fbpx
Mánudagur 16.september 2024
Fréttir

Kona vildi komast á hjúkrunarheimili en var neitað um færni- og heilsumat vegna sonar og tengdadóttur sem eru ekki til

Jakob Snævar Ólafsson
Þriðjudaginn 3. september 2024 20:00

Heilbrigðisráðuneytið felldi úr gildi ákvörðun um að synja umsókn konunnar.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Heilbrigðisráðuneytið hefur kveðið upp úrskurð í máli konu á níræðisaldri. Færni- og heilsumatsnefnd heilbrigðisumdæmis höfuðborgarsvæðisins hafði komist að þeirri niðurstöðu að andleg og líkamleg færni konunnar væri með þeim hætti að hún ætti að geta haldið áfram að búa utan hjúkrunarheimilis. Ráðuneytið ógilti ákvörðunina meðal annars á þeim grundvelli að hún hefði byggt á gögnum sem bersýnilega ættu ekki við um konuna en í ákvörðun nefndarinnar kom fram að konan hefði stuðning af syni sínum og tengdadóttur. Í kæru til ráðuneytisins fyrir hönd konunnar var hins vegar bent á að hún ætti engan son og þaðan af síður tengdadóttur.

Það var dóttir konunnar sem kærði ákvörðunina fyrir hennar hönd. Konan sótti í apríl á þessu ári um færni- og heilsumat hjá nefndinni vegna langtímadvalar í hjúkrunarrými. Í umsókninni kom fram að konan treysti sér ekki lengur til að búa ein. Hún upplifði langvarandi verki og sjúkdóma, dytti reglulega, sæi illa og væri illa áttuð. Hún ætti tvær dætur sem væru ekki í aðstöðu til að aðstoða hana í þeim mæli sem þörf væri á.

Nefndin óskaði eftir gögnum frá þeim opinberu aðilum sem konan naut þjónustu hjá, til að mynda hjá heilsugæslu og félagsráðgjafa. Í þeim gögnum kom fram að konan byggi ein en í sama húsi og sonur hennar og tengdadóttir og nyti eftirlits þeirra. Nefndin komst því að þeirri niðurstöðu að ekki væru til staðar forsendur fyrir færni- og heilsumati í hjúkrunarrými og að heimaþjónusta hefði ekki verið fullnýtt.

Hafi ekki heilsu og getu

Í kærunni til heilbrigðisráðuneytisins kom fram að konan hefði ekki heilsu eða getu til að búa áfram ein. Færni- og heilsumatsnefndin andmælti því og sagði konuna viðhalda enn að stofni til færni í persónulegum athöfnum daglegs lífs.

Konan og dóttir hennar fullyrtu að mikið af þeim upplýsingum sem nefndin byggði niðurstöðu sína á væru rangar. Þær sögðu að í læknabréfi sem nefndin aflaði vegna umsóknarinnar kæmi fram að konan byggi í sama húsi og sonur sinn og tengdadóttir, nyti stöðugs eftirlits þeirra og deildi með þeim máltíð á hverjum degi.

Hið rétta sé hins vegar að konan eigi hvorki son né tengdadóttur og njóti þar af leiðandi ekki stöðugs eftirlits og deili heldur ekki máltíð daglega með afkomendum sínum. Konan búi ein i lyftulausu húsnæði, fjarri dætrum sínum tveimur. Einnig kom fram í kærunni að konan þurfi daglega aðstoð og búi við félagslega einangrun. Hún hafi oft þurft að kalla eftir aðstoð frá öryggisfyrirtæki og sjúkraflutningamönnum að nóttu til eftir að hafa dottið.

Í úrskurði heilbrigðisráðuneytisins segir að ljósi þessara fullyrðinga, um að ákvörðun Færni- og heilsumatsnefndar hefði byggt á röngum upplýsingum, sem ættu líklega við annan einstakling, hefði ráðuneytið spurst fyrir um það hjá nefndinni hvort þessar upplýsingar breyttu afstöðu hennar til málsins.

Nefndin sagði meðal annars í sínum svörum að hún gæti ekki borið ábyrgð á þeim mistökum sem kæmu fram í gögnunum. Nefndin hélt sig þó við sína fyrri niðurstöðu. Vísaði hún meðal annars til gagna frá heimilislækni konunnar um að hún væri fær um að sinna frumathöfnum daglegs lífs með aðstoð heimahjúkrunar.

Konan og dóttir hennar sögðu hins vegar nauðsynlegt að afla nýrra gagna sem væru í samræmi við raunverulega stöðu hennar og að málsmeðferðin hefði verið óréttlát.

Gamalt mat

Í niðurstöðu heilbrigðisráðuneytisins segir að nefndin hafi ekki mótmælt því að þær upplýsingar í læknabréfi um konuna að hún hefði stuðning af syni og tengdadóttur væru rangar. Niðurstaða læknabréfsins væri því bersýnilega byggð á þessum röngum forsendum. Þá væri mat á hæfni konunnar til athafna daglegs lífs sem og mat á andlegu atgervi hennar, sem nefndin vísaði til í sinni niðurstöðu, þriggja ára gamalt.

Ráðuneytið minnir á að færni- og heilsumatsnefnd heilbrigðisumdæmis höfuðborgarsvæðisins beri samkvæmt lögum ábyrgð á því að ákvörðun hennar byggi á réttum upplýsingum. Einnig beri nefndinni að veita málsaðila færi á að tjá sig um gögn sem niðurstaða hennar byggi á.

Hinar röngu upplýsingar um konuna sem komi fram í læknabréfinu hafi greinilega vegið þungt í þeirri ákvörðun að hafna umsókn hennar um færni- og heilsumat. Nefndin hafi einnig ekki upplýst konuna um þau gögn sem hún aflaði og heldur ekki gefið henni tækifæri til að tjá sig um þau. Þetta allt sé ekki í samræmi við stjórnsýslulög.

Ákvörðun færni- og heilsumatsnefndar heilbrigðisumdæmis höfuðborgarsvæðisins var því felld úr gildi og lagt fyrir hana að taka mál konunnar til meðferðar að nýju.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Pútín á tvo syni sem hann felur fyrir umheiminum – Þetta er vitað um þá

Pútín á tvo syni sem hann felur fyrir umheiminum – Þetta er vitað um þá
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Trump var skotmark í annarri skotárás

Trump var skotmark í annarri skotárás
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sólveig Anna segir frá skelfilegum aðstæðum starfsmanns Elvars

Sólveig Anna segir frá skelfilegum aðstæðum starfsmanns Elvars
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Leigusali fór ekki eftir leigusamningi

Leigusali fór ekki eftir leigusamningi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Magga Frikka og lögmaður hennar krefjast þess að dómari víki sæti

Magga Frikka og lögmaður hennar krefjast þess að dómari víki sæti
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ákæran er á leiðinni og Ásta þarf loksins að svara til saka – Sat heilt sumar í gæsluvarðhaldi

Ákæran er á leiðinni og Ásta þarf loksins að svara til saka – Sat heilt sumar í gæsluvarðhaldi