fbpx
Laugardagur 10.maí 2025
Fréttir

Þarf að endurgreiða meira en hálfa milljón vegna gróða eiginmannsins

Jakob Snævar Ólafsson
Laugardaginn 10. maí 2025 10:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Úrskurðarnefnd velferðarmála hefur staðfest þá niðurstöðu Tryggingastofnunar ríkisins að kona sem er örorkulífeyrisþegi skuli endurgreiða stofnunni ofgreiddan lífeyri að fjárhæð 531.500. Er krafan um endurgreiðslu tilkomin vegna hagnaðar eiginmanns konunnar af sölu á arfi sem honum áskotnaðist en konan segist ekki ráða við vegna bágrar fjárhagsstöðu að endurgreiða kröfuna.

Krafa Tryggingastofnunar varðar greiddan lífeyri ársins 2023. Konan óskaði eftir niðurfellingu kröfunnar en þegar stofnunin hafnaði því var málið kært til nefndarinnar.

Í kæru konunnar kom fram að krafan um endurgreiðslu væri að mestu leyti tilkomin vegna söluhagnaðar manns hennar. Hún hafi ekki verið með neinar launatekjur á árinu. Lífeyrissjóðstekjur í skattframtalinu hafi verið um 39.000 krónum hærri en í tekjuáætlun og aðrar fjármagnstekjur, vextir og verðbætur voru rétt um 80.000 krónur. Konan sagði þessar tekjur hafa því haft mjög takmörkuð áhrif til tekjuskerðinga. Söluhagnaðurinn væri allur vegna sölu manns hennar á því sem hann fékk í arf, en hvað það nákvæmlega var hefur verið afmáð úr úrskurði nefndarinnar. Kom enn fremur fram í kærunni að í uppgjörinu hafi Tryggingastofnun ákvarðað að fjármagnstekjur konunnar, að teknu tilliti til söluhagnaðarins væru samtals 3.843.000 krónur þar af væru 3.763.000 vegna söluhagnaðar til manns hennar.

Áhrif samsköttunar og of seint að bæta við

Í beiðni konunnar um niðurfellingu kröfunnar kom fram að hún hafi ekki áttað sig á því að samsköttun hennar og eigimannsins myndi hafa þessi áhrif. Þar að auki væru hjónin að greiða fjármagnstekjuskatt vegna sölunnar sem hljóði upp á 900.000 krónur og væru þau að greiða um 100.000 krónur á mánuði vegna þess.

Sagðist konan frá því í nóvember 2024 hafa greitt um 33.000 krónur inn á kröfuna. Heildargreiðslur til hennar að teknu tilliti til uppgjörskröfunnar hafi lækkað um tæpan þriðjung. Sagðist konan hafa verið í góðri trú um greiðslurétt sinn þegar hún hafi skilað inn tekjuáætlun fyrir árið 2023 en þar var söluhagnaðarins ekki getið. Benti konan á að ekki hafi verið mögulegt að bæta söluhagnaðinum við tekjuáætlunina þar sem salan hafi átt sér stað í desember 2023 og þá hafi verið búið að loka fyrir breytingar á áætluninni.

Vildi konan meina að hún uppfyllti ákvæði reglugerðar um endurgreiðslu ofgreiddra bóta um sérstakar aðstæður og því ætti að fallast á að fella niður kröfuna. Vísaði hún einnig til bágrar fjárhagsstöðu sinnar.

Ekki upplýst

Í kæru konunnar var gerð athugasemd við að Tryggingastofnun hefði ekki upplýst hana um þann möguleika að nýta sér heimild í lögum um almannatryggingar til að dreifa eigin tekjum sem stafi af fjármagnstekjum, sem leystar hafa verið út í einu lagi, á allt að tíu ár. Stofnunin hafi hins vegar svarað því til að vegna væntanlegra breytinga í septemner 2025 á örorkulífeyriskerfinu, sem fela meðal annars í sér að sérstakt frítekjumark vegna fjármagnstekna yrði fellt niður og eitt frítekjumark tekið upp, muni þetta tekjudreifingarákvæði verða þýðingarlaust.

