Héraðsdómur Reykjaness og Landsréttur hafa staðfest ákvörðun ríkissaksóknara um að verða við beiðni pólskra yfirvalda um að afhenda til Póllands mann sem á eftir að afplána þar tveggja og hálfs árs fangelsi af dómi sem hann hlaut fyrir fíkniefnabrot.
Maðurinn segist hafa búið á Íslandi í rúmlega þrjú ár og fest rætur hér. Hefur hann óskað eftir því að afplána frekar hér á landi. Fyrir dómi sagðist hann hafa skapað sér eðlilegt líf á Íslandi, ætti kærustu og væri í vinnu. Hann segist vera almennt hraustur en glími við þunglyndi og hafi leitað til læknis vegna þess. Hefur maðurinn óskað eftir því að beiðni pólskra yfirvalda um afhendingu hans verði synjað af mannúðarástæðum.
Hann vísaði til ákvæða laga þess efnis að synja skuli um afhendingu manns samkvæmt handtökuskipun ef afhendingin sé í andstöðu við ákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu. Telur maðurinn að það feli í sér ómannúðlega og vanvirðandi meðferð að senda hann til Póllands. Í úrskurðinum segir um þetta: „Þar í landi verði hann í viðkvæmri stöðu þar sem hann hafi ekki búið þar né heimsótt landið í þrjú ár og þar eigi hann engan að. Telur varnaraðili að hagsmunir hans vegi þyngra en hagsmunir pólskra yfirvalda fyrir afhendingarbeiðninni. Dómar sem varnaraðili hafi hlotið varði ekki alvarleg brot og sanngirnissjónarmið mæli gegn því að beita varnaraðila svo íþyngjandi þvingunarráðstöfunum og þá einkum með tilliti til aldurs hans.“
Á þessi rök féllst dómsvaldið ekki og vísaði meðal annars til þess að afbrot mannsins í Póllandi væru líka refsiverð hér á landi. Telja bæði héraðsdómur og Landsréttur að afhending mannsins til Póllands uppfylli lög og er því niðurstaðan sú að verða við beiðni pólskra yfirvalda um afhendingu mannsins til Póllands.
Úrskurði Landsréttar og héraðsdóms í málinu má lesa hér.