Tónlistarmaðurinn, Stefán Jakobsson, eða Stebbi Jak, eins og hann er jafnan kallaður, varð fyrir líkamsárás í vinnunni um helgina eins og DV greindi frá. Ölvaður gestur á árshátíð réðst til atlögu við Stefán og sló hann þéttu höggi í höfuðið.
„Því betur fyrir mig og þann sem taldi sig eiga eitthvað sökótt við mig sá ég hann í tíma og náði að „verja“ höggið með enninu, þar sem hendurnar voru uppteknar við að slá á gítarinn. Hefði höggið hitt í andlitið má ætla að þetta hefði farið mun verr,“ skrifar Stefán í færslu á Facebook-síðu sinni.
Manninum var hent út úr húsi og ákvað Stefán að stíga aftur upp á svið og klára giggið. „Ætlum við að láta einn mann eyðileggja annars gott kvöld??“ sagði hann við gesti árshátíðarinnar og hélt áfram spilamennskunni. „ Áverkar og eftirköst eru í stóra samhenginu smávægileg og munu af öllum líkindum ekki hafa frekari áhrif, þó tíminn verði auðvitað að leiða það í ljós. Ég hef tekið því rólega síðustu daga og sleppt líkamlegum átökum. Ég hef átt gott samtal við þá sem réðu mig i giggið. Öryggi og aðbúnaður listamanna verður framvegis tryggt betur í framtíðinni.“
Í færslunni greinir Stefán frá því að árásarmaðurinn hafi heyrt í sér í dag og beðist afsökunar á hegðun sinni. Stefán hafi ekki átt slíka atlögu skilið.