fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Fréttir

Bönkuðu upp á hjá manninum sem braut gegn dóttur hans – Það endaði með dómsmáli

Einar Þór Sigurðsson
Fimmtudaginn 2. maí 2024 15:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann í 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir líkamsárás sem framin var vorið 2022.

Atvikið átti sér stað fyrir utan leiguherbergi eða einstaklingsíbúð á jarðhæð í fjölbýlishúsi á höfuðborgarsvæðinu. Tveir menn knúðu dyra á heimili þess þriðja þann 17. maí 2022 og var húsráðandi tekinn hálstaki með þeim afleiðingum að hann hlaut roða á hálsi. Þó árásin hafi ekki verið alvarleg vekur forsaga málsins athygli.

Sagði honum frá brotinu

Húsráðandi gaf skýrslu hjá lögreglu um þremur vikum eftir árásina og sagði að annar umræddra manna, sá sem stóð álengdar og fylgdist með atganginum, væri faðir stúlku sem brotaþoli hlaut dóm fyrir að brjóta gegn kynferðislega árið 2021. Hann kvaðst þó ekki vita nein deili á árásarmanninum og sagði að mennirnir hefðu viljað ræða við hann um fyrrgreint dómsmál.

Faðir stúlkunnar sagði í skýrslutöku hjá lögreglu að hann og ákærði væru vinnufélagar og aðdragandi málsins hefði verið með þeim hætti að hann hefði fyrr um daginn trúað ákærða fyrir því hvað hefði komið fyrir dóttur hans á unglingsaldri og hvernig maðurinn í umræddri íbúð tengdist þeim atvikum, samanber umrætt dómsmál.

Í dómnum segir meðal annars:

„Vitnið og ákærði hefðu farið á staðinn til að athuga hvort brotaþoli byggi í húsinu en þeir ekki haft neitt illt í hyggju. Umrætt fjölbýlishús væri nálægt skóla og þeir hefðu viljað tryggja öryggi annarra barna vitnisins.“

Sögðu húsráðanda hafa brugðist ókvæða við

Bæði faðirinn og ákærði sögðu fyrir dómi að maðurinn sem þeir heimsóttu hefði fljótlega orðið „agressífur“ þegar hann bar kennsl á föðurinn. Komið hefði til stimpinga eða ýtinga en þær verið án barsmíða. Ákærði sagðist hafa orðið hræddur og reynt að verja sig gegn manninum. Nágranna hafi svo borið að og skilið þá í sundur. Spurður frekar sagðist hann ekki vera viss hver átti upptökin af því sem gerðist og þá kannaðist hann ekki við, eða mundi ekki eftir, að hafa tekið manninn hálstaki.

Nágranni í húsinu sagði hjá lögreglu að árásarmaðurinn hefði tekið manninn hálstaki og fékk það stoðir í vottorði heimilislæknis þar sem fram kemur að við skoðun hafi brotaþoli verið með mar utarlega á hálsi hægra megin.

Fyrir dómi var frekara ljósi varpað á málið. Sagði sá sem dæmdur var að hann hefði hitt félaga sinn þennan dag á heimili hans og hann verið dapur. Þá hefði hann greint honum frá því sem áður segir um kynferðisbrot gegn dóttur hans. Einnig hefði komið fram að nokkru áður hefði sést til ferða umrædds geranda, brotaþola í málinu, í nágrenni við skóla þar sem önnur börn föðurins voru nemendur. Þeir hefðu því farið að húsnæði þar sem brotaþoli var búsettur og ætlað að athuga hvort hann væri enn þá með heimili þar. Þeir hefðu haft öryggi barnanna í huga en ekki ætlað að gera neitt á hlut mannsins. Maðurinn hafi hins vagar brugðist reiðilega við þegar hann sá hverjir voru komnir.

Lagði sig eftir vinnu

Brotaþoli sagði aðra sögu fyrir dómi. Hann hefði lagt sig eftir vinnu þennan dag og vaknað þegar einhver, nágranni að hann taldi í fyrstu, bankaði á hurðina hjá honum. Hann hefði orðið mjög hissa þegar hann sá að faðir stúlku úr fyrrgreindu dómsmáli var kominn ásamt yngri manni sem hann vissi engin deili á. Sagðist maðurinn hafa verið rólegur og ekki ógnandi á neinn hátt, sagt að dómsmálinu væri lokið og spurt hvað þeir vildu. Mennirnir hefðu strax eða mjög fljótlega nálgast hann og yngri maðurinn gripið um hálsinn með þeim afleiðingum að hann datt á gólfið inni í herberginu.

800 þúsund krónum fátækari

Í niðurstöðu dómsins kom fram að framburður brotaþola um hálstak fengi stoð í fyrirliggjandi gögnum, frásögnum vitna og læknisvottorði þar á meðal. Var það mat dómsins að framburður ákærða um neyðarvörn væri eftiráskýring sem ætti ekki við rök að styðjast. 30 daga skilorðsbundið fangelsi var því niðurstaðan.

Til refsimildunar var horft til þess að tafir urðu á meðferð málsins fyrir útgáfu ákæru og þá var horft til þess að óverulegt líkamstjón varð af háttseminni. „Til refsiþyngingar horfir hins vegar að brotið var gegn mikilvægum verndarhagsmunum og árásin var hættuleg þar sem hún beindist að hálsi brotaþola,“ segir í niðurstöðu dómsins.

Fangelsisdómurinn yfir manninum er skilorðsbundinn til tveggja ára, en auk þess var honum gert að greiða laun skipaðs verjanda síns, 800 þúsund krónur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Sveitarstjórn í Gran Canaria ríður á vaðið og setur á ferðamannaskatt – Tekur gildi eftir áramót

Sveitarstjórn í Gran Canaria ríður á vaðið og setur á ferðamannaskatt – Tekur gildi eftir áramót
Fréttir
Í gær

Ingólfur Kjartansson dæmdur í átta ára fangelsi

Ingólfur Kjartansson dæmdur í átta ára fangelsi
Fréttir
Í gær

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“