fbpx
Laugardagur 27.júlí 2024
Fréttir

Pétur fer yfir stöðuna og framtíðarlausnir í málum Grindvíkinga – „Ljóst að einhver er að fá sér ábót af kökunni og láta aðra greiða fyrir þessa ábót“

Ragna Gestsdóttir
Föstudaginn 8. desember 2023 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Margt jákvætt að gerast en ekki halda að við séum komin á góðan stað. Ef maður les fréttirnar þá er eins og allt sé farið af stað í Grindavík en það er langt frá því að allt sé komið í góðan farveg. Það er ekkert líf í Grindavík nema auðvitað iðnaðarmenn, björgunarsveitir, lögregla og svo auðvitað þjónustuaðilar sem eru að þjónusta þessa aðila. Þessar fréttir eru jákvæðar og auðvitað hvað allt samfélagið hefur tekið vel utan um okkur.

Það hefur verið ómetanlegt að upplifa og eitthvað sem ég veit að margir grindvíkingar hafa getað nýtt til að reyna að horfa á það sem er að gerast með jákvæðum huga. Staðan er samt langt í frá að vera góð þrátt fyrir þennan velvilja þjóðarinnar og loforð ráðamanna um aðstoð til okkar,“

segir Pétur Rúrik Guðmundsson, grindvíkingur og landsliðsþjálfari í meistaraflokki kvenna og karla í pílukasti, í pistli á Facebook, sem hann gaf DV góðfúslegt leyfi til að birta.

Pétur segir umræðu sem felur í sér að búið sé að koma í framkvæmd einhverjum heildarlausnum sem hjálpa grindvíkingum úr lausu lofti gripna. Setur hann fram nokkra punkta sem hann segir koma strax upp í því sem bæjarbúar standa frammi fyrir

„Þetta er alls ekki tæmandi listi en smá innsýn inn í hvernig staðan er núna,“ segir Pétur.

  • Eigum hvergi heima – Við þurfum að fylgja tímamörkum tengt því að fara inn á heimili okkar og það er alveg skiljanlegt miðað við aðstæður. En að búið að sé að leysa húsnæðismál grindvíkinga er langt frá því að vera raunveruleiki sem við upplifum. Búið að segja ýmislegt en lítið komið í framkvæmd.
  • Húsaskjól af skornum skammti – Það eru margir enn án húsnæðis og eru annaðhvort háðir aðstoð frá fjölskyldu eða vinum. Ég verð að viðurkenna að ég veit ekki hvernig þau fara að sem eru ekki með þessa aðstoð. Það eru dæmi um að sumir þurfa að flytja oft í viku.
  • Leit að leiguhúsnæði er martröð eins og flestir landsmenn vita sem hafa einhvern tímann verið á þeim markaði, tala nú ekki um leiguverð og þá greiðslu sem þú þarft að láta af hendi við undirskrift leigusamnings. Sirka milljón takk fyrir. Trygging og leiga, þetta er ótrúlegur markaður. Pælið í því að ef leigutaki fær ekki trygginguna verðtryggða tilbaka, þá eru leigufélög sem til dæmis eiga 100 eignir með 100 milljónir sem þau hafa inn á bankabók að safna vöxtum í hverjum mánuði. Váááá talandi um skrýmsli undir rúminu. Jákvæða tengt leiguumhverfinu er að það er búið að samþykkja leigustyrki en það er ekki enn búið að koma þeim í framkvæmd. Geri samt ráð fyrir að það sé að gerast á næstu dögum. (Það er engu að síður eingöngu í þrjá mánuði að mér skilst).
  • Lánamál eru misjöfn eftir því hvort við erum hjá bönkunum eða lífeyrissjóðunum. Öllum var “boðið” frestun á greiðslum í sex mánuði en það kostar okkur nokkrar milljónir. Fyrir starfsmennina sem við eigum samskipti við, þá að sjálfsögðu er þetta lausn en þau sem eru efst í píramídanum vita alveg að þetta endar sem gróði í excelskjalinu. Við höfum ekkert val annað en að samþykkja þetta. Við þurfum að koma okkur fyrir í leiguhúsnæði og fæstir hafa efni á að greiða bæði af lánum og leigu. Bankarnir mega eiga það að hafa boðið þeim sem eru þar niðurfellingu á vöxtum í þrjá mánuði. Sem er frábært en engu að síður vita allir sem það vilja að þetta mun taka lengri tíma en þrjá mánuði. Vonandi framlengja þeir þessu þegar þar að kemur og vonandi fylgja lífeyrissjóðirnir þeirra fordæmi.
  • Greiðsla launa – Núna er ég heppinn að vera með vinnu utan Grindavíkur. Ég er ekki alveg með á hreinu hvernig þetta er að virka eða hvort þessi lausn sé í raun að virