Fjölbrautaskóli Suðurnesja (FS) mun sameinast þeim brautum Keilis sem eru á framhaldsskólastigi. Frá þessu greinir Nútíminn.
Segir í frétt Nútímans að starfsfólk Fjölbrautaskóla Suðurnesja hafi óvænt verið boðað til fundar rétt fyrir klukkan þrjú í dag en þar var tilkynnt um sameiningu við Keili. Fjórtán hafi verið sagt upp í kjölfarið, en heimildir miðilsins segja að um sé að ræða starfsfólk Keilis.
Sameiningin mun vera liður í hagræðingu í rekstri ríkisins og hluti af tillögum stýrihóps menntamálaráðherra.
Meirihluti starfsfólks Keilis var á móti sameiningu og létu þær skoðanir í ljós í fjölmiðlum seinasta vor.
Skólameistari Fjölbrautaskólans á Suðurnesjum, Kristján Ásmundsson segir að mest máli skiptir að námsframboð nemenda á Suðurnesjum skerðist ekki. Með sameiningunni verði hægt að efla nám við skólann og verði einka- og styrktarþjálfun góð viðbót.
Framkvæmdastjóri Keilis, Nanna Kristjana Traustadóttir, segir erfitt að þurfa að kveðja starfsfólk í ljósi breytinganna en hún trúir að FS hafi alla burði til að efla námsbrautirnar enn frekar. Eftir standi tækifæri fyrir Keili til að styrkja stoðir í kringum Háskólabrú sem hafi verið hryggjarstykki skólans frá upphafi.
Greint hefur verið frá sameiningunni á vef FS en þar segir að um sé að ræða tvær námsbrautir, einka- og styrktarþjálfaranám og stúdentsbraut í tölvuleikjagerð. Stefnt sé svo að yfirfærslu þriðju brautarinnar, fótaaðgerðafræði, um áramót. Keilir muni halda áfram að kjarna starfsemi sína eftir róstursama tíma í rekstri.
Nemendur umræddra brauta muni ljúka vorönn í Keili, en verður í framhaldinu boðin námsvist í FS og fá að ljúka þar námi á þeim forsendum sem var lagt upp með frá upphafi náms þeirra.
Keilir hafi átt frumkvæðið að samtali við FS eftir áralangar fjárhagslegar áskoranir.
Geir Finnsson, kennari við Keili, lýsti yfir áhyggjum seinasta vor um þessar hugmyndir. Taldi hann líklegt að þegar væri búið að ákveða sameiningu og að samráð við kennara og nemendur væri einungis til málamynda. Hann sagði í samtali við RÚV eftir fund sem var haldinn um mögulega sameiningu í apríl:
„Til að mynda var ekki tekin niður fundargerð á fundinum. Það var ekkert skrifað niður sem við sögðum og við sögðum mjög margt, bæði nemendur og starfsmenn. Við komum okkar áliti á framfæri og við fengum mjög oft á tilfinninguna að þetta væri bara búið og gert.“
Kennurum litist illa á sameininguna og væru hrifnari af hugmynd um samstarf. Sameining væri til þess fallin að draga úr gæðum náms.
Í framhaldinu greindi Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, frá því að skólarnir yrðu ekki sameinaðir strax. Hann sagði í nóvember á Alþingi að hann væri hættur við sameininguna í bili og að margt fólk hafi unnið saman að því til að finna aðrar leiðir til að bæta skólanna. Á þeim tíma hafði mikið borið á óánægju með þessa fyrirætlan.