fbpx
Fimmtudagur 03.október 2024
Fréttir

Hugsi yfir hörkunni sem beitt var gegn Yazan og fjölskyldu hans – „Enginn veitti mótspyrnu“

Björn Þorfinnsson
Þriðjudaginn 17. september 2024 11:25

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Helga Vala Helgadóttir, lögmaður og fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar, segist hugsi yfir þeirri hörku sem fjölskylda Yasan Tamini, langveiks drengs frá Palestínu, var beitt þegar flytja átti fjölskylduna úr landi í gærmorgun.

Segir hún í færslu á Facebook-síðu sinni að aðgerðirnar séu réttlætar með því orði að fjölskyldan hafi ekki ætlað að vera „samvinnuþýð“, eins og fulltrúi ríkislögreglustjóra lýsti yfir í Kastljósi í gær og kvaðst hafa lesið um í fjölmiðlum.

„Að vera ó- samvinnuþýður er ekki það sama og að veita viðspyrnu eða beita ofbeldi heldur virðist það vera nóg að viðkomandi kæri niðurstöður Útlendingastofnunar, séu ekki sammála brottvísun eða endursendingu og láti reyna á lögbundinn rétt sinn til dvalar hér á landi með þeim ráðum sem skráð eru í lög. Því er hins vegar mætt með því að lögregla mætir á dvalarstað langveiks barns í Rjóðrinu, Landspítala, seint um kvöld og eftir háttatíma barnsins, og sækir það og móður þess. Sérsveit ríkislögreglustjóra mætir svo á dvalarstað föður, þar sem hann er í fastasvefni (hann má væntanlega ekki vera með drengnum í Rjóðrinu þar sem bara er gert ráð fyrir einum aðstandanda), brýtur hurðina, eins og sást í fréttum, og handtekur hann til brottflutnings til Keflavíkur, þar sem fjölskyldan öll fær að dvelja í haldi lögreglu í 7 – 8 klukkutíma eftir flugi til Spánar,“ skrifar Helga Vala og bendir á að Yasan sé langveikur og sérstaklega viðkvæmur eftir að þjónusta fyrir hann féll niður yfir sumarmánuðina.

Faðir Yasan hafi enga mótspyrnu veitt og bent á hvort að ekki hafi verið einfaldara að hringja bara í sig í stað þess að ryðjast inn á heimikið.

„Samvinnuþýð… er nú notað til afbökunar á allri umræðu um fólk í leit að vernd, rétt eins og  „lokað búsetuúrræði“,  „heimferðar- og fylgdardeild“ og  „rafvarnarvopn“ svo dæmi séu tekin,“ skrifar Helga Vala.

Aðfarnirnar gegn Yasan og fjölskyldu hans hafa vakið mikla reiði í samfélaginu og hafa fjölmenn mótmæli staðið yfir fyrir framan skrifstofu forsætisráðuneytisins þar sem ríkisstjórnin fundar. Guðrún Hafsteinsdóttir greip inn í á síðustu stundu og frestaði brottvísuninni eftir beiðni þess efnis frá Guðmundi Inga Guðbrandssyni, félagsmálaráðherra.

Hefur hún síðan viðurkennt að hafa ekki haft heimild til þess og þá hefur hún ítrekað að aðeins sé um frestun að ræða. Brottvísun fjölskyldunnar standi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt