Áfrýjunardómstóll ÍSÍ komst nýlega að þeirri niðurstöðu að stjórn og landsliðsnefnd Landssambands hestamannafélaga (LH) hafi verið óheimilt hafi verið óheimilt að vísa Jóhanni Rúnari Skúlasyni úr landsliðshópi Íslands í hestaíþróttum þann 31. október árið 2021.
Jóhanni var vísað úr landsliðinu í kjölfar fréttaskrifa Mannlífs um mál hans. Þar var grafið upp að Jóhann var árið 1994 sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn 13 ára stúlku. Hlaut hann skilorðsbundinn dóm fyrir brotið. Í yfirlýsingu LH frá þeim tíma er Jóhanni var vísað úr landsliðinu segir meðal annars:
„Stjórn LH telur óverjandi að þeir sem hafi gerst sekir um og eða hlotið refsidóm fyrir alvarlegt kynferðisbrot séu í landsliðshópnum og komi fram sem fulltrúar LH fyrir Íslands hönd, hvort sem er hér á landi eða á erlendri grundu. Er slíkt til þess fallið að skaða ímynd LH, landsins og hestaíþróttarinnar í heild, einnig er það andstætt þeim gildum sem LH stendur fyrir, en sambandið tekur skýra afstöðu gegn öllu ofbeldi.“
Ákvörðun LH byggði á 38.1 laga ÍSÍ en þar segir:
„Framkvæmdastjórn ÍSÍ í þeim greinum, sem ÍSÍ er sérsamband fyrir, og stjórnir sérsambanda, í sínum greinum, geta kveðið upp óhlutgengisúrskurði yfir íþróttamönnum, sem brotlegir eru, en skylt er að skjóta slíkum úrskurðum til Dómstóls ÍSÍ sem ber þegar að taka slík mál fyrir.“
Í dómi áfrýjunardómstóls ÍSÍ er hins vegar ekki fallist á að sérsambönd geti ákveðið með vísan til þessarar greinar að viðkomandi skuli sæta varanlegri brottvikningu hljóti hann dóm vegna ofbeldis eða kynferðisbrots. Slík ákvörðun geti einungis vera í höndum dómstóla ÍSÍ en krafa um að Jóhann verði útilokaður frá þátttöku í landsliðsverkefnum hafi ekki komið inn á borð dómstóla ÍSÍ. „Verður ákvörðun stefnda ekki skilin á annan veg en að stefndi hafi ákveðið á grundvelli lagaheimilda sem gilda innan sérsambandsins að útiloka áfrýjanda frá keppni án tilgreiningar á tímalengd útilokunar. Ekki eru fyrir hendi lagaheimildir fyrir slíkri ákvörðun,“ segir í niðurstöðu dómsins.
Ákvörðun LH um að brottvísa Jóhanni úr landsliðsverkefnum er felld út gildi.
Lögmaður Jóhanns, Þorsteinn Einarsson, fer hörðum orðum um ákvörðun LH í málinu, í viðtali við mbl.is í gærkvöld. Hann segir að ómálefnaleg metoo-sjónarmið hafi ráðið för. „Í stuttu máli sagt var honum vikið úr landsliðinu vegna sex mánaða skilorðsbundins dóms er gekk á árinu 1994 – dóms sem ákæruvaldið var sátt við og hvorugur aðili áfrýjaði,“ segir Þorsteinn.
Þorsteinn segir ennfremur:
„Það andrúmsloft sem ríkti á þessum tíma réð refsikenndri ólögmætri ákvörðun sambandsins og er miður að menn skuli hafa látið þau sjónarmið ráða á kostnað réttinda umbjóðanda míns, sem meðal annars njóta verndar stjórnarskrárinnar. Slíkar ákvarðanir verði að standast stjórnarskrá, landslög, lög sambandsins og ÍSÍ og svokölluð metoo-sjónarmið hafi enga þýðingu enda um ólögmæt og ómálefnaleg sjónarmið að ræða.“
Þorsteinn gagnrýnir einnig harðlega ummæli sem Sigurbjörn Bárðarson, landsliðsþjálfari og landsliðseinvaldur LH, lét falla í viðtali við Vísir.is árið 2021, um brotið sem Jóhann var dæmdur fyrir árið 1994. Þar sagði Sigurbjörn: „Nú væri tekið miklu strangar á þessu en á þessum tíma. Þetta er voðalega vægur dómur miðað við eðli brotsins.“
Segir Þorsteinn fráleitt að ólöglærðir menn séu að leggja mat á dóm frá árinu 1994 og að landsliðsleinnvaldur sé með yfirlýsingar um að dómurinn hafi verið of vægur.