fbpx
Föstudagur 13.desember 2024
Fréttir

Stefnir ráðherra og kærir Höllu og Eyþór til nefndar um eftirlit með lögreglu – „Ég læt þetta óþverralið ekki valta yfir mig“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 27. janúar 2024 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Árni Logi Sigurbjörnsson meindýraeyðir hefur stefnt dómsmálaráðherra fyrir hönd dómsmálaráðuneytisins og krefst miskabóta upp á þrjár milljónir króna vegna vinnubragða lögreglunnar á Norðurlandi eystra við handtöku hans og húsleit á heimili hans að Víðibakka í Öxarfirði í byrjun febrúar árið 2020.

Enn fremur hefur Árni kært vinnubrögð lögreglunnar í málinu til nefndar um eftirlit með lögreglu. Það gerði hann með tilkynningu sem hann lagði fram á lögreglustöðinni á Húsavík en lögreglan vísaði málinu til eftirlitsnefndarinnar. Tilkynningin var lögð fram fyrr í þessum mánuði en, sem fyrr segir, varðar hún atburði frá því 2020. Á þeim tíma var Halla Bergþóra Björnsdóttir lögreglustjóri á Norðurlandi eystra en hún er lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu í dag. Í tilkynningunni beinir Árni einnig spjótum sínum að Eyþóri Þorbergssyni sem þá var aðstoðarsaksóknari og staðgengill lögreglustjórans á Norðurlandi eystra.

Kæra Árna felur í sér beiðni um að tekið verði til skoðunar hvort refsiverð háttsemi hafi verið viðhöfð við rannsókn mála gegn honum . Er um tvö mál að ræða, annars vegar rannsókn á kæru á hendur honum fyrir kynferðisbrot og hins vegar húsleit varðandi brot á vopnalögum.

Kona hafði kært Árna fyrir byrlun og kynferðisbrot sem átti að hafa átt sér stað á heimili hans að Víðibakka í Öxarfirði. Rannsókn málsins var felld niður. Í ljós kom við rannsókn á farsímagögnum að Árni og konan höfðu ekki verið í sama landshluta þegar brotin höfðu átt að vera framin samkvæmt vitnisburði konunnar. Lögregla spurði hana þá hvort hinir meintu atburðir hefðu getað gerst á öðrum tíma og gaf konan þá upp aðra dagsetningu. Sú dagsetning gat heldur ekki staðist því þá lá Árni á sjúkrahúsi á Akureyri vegna axlarmeiðsla.

Sonur konunnar í lögreglunni

DV fjallaði um þetta mál seint í nóvember í fyrra, sjá nánar hér. Einnig er það rakið í stefnu Árna á hendur dómsmálaráðherra, sem lögmaður hans, Sigurður Sigurjónsson hæstaréttarlögmaður, ritar. Þar kemur meðal annars fram að sonur konunnar sem kærði Árna starfaði um þetta leyti í lögreglunni á Akureyri. Fyrir liggur að hann tilkynnti málið til lögreglu á undan móður sinni og virðist hafa komið að rannsókn málsins. Í stefnunni segir:

„Staðreynt var, að málatilbúnaður á hendur stefnanda var tilhæfulaus með öllu. Það vakti athygli, að sonur meints brotaþola var á þessum tíma starfandi lögreglumaður hjá embætti lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, en embættið fór með rannsókn málsins. Umræddur lögreglumaður tilkynnti um meint brot stefnanda og gaf skýrslu hjá lögreglu. Leiða má að því líkum að harkaleg framganga lögreglu hafi mótast af því að sonur meints brotaþola var starfsmaður embættisins.“

Handtakan var rakin í frétt DV í nóvember og þar segir meðal annars:

„Martröð Árna Loga hófst aðfaranótt 2. febrúar árið 2020 er hann var á heimleið eftir að hafa ekið fjölmörgum gestum þorrablóts sem haldið var í Skúlagarði í Kelduhverfi um kvöldið. Árni Logi, sem er víðkunnur meindýraeyðir og starfar meðal annars á Húsavík og raunar um allt land, býr afskekkt að Víðibakka í Öxarfirði. Hann átti skammt ófarið að heimili sínu er lögreglumenn stöðvuðu för hans. Var honum tjáð að hann væri handtekinn og flytja ætti hann til Akureyrar í varðhald. Árni Logi segir að lögreglumennirnir hafi ekki sagst vita ástæðuna fyrir handtökunni en í lögregluskýrslu segir að honum hafi verið gefin upp kynferðisbrot sem ástæða handtökunnar. Kona hafði kært hann um byrlun og nauðgun.

Árni Logi segist hafa orðið mjög undrandi yfir þessu enda vissi hann ekki upp á sig neina sök. „Ég sagði við þá að þeir yrðu fyrst að fylgja mér heim því þar loguðu jólaljós sem ég þyrfti að slökkva,“ segir hann. Þessari bón var hafnað. „Þeir sögðu mér að þeir hefðu fyrirskipun um að handtaka mig þarna á staðnum og það ætti að setja mig í járn ef ég sýndi mótþróa.“

Árni Logi var síðan færður í lögreglubíl og honum ekið til Akureyrar þar sem honum var stungið inn. Bíllinn hans var gerður upptækur og um tíu lögreglumenn framkvæmdu ítarlega húsleit á heimili hans.

„Heimili mínu var hreinlega rústað,“ segir Árni Logi …„Það var tekið af rúminu mínu og sent til Svíþjóðar í DNA-greiningu. Þeir tóku af mér alls konar verkfæri og sumu hafa þeir ekki enn skilað aftur,“ segir Árni Logi, sem hefur kært framgöngu lögreglu gegn sér til Embættis ríkislögmanns og krafist skaðabóta.“

Gífurlegar afleiðingar af aðgerðum lögreglu

„Mér var varpað í fangaklefa eins og hættulegum sakamanni og látinn dúsa þar á meðan lögregla rústaði heimili mínu,“ segir Árni í samtali við DV.

Í stefnunni kemur fram að lögregla hafi handlagt marga persónulega muni í eigu Árna og ekki skilað þeim aftur, borið því við að hlutirnir finnist ekki. Er þar meðal annars um að ræða fjölskyldumyndir. Ennfremur segir:

„Mál þetta hefur reynst stefnanda sérlega þungbært. Sakargiftir voru alvarlegar, handtaka, fangelsun, húsleit og haldlagning persónulegra muna og bifreiðar hefur fengið mjög á stefnanda. Þá fylgdi lögreglan eftir aðgerðum í þessu máli með frekari húsleit og sviptingu skotveiðiréttinda og um leið atvinnuréttinda stefnanda, sem er meindýraeyðir að atvinnu. Vegna þessa hefur hann orðið fyrir áfalli og þurft að takast á við andlegar afleiðingar af alvarlegu inngripi lögreglu í daglegt líf hans.“

Húsleitin skilaði engu sem stutt gat ásakanir konunnar um kynferðisbrot en leiddi hins vegar í ljós að Árni, sem auk annars er byssusmiður, hafði ekki gengið með lögmætum hætti frá skotvopnum sem hann var með á heimili sínu, í læstar hirslur. Árni ber því við að hann hafi staðið í flutningum á vinnutengdum munum sínum yfir í annað húsnæði og því hafi vopn og skotfæri ekki verið í læstum hirslum um stutt skeið. Hann bendir á að hann búi afskekkt og fái ekki gesti. Engu að síður missti hann skotvopnaleyfi sitt og var ákærður og dæmdur fyrir vopnalagabrot.

Hann hefur allar götur síðan hann missti skotvopnaleyfið freistað þessa að fá það aftur en án árangurs. „Mér er aldrei svarað, það kemur hvorki hósti né stuna frá þessum mönnum,“ segir Árni og telur sig hafa mætt sífelldu tómlæti varðandi eðlilegar fyrirspurnir sínar.

Á meðan á málsmeðferð lögreglu stóð var ítrekað óskað eftir því að verjandi Árna fengi aðgang að rannsóknarsögnum, en án árangurs. Árni kærði konuna fyrir rangar sakargiftir en það mál var fellt niður hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra.

Engan megi svipta frelsi án lagaheimildar

Sem fyrr segir krefst Árni þriggja milljóna króna í miskabætur og um það segir meðal annars í stefnunni:

„Stefnandi gerir kröfur um miskabætur, sem eru reistar á því, að hann telur að hann hafi verið beittur harðræði og orðið fyrir tjóni, bæði líkamlega og andlega vegna frelsissviptingar og fangelsunar. Þá byggir stefnandi á því að aldrei hafi legið fyrir gögn sem fellt gætu á hann grun eða sök í umræddu sakamáli. Um sé að ræða alvarlega aðför af hálfu lögreglu, óréttmæta handtöku, frelsissviptingu og vistun í fangaklefa.“

Bent er á ákvæði laga sem kveða á um að engan megi svipta frelsi nema samkvæmt heimild í lögum.

Árni er þungorður í garð embættis lögreglustjórans á Akureyri vegna vinnubragða lögreglunnar við rannsókn mála hans og framgöngu hennar við sig. Telur hann ábyrgð Höllu Bergþóru og Eyþórs Þorbergssonar í málinu vera mikla og þunga.

Árni starfaði lengi sjálfur við löggæslustörf og hann segir að fyrrverandi vinnufélagar hans hafi hvatt hann til að sækja málið fast „Það eru fleiri en fimm lögreglumenn búnir að hringja í mig og spyrja hvort ég ætli að láta valta yfir mig. Þetta eru fyrrverandi samstarfsmenn mínir og vinir. Svar mitt er skýrt: Ég læt þetta óþverralið ekki valta yfir mig.ׅ“

Hann lætur þess getið að hann hafi ekið föður lögreglumannsins, sem kom með sérkennilegum hætti við sögu við rannsókn þessa máls sem móðir hans kom af stað, til og frá þorrablótinu kvöldið fyrir nóttina örlagaríku, 2. febrúar 2020. Eftir þá greiðasemi við föður lögreglumannsins var hann handtekinn. „Já, það eru víða meindýrin!“ segir þessi þrautreyndi meindýraeyðir og hikar ekki við að beita kaldranalegri tvíræðni, enda er honum mjög í nöp við þá sem hann telur hafa gert á sinn hlut í málinu.

Fyrirtaka í máli Árna gegn dómsmálaráðherra átti að vera fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þann 23. janúar síðastliðinn en hinn stefndi aðili óskaði eftir fresti. Verður fyrirtakan þann 27. febrúar næstkomandi, en þá leggja málsaðilar fram öll gögn fyrir dóminn. Ekki liggur fyrir hvenær aðalmeðferð verður í málinu en leiða má líkur að því að það verði fyrir vorið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Henrietta segir foreldrajafnrétti stærsta jafnréttismálið – „Þetta misrétti hef ég upplifað á eigin skinni“

Henrietta segir foreldrajafnrétti stærsta jafnréttismálið – „Þetta misrétti hef ég upplifað á eigin skinni“
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Tók meira en tvö ár að fá svör frá Reykjavíkurborg

Tók meira en tvö ár að fá svör frá Reykjavíkurborg
Fréttir
Í gær

Leita að einstaklingi í Tálknafirði sem hefur ekki náðst í um tíma

Leita að einstaklingi í Tálknafirði sem hefur ekki náðst í um tíma
Fréttir
Í gær

Læknar vara við því að vinsælar olíur geti verið að valda mikilli aukningu krabbameins í ungu fólki

Læknar vara við því að vinsælar olíur geti verið að valda mikilli aukningu krabbameins í ungu fólki
Fréttir
Í gær

Talaði Trump af sér?

Talaði Trump af sér?
Fréttir
Í gær

Pólski forsætisráðherrann segir að friðarviðræður hefjist hugsanlega í vetur

Pólski forsætisráðherrann segir að friðarviðræður hefjist hugsanlega í vetur