fbpx
Fimmtudagur 02.maí 2024
Fréttir

Uppfært: Katrín býður sig fram til embættis forseta Íslands

Ritstjórn DV
Föstudaginn 5. apríl 2024 12:24

Katrín Jakobsdóttir. Mynd/Skjáskot úr framboðsmyndbandi

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Katrín Jakobsdóttir hefur ákveðið að gefa kost á sér til embættis forseta Íslands í komandi kosningum. Þetta kemur fram í yfirlýsingu hennar í myndbandi sem birtist á samfélagsmiðlum nú fyrir stundu. Segist hún hafa fyrir nokkru síðan ákveðið að gefa ekki kost á sér í næstu alþingiskosningum en vilji enn vinna samfélaginu og Íslandi gagn og það telji hún sig geta gert í embætti forseta Íslands.

Í myndbandinu segir Katrín að þegar Guðni Th. Jóhannesson hafi tilkynnt um ákvörðun sína að bjóða sig ekki fram til endurkjörs hafi stór verkefni verið á borði hennar í forsætisráðuneytinu, eldsumbrot á Reykjanessi og undirbúningur kjarasamninga. Margt hafi unnist í þeim verkefnum síðan og séu þau komin í nokkuð öruggan farveg.

„Forsetinn þarf að skilja gangverk stjórnmála og samfélags“

Þá segist hún hafa fengið fjölmargar hvatningar úr ýmsum áttum varðandi það að gefa kost á sér.

„Þetta er mikilvægt embætti. Forsetinn þarf að skilja gangverk stjórnmála og samfélags. Hann þarf að geta sýnt forystu og auðmýkt. Hann þarf að gæta hagsmuna Íslands á alþjóðavettvangi. Hann þarf að geta tekið erfiðar ákvarðanir, óháð stundarvinsældum. Hann þarf að geta talað til þjóðarinnar allrar enda verður ekki frá honum tekið að hann er kosinn af þjóðinni,“ sagði Katrín og bætti við.

„Við erum stödd á flóknum tímum. Stríðsátökum hefur fjölgað í heiminum. Við stöndum frammi fyrir risastórum áskorunum á sviði loftslags- og umhverfismála. Tækniþróunin er á slíkum hraða að annað eins hefur ekki sést og aldrei hefur verið mikilvægara að efla og gæta að mennskunni.

Á slíkum tímum segir hún að horfa beri á undirstöðurnar, eins menntun og menningu. „Við þurfum að tryggja íslenska tungu, sem er okkar rótfesta, en á sama tíma þurfum við að standa vörð um fjölbreytnina sem einkennir íslenskt samfélag. Í öllum þessum málum hefur forsetinn hlutverki að gegna. Að tala skýrt fyrir þeim grunngildum sem við byggjum íslenskt samfélag á. Lýðræði, mannréttindum og réttarríkinu, bæði hér heima og á alþjóðavettvangi,“ segir hún í ávarpinu.

Brennur enn fyrir því að vinna samfélaginu gagn

Þá segir hún alls ekki gefið að hún gefi kost á sér í þetta embætti eftir að hafa lifað og hrærst í stjórnmálum í tuttugu ár.

„Það breytir því ekki að sú reynsla sem ég hef af stjórnmálum, reynslan sem ég hef af því að leiða saman ólíka hópa og sá skilningur sem ég hef öðlast á þeim tíma, gerir það að verkum að ég tel að hún geti nýst vel í þessu embætti. Sjálf hafði ég ákveðið fyrir allnokkru síðan að gefa ekki kost á mér í næstu þingkosningum. En áfram brenn ég fyrir því að vinna samfélagi okkar gagn og vil gera það áfram. Af þeim sökum hef ég ákveðið að biðjast lausnar sem forsætisráðherra Íslands og gefa kost á mér í komandi forsetakosningum. Ég mun á komandi vikum ferðast um landið og hitta ykkur vonandi sem flest og ræða við ykkur um framtíðina. Því ég trúi því að ég geti á þessum vettvangi verið íslenskri þjóð og til gagns ogsamfélaginu öllu,“ segir Katrín.

Framboðsmyndband Katrínar:

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt