fbpx
Miðvikudagur 11.desember 2024
Fréttir

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 18. apríl 2024 11:00

Mynd: Eyþór Árnason. Myndin tengist fréttinni ekki beint

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrir Alþingi liggur frumvarp um breytingu á húsaleigulögum, en frumvarpi var vísað til velferðarnefndar í október. Varaformaður Húseigendafélagsins segir að breytingarnar sem frumvarpið boði séu þó nokkrar og fyrirséð að þær muni hafa mikil áhrif á stöðu leigjenda á Íslandi. Hagsmunasamtök hafa fagnað frumvarpinu sem eigi eftir að bæta aðstæður leigjenda til muna og stemma stigu við ósanngjörnum og einhliða hækkunum leigusala. 

Auknar skyldur á herðar leigusala

Hildur Ýr Viðarsdóttir, aðjunkt við lagadeild Háskóla Íslands og varaformaður Húseigendafélagsins, segir ljóst að áhrif breytinganna verði þónokkur. Hildur rekur í grein sem birtist hjá Vísi í morgun að verði frumvarpið að lögum muni auknar skyldur leggjast á herðar leigusala, leigutaka til hagsbóta.

Breytingar þessar eru einkum þeim til hagsbóta sem gera tímabundna leigusamninga. Til dæmis verður bannað að tengja tímabundna leigusamninga við vísitölu og ekki verður heimilt að gera breytingar á leiguverði styttri samninga. Leigusala verður skylt að skrá leigusamning hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, að viðlögðum sektum.

Hvað varðar tímabundna samninga verður leigusala skylt að tilkynna leigjanda minnst þremur mánuðum áður en samningur rennur út að verði húsnæðið áfram til leigu eigi leigjandi forgang. Látið leigusali þetta fyrir farast á leigutaki rétt á að leigja áfram að leigutíma loknum. Ætli leigusali að skipta um leigjanda þarf hann að rökstyðja það sérstaklega að forgangsréttur eigi ekki við.

Leigusölum verður gert erfitt að hækka leiguverð þegar samningur er endurnýjaður ef leiguverð telst enn sanngjarnt.

Hvað ótímabundna samninga varðar þá mun leigusali eftir breytingarnar ekki geta sagt slíkum samningi upp nema að uppfylltum ströngum skilyrðum á borð við að til standi að taka húsnæði til eigin nota eða ráðstafa því til afkomenda, foreldra eða tengdaforeldra. Leigusali má segja samningi upp ef hann ætlar að selja húsnæðið á næstu sex mánuðum eftir lok leigutíma. Eins ef stefnir í verulegar framkvæmdir eða endurbætur sem munu gera leiguhúsnæði óíbúðarhæft í minnst tvo mánuði.

Eftir sem áður má leigusali segja upp samningi ef um vanefndir er að ræða eða ef leigjandi gerist sekur um brot sem varðað getur riftun, eða leigjandi hafi vanrækt skyldur sínar eða sýnt af sér háttsemi sem gefur tilefni til að leigusambandi sé slitið.

Loks ef sanngjarnt mat á  hagsmunum leigusala og leigjanda og aðstæðum þeirra réttlæti að öðru leyti uppsögn.

Þarf að gæta að kennitöluflakki

Hagsmunasamtök heimilanna eru í umsögn sinni við frumvarpið heilshugar fylgjandi markmiðum þess. Nauðsynlegt sé þó að skerpa á reglum til að stemma stigu við óhóflegum hækkunum á húsnæðiskostnaði. Að mati samtakanna eru leigjendur almennt ómeðvitaðir um forgangsrétt sinn til áframhaldandi leigu samkvæmt núgildandi lögum og því mikilvægt að þeim verði tilkynnt um slíkt sérstaklega, líkt og frumvarpið leggi til.

„Auk þess þarf að stemma stigu við svikum sem felast í því að leigusali segist ætla að selja íbúðina til að losna undan skyldum síum, þegar í raun er aðeins um að ræða kennitöluflakk til félags í eigu sama aðila.“

Örorkubandalagið fagnar tilgangi og markmiðum frumvarpsins en þar sé meðal annars fjallað um aðstæður fatlaðs fólks á eigumarkaði og það háa hlutfall ráðstöfunartekna sem örorkulífeyristakar greiða til rekstur húsnæðis. Fatlað fólk búi í auknum mæli í leiguhúsnæði en ófatlað, en þar með er staða þeirra verri og ójöfn öðrum þjóðfélagshópum. Öryrkjar greini frá því að finnast erfitt að finna sér leiguhúsnæði, en „uppsprengt“ leiguverð spili þar lykilhlutverk. Bið eftir félagslegu húsnæði sé oft löng og strembin og dæmi eru þess að fatlað fólk neyðist til að flytja inn á ættingja eða verði hreinlega heimilislaust. Rúmlega helmingur öryrkja á biðlista eftir félagslegu húsnæði hafi verið á listanum í þrjú ár eða lengur.

„Það er því brýnt að tryggja þessum hópi fólks öruggt húsaskjól og fjárhagslegt aðgengi að almennum leigumarkaði.“

Leigjendur settir í ómögulega stöðu

Þegar drög að frumvarpi voru kynnt í Samráðsgátt stjórnvalda barst umsögn frá Neytendasamtökunum þar sem fyrirhugaðar breytingar voru kallaðar skref í rétta átt. Neytendasamtökin tóku undir með Hagsmunasamtökum heimilanna að leigjendur séu almennt ómeðvitaðir um forgangsrétt sinn eða komist að honum of seint.

„Algengt er, og þá ekki síst undanfarið ár, að leigjendur leiti til samtakanna við endurnýjun á tímabundnum leigusamningum. Oftar en ekki virðist sem viðræðum um slík endurnýjun eigi sér stað nokkuð seint, þ.e. þegar skammur tími er eftir af samningi. Leigjendum er þá oft á tíðum boðin endurnýjun gegn hækkun á leiguverði, stundum umtalsverðri og jafnvel þrátt fyrir að leigufjárhæðin hafi þegar verið bundin vísitölu.

Með því eru leigjendur settir í þá ómögulegu stöðu að þurfa að sætta sig við hækkun á leiguverði, sem þeir telja ósanngjarna eða ráða jafnvel ekki við. Að öðrum kosti hafi þeir einungis örfáar vikur til að finna sér nýtt húsnæði, sem ekki er hlaupið að.“

Samtökin fagna því eins að heimildir til að segja ótímabundnum samningi upp séu takmarkaðar, þar með sé komin smá vernd gegn því að leigusamningum sé sagt upp bara því leigutaki mótmælir hækkun á leigu. Eins sé í frumvarpi kveðið á um flýtimeðferð mála sem varða ágreining um leigufjárhæð fyrir kærunefnd húsamála. Þetta sé til bóta en samtökin séu uggandi yfir núverandi málsmeðferðartíma nefndarinnar og telja ljóst að efla þurfi nefndina og tryggja skjótari málsmeðferð.

Hagstofa Íslands fagnar áætlunum um skylduskráningu leigusamninga. Þar með verði upplýsingasöfnun um leigumarkað komið í betra horf en nú er og auk þess muni gögn nýtast til opinberrar hagskýrslugerðar og vera ómetanlegar upplýsingar um íslenskan leigumarkað.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

„Forkastanlegt að atvinnurekendur skuli grafa með þessum hætti undan réttindum launafólks“

„Forkastanlegt að atvinnurekendur skuli grafa með þessum hætti undan réttindum launafólks“
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Ólafur Ágúst spyr hvort Vernd sé einkarekið fangelsi í dulbúningi – „Ákveðin tegund þrælahalds“

Ólafur Ágúst spyr hvort Vernd sé einkarekið fangelsi í dulbúningi – „Ákveðin tegund þrælahalds“
Fréttir
Í gær

Öskrin í konunni reyndust á „heldur jákvæðari nótum“ en óttast var

Öskrin í konunni reyndust á „heldur jákvæðari nótum“ en óttast var
Fréttir
Í gær

Zelenskyy segir að hægt sé að senda erlendar hersveitir til Úkraínu áður en af NATÓ-aðild verður

Zelenskyy segir að hægt sé að senda erlendar hersveitir til Úkraínu áður en af NATÓ-aðild verður
Fréttir
Í gær

Ákeyrsla á bílastæði eyðilagði framtíðina sem hún stefndi að

Ákeyrsla á bílastæði eyðilagði framtíðina sem hún stefndi að
Fréttir
Í gær

Sigurður Fannar ákærður fyrir morð á dóttur sinni

Sigurður Fannar ákærður fyrir morð á dóttur sinni