Íslensk lið sem etja kappi við erlendar stórstjörnur á Reykjavík Open skipa nokkur af efstu sætunum í mótinu þegar 60 spil af 100 hafa verið spiluð í sveitakeppninni.
Sveit Dinkin frá Bandaríkjunum leiðir mótið, sveit Kjöríss er í öðru sæti, sveit Doktorsins er í þriðja sæti og amerísk sveit með íslenska heimsmeistarann Hjördísi Eyþórsdóttur innanborðs er í fjórða sæti.
Næst koma tvær erlendar stórsveitir en Hótel Norðurljós og Málning þar á eftir. Í efstu tíu sætunum eru fimm íslenskar sveitir.
Áætluð mótslok eru um klukkan 17.30 í dag á spilastað í Hörpu. Mörg hundruð spilarar hafa setið við í húsinu allt síðan á mánudag þegar Masters stórmótið hófst, undanfari Bridgehátíðar.
Sveit Sabine Auken vann Reykjavík Masters mótið, verðlaunafé nam mörgum milljónum króna.