Innlegg í þættinum Veislan á RÚV hefur farið fyrir brjóstið á mörgum dýra og fuglaverndunarsinnum. Í atriðinu má sjá Sverri Þór Sverrisson, eða Sveppa, ásamt heimamanni fanga og aflífa lunda. Eru aðfarirnar sagðar klaufalegar og ósmekklegar á dýri sem sé á válista.
„Er hugsi yfir matreiðsluþætti á RÚV þar sem þekktur grínari ásamt matreiðslumanni fanga lunda á miðju varptímabili og elda,“ segir leiðsögumaðurinn Kristján E. Karlsson í færslu á samfélagsmiðlum.
Vísar hann til þáttarins Veislan á RÚV í umsjón Sveppa, en í þáttaröðinni fer hann með matreiðslumönnum út í hinar ýmsu eyjar við Ísland til að elda mat og bjóða fólki að gæða sér á. Í þessum tiltekna þætti var farið út í eyjuna Flatey á Skjálfanda og þar veiddir lundar í net og snúnir úr hálslið.
„Það er verulega ógeðfellt að sjá þá reyna að snúa úr hálsliðnum fuglategund sem er í bráðri útrýmingarhættu – aðfarirnar eru klaufalegar og greinilegt að fuglarnir þjást á meðan þeir kumpánar flissa og skemmta sér. Það er líka næstum víst að í einhverjum holum bíða ungar eftir æti sem aldrei kemur,“ segir Kristján.
Vísar hann einnig til válista Náttúrufræðistofnunar Íslands þar sem kemur fram að lundi sé „tegund í bráðri hættu“. En aðeins tveir flokkar eru fyrir ofan það, það er „tegundir útdauðar á Íslandi“ sem aðeins þrjár tegundir fugla tilheyra og „útdauðar tegundir“ sem er aðeins geirfuglinn.
Miklar umræður hafa skapast um færslu Kristjáns og þennan tiltekna þátt á samfélagsmiðlum. Einkum á samfélagsmiðlagrúbbunni Fuglar á Íslandi. En þar taka margir fuglaáhugamenn undir með honum og lýsa hneykslun sinni á þættinum.
„Þetta á ekkert skylt við veiðimennsku,“ segir einn. „Já mjög dapurlegt og þessu fólki til vansa. Hreint út sagt ömurlegt og grimmt. Tillitsleysið algjört og heimskulegt,“ segir annar.
Ein kona telur að það þurfi að ganga lengra með málið. „Þetta er ömurlegt, við þurfum að bregðast við og kæra þetta,“ segir hún.
Aðrir koma hins vegar þáttargerðarmönnum og lundaveiði til varnar.
„Það var nú veitt sér til matar hér áður fyrr bæði til sjós og lands og er gert enn þá og margar hefðir enn í fullu gildi,“ segir einn.
Annar bendir á að hávaveiði sé leyfð frá 1. júlí og yfir milljón lundar séu á Íslandi. Stofnmat hafi ekki farið fram síðan árið 2018. „En að því sögðu þá á að sýna allri bráð virðingu og aflífa á sem hraðvirkasta hátt og mér persónulega sem veiðimanni finnst svona háttsemi skaða útávið,“ segir hann.