Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, vann miskabótamál gegn ríkinu sem hann höfðaði vegna flutnings í starfi. Dómur um þetta var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 30. apríl síðastliðinn. Ríkið þarf að greiða Margeiri tvær milljónir króna í miskabætur og 1,6 milljónir í málskostnað.
Margeir átti í ástarsambandi við undirmann sinn hjá lögreglunni, konu sem kvartaði undan honum og sakaði hann um kynferðislega áreitni og ofbeldisfulla hegðun sem lýsti sér í ágengum textaskilaboðum. Sambandinu lauk um um áramótin 2022-2023 og kvörtun konunnar kom fram um sama leyti. Sálfræðistofa sem falið var að kanna málið komst að þeirri niðurstöðu að konan hafði orðið fyrir ítrekaðri áreitni af hálfu Margeirs. Var máið tilkynnt til héraðssaksóknara sem taldi ekki ástæðu til að rannsaka málið og vísaði því frá.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu áminnti Margeir fyrir hegðun hans og ákvað að færa hann til í starfi. Var hann ekki lengur yfirmaður deildar sinnar eftir það. Tilefni áminningarinnar og flutnings í starfi voru þau að hann hefði farið yfir mörk konunnar bæði á meðan ástarsambandi þeirra stóð og eftir að því lauk.
Margeir taldi ákvörðunina hafa vegið að æru hans og stefndi ríkinu. Héraðsdómur er sammála honum. Segir í niðurstöðu dómsins að hægt hefði verið að láta Margeir gegna störfums sínum óbreyttum áfram án þess að hann væri yfirmaður konunnar. Héraðsdómur ógilti því þessa ákvörðun og dæmdi ríkið til að greiða Margeiri bætur eins og fyrr segir.
Dóminn má sjá hér.