fbpx
Miðvikudagur 01.maí 2024
Fréttir

Bergþór segir stöðuna óboðlega: „Hvernig lentum við á þessum stað?“

Ritstjórn DV
Mánudaginn 12. febrúar 2024 08:00

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Hvernig lent­um við á þess­um stað? Gát­um við gert eitt­hvað bet­ur á fyrri stig­um. Hvað nú?“

Þessum spurningum varpar Bergþór Ólason fram í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag vegna þeirrar stöðu sem uppi er á Reykjanesi.

„Tug­ir þúsunda íbúa á Reykja­nesi búa nú við þá stöðu að hí­býli þeirra hafa verið án hefðbund­inn­ar hús­hit­un­ar dög­um sam­an, í miðju kuldakasti. Til að bæta gráu ofan á svart þolir raf­magns­kerfið ekki það álag sem raf­magn­sofn­um fylg­ir, sé ætl­un­in að hita hús með þeim en ekki bara stök her­bergi.“

Bergþór veltir fyrir sér hvernig þessi staða gat komið á jarðhitalandinu Íslandi. Bendir hann á að í ágætri skýrslu um stöðu hitaveitna á Íslandi sem unnin var að beiðni orkumálaráðherra og kom út síðastliðið vor hafi verið dregin upp hryggðarmynd af stöðu þeirra. Voru tvær af hverjum þremur veitum aldar eiga við fyrirsjáanlegan vanda við að mæta eftirspurn.

„Fólk fékk nasaþef­inn af þessu þegar sund­laug­um var lokað í kuldatíð í fyrra. Sú ótrú­lega mynd var dreg­in upp í skýrsl­unni að í raun hafi sára­lítið verið aðhafst hvað frek­ari öfl­un heits vatns varðar í tvo ára­tugi. Það er auðvitað ótrú­legt og óboðlegt, á jarðhita­land­inu Íslandi.“

Þegar kemur að framleiðslu rafmagns sé staðan ekki mikið skárri og hreinlega grátleg þegar horft er til þess hve illa hef­ur gengið að koma verk­efn­um um flutn­ings­lín­ur í fram­kvæmd.

„Nú um stund­ir væri til dæm­is ágætt ef Suður­nesjalína 2, sem hef­ur verið lengi í tafa­ferli, gæti flutt raf­magn inn á svæðið. Sama á við um flutn­ings­lín­ur á milli lands­hluta en veik­b­urða flutn­ingsnet veld­ur gríðarlegu tjóni og sóun í orku­kerf­inu,“ segir hann í grein sinni. Hann segir að hvað heita vatnið varðar, raf­magns­fram­leiðslu og flutn­ings­kerf­in höf­um við flotið sof­andi að feigðarósi.

„Þegar reglu­verk um orku­fram­leiðslu og tengd mál var formað, lög um um­hverf­is­mat, ramm­a­áætl­un og fleira, var ör­ugg­lega ekki ætl­un þeirra sem það gerðu að koma mál­um þannig fyr­ir að ill­mögu­legt væri að kom­ast áfram, jafn­vel með verk­efni sem eru í nýt­ing­ar­flokki ramm­a­áætl­un­ar. Nál­ar­auga um­hverf­is­mats­ins væri svo þröngt að orkulandið Ísland yrði orku­laust,“ segir hann og endar grein sína á þessum orðum:

„Við verðum að vakna gagn­vart þess­um mál­um og sjálf­ur tel ég blasa við að sér­lög um til­tekna virkj­un­ar­kosti og línu­lagn­ir séu leiðin fram á við; við nú­ver­andi ástand enda­lausra tafa verður ekki búið leng­ur.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt