fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Fréttir

Norska morðgátan sem leysist líklega aldrei – Hver skrifaði bréfið sem var í rauða stólnum?

Ritstjórn DV
Mánudaginn 29. apríl 2024 04:04

Heimili Hagen-hjónanna og Anne-Elisabeth á innfelldu myndinni.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Um klukkan 13.30 þann 31. október 2018 ók norski milljarðamæringurinn Tom Hagen heim til sín í Lørenskog, sem er í útjaðri Oslóar. Hann átti von á að eiginkona hans til 49 ára, Anne-Elisabeth Hagen, væri heima. En það var hún ekki.

Þess í stað lá fimm síðna hótunarbréf í rauðum stól í ganginum. Anne-Elisabeth, sem var 68 ára, var horfin og það er hún enn. Síðasta lífsmerkið frá henni var símtal sem hún átti við son sinn klukkan 09.14 þennan sama dag.

Í bréfinu stóð meðal annars: „VIÐ ERUM MEÐ KONUNA ÞÍNA ANNE-ELISABETH. EF ÞÚ VILT SJÁ HANA AFTUR, ÞÁ SKALTU LESA OG FYLGJA LEIÐBEININGUNUM ALGJÖRLEGA.“

Dagblaðið VG komst síðar yfir afrit af bréfinu og segir að í því hafi verið nákvæmar leiðbeiningar um hvernig Tom átti að greiða lausnargjald upp á 9 milljónir evra í rafmyntinni Monero ef hann vildi sjá eiginkonu sína á lífi aftur.

„EF ÞÚ LÆTUR LÖGREGLUNA OG FJÖLMIÐLA VITA, ÞÁ SETUR ÞÚ ÞRÝSTING Á OKKUR,“ stóð í bréfinu en allur textinn var með stórum stöfum.

En Tom lét þetta ekki aftra sér í að hafa samband við lögregluna.

Í fyrstu áttu hann og lögreglan í leynilegum samskiptum við nokkra óþekkta aðila og fóru samskiptin fram í gegnum þau símanúmer og kóða sem voru í bréfinu. En skyndilega hættu samskiptin með öllu.

Það liðu 10 vikur áður en almenningur fékk að vita um málið. Fjölmiðlar hafa fylgst vel með málinu í öll þessi ár.

Lögreglan sneri heimili hjónanna nánast við í leit að sönnunargögnum. Meira að segja klóakið var rannsakað. Leitað var að fingraförum, hárum eða öðrum DNA-vísbendingum, en án árangurs.

Bréfið hefur því verið besta vísbending lögreglunnar í öll þessi ár.

En stóra spurningin er hver skrifaði það?

Það eru stafsetningarvillur og málfarsvillur í því, sem sagt alls ekki lýtalaus norska. En spurningin er hvort þessar villur hafi verið gerðar með vilja til að villa um fyrir lögreglunni og leyna því hver skrifaði bréfið.

Lögreglan veit mikið um bréfið

Lögreglan veit eitt og annað um bréfið. Það var í hvítu C5 umslagi. Umslagið er frá þýskum framleiðanda og var framleitt í september 2017. Umslög af þessari tegund voru seld af sænsku verslunarkeðjunni Clas Ohlson sem er með verslanir í Noregi.

Bréfið var skrifað í tölvu sem er/var með Windows-stýrikerfi, annað hvort Windows 8 eða Windows 10. Intel HD Graphics 630 skjákort er/var í tölvunni.

Líklega var bréfið prentað með Hewlett Packard prentara með blekhylkjum af gerðinni HP-302 eða HP-304.

Bréfið var skrifað í WordPad og með standardstillingum fyrir línubil og spássíu.

„Í raun vitum við næstum allt um þetta bréf, nema hver skrifaði það og hvar það var prentað,“ sagði Gjermund Hanssen, yfirlögregluþjónn, 2020 í samtali við Norska ríkisútvarpið.

En lögreglunni hefur ekki tekist að finna út hver skrifaði bréfið eða hvað kom fyrir Anne-Elisabeth en hún gengur út frá því að Anne-Elisabeth hafi verið myrt strax í upphafi og að lausnargjaldskrafan hafi eingöngu átt að villa um fyrir lögreglunni.

Í síðustu viku tilkynnti lögreglan að hún hafi hætt rannsókn málsins. Niðurstaða rannsóknarinnar hefur ekki verið kynnt opinberlega en enginn nýr hefur verið handtekinn eða fengið stöðu grunaðs svo margt bendir til að þetta stærsta sakamál síðari tíma í Noregi verði aldrei leyst. Nema auðvitað það komi nýjar upplýsingar fram. Þá verður hægt að hefja rannsókn málsins á nýjan leik.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Sveitarstjórn í Gran Canaria ríður á vaðið og setur á ferðamannaskatt – Tekur gildi eftir áramót

Sveitarstjórn í Gran Canaria ríður á vaðið og setur á ferðamannaskatt – Tekur gildi eftir áramót
Fréttir
Í gær

Ingólfur Kjartansson dæmdur í átta ára fangelsi

Ingólfur Kjartansson dæmdur í átta ára fangelsi
Fréttir
Í gær

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“