Konan vildi hins vegar meina að þetta uppfyllti ákvæði reglugerðarinnar um sérstakar aðstæður. Hún vísaði einnig til þess að söluhagnaður eiginmannsins hefði farið í niðurgreiðslu skulda og að þau hjónin ættu afar erfitt með að ná endum saman. Oft hafi hún þurft að taka yfirdráttarlán til að lifa af út mánuðinn og að meðaltekjur hennar á árinu 2024 eftir að lífeyrisgreiðslur hafi verið lækkaðar hafi verið um 365.000 krónur á mánuði en föst útgjöld um 415.000 krónur. Hún ráði því einfaldlega ekki við að greiða kröfuna.

Ítrekað var í kærunni að konan hafi á engan hátt verið meðvituð um að fjármagnstekjur eiginmannsins myndu hafa áhrif á örorkulífeyri hennar og að ákvæði laga um almannatryggingar sem krafan byggði á dragi úr sjálfstæði hennar.

Helmingur

Í rökstuðningi sínum vísaði Tryggingastofnun ekki síst til ákvæða laga um að fjármagnstekjur milli hjóna skiptist til helminga við útreikninga á lífeyrisgreiðslum. Vísaði stofnunin til þess að greiðslur til konunnar hafi verið skertar um 11.000 krónur á mánuði þar til krafan verði greidd. Þannig hafi verið komið til móts við konuna og eignastaða hennar væri þar að auki slík að eignir væru hærri en skuldir. Sagði stofnunin að henni væri einfaldlega ekki heimilt að líta framhjá tekjum sem gefnar væru upp á skattframtali.

Vildi stofnunin meina að ákvæði reglugerðarinnar, sem konan vísaði til, um niðufellingu kröfu um endurgreiðslu vegna sérstakra aðstæðna ættu ekki við í þessu tilfelli og að þótt konan hafi verið í góðri trú leiddi það ekki eitt og sér til niðurfellingu kröfunnar.

Úrskurðarnefnd velferðarmála tekur undir það að sú staðreynd að konan hafi verið í góðri trú þegar fjármagnstekna eiginmannsins var ekki getið á tekjuáætlun hennar fyrir árið 2023 leiði það ekki eitt og sér til niðurfellingu kröfunnar. Þegar kemur að þeim sjónarmiðum konunnar að hún sé með takmarkaðar tekjur og eigi erfitt með að ná endum saman og söluhagnaður eiginmanns hennar hafi farið upp í skuldir vísar nefndin til þess að meðaltekjur hennar á árinu 2024 hafi verið, samkvæmt staðgreiðsluskrá, um 441.000 krónur á mánuði. Þá verði ráðið af gögnum málsins að eignastaða hennar og eiginmanns hennar hafi verið jákvæð á árinu 2023. Jafnframt verði að líta til þess að Tryggingastofnun hafi dreift eftirstöðvum kröfunnar á 48 mánuði í stað 12 eins og lög kveði á um. Gögn málsins bendi enn fremur ekki til bágrar félagslegrar stöðu konunnar.

Nefndin tekur því ekki undir með konunni um að hún ráði ekki við að endurgreiða kröfu Tryggingastofnunar sem stendur því óhögguð.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Haaland snýr aftur
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ný verslun Ormsson og HTH opnar á Norðurtorgi

Ný verslun Ormsson og HTH opnar á Norðurtorgi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sýður á eldri borgurum við Herjólfsgötu vegna saunahúss – „Við viljum að þetta fari“

Sýður á eldri borgurum við Herjólfsgötu vegna saunahúss – „Við viljum að þetta fari“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þorvaldur Lúðvík íhugar réttarstöðu sína eftir Kastljósið í gær – „Ég hefði engu breytt eða gert öðruvísi“

Þorvaldur Lúðvík íhugar réttarstöðu sína eftir Kastljósið í gær – „Ég hefði engu breytt eða gert öðruvísi“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kári segir að útlitið sé dökkt: „Aðal­málið er að markaðirn­ir eru skelfi­leg­ir“

Kári segir að útlitið sé dökkt: „Aðal­málið er að markaðirn­ir eru skelfi­leg­ir“