DV barst ábending um að spænskir lögreglumenn hefðu farið um borð í flugvél frá Play sem lenti í Alicante í eftirmiðdaginn. Vélin var að koma frá Íslandi.
Birgir Olgeirsson, sérfræðingur á samskiptasviði Play, staðfesti í samtali við DV að leitað hafi verið aðstoðar staðarlögreglu vegna farþega um borð í vélinni.
Segir Birgir að farþeginn hafi verið með óspektir um borð. Birgir segir aðspurður að ekki hafi staðið ógn af manninum en framferði hans var flokkað sem óspektir.
Birgir staðfestir að lögregla hafi komið um borð í flugvélina vegna mannsins en segir að allt hafi gengið áfallalaus fyrir sig. Telur hann að atvikið hafi ekki valdið löngum töfum varðandi för farþega út úr vélinni, varla meira en fimm til tíu mínútur.
Aðspurður staðfesti Birgir að maðurinn sem í hlut átti sé íslenskur.