnægjandi hætti sökum aðstæðna. Við biðjum fólk sem er á gosstöðvunum að huga að eigið öryggi, fara varlega og höfða til þeirra sem ætlar sér út á hraunið,“ segir í tilkynningunni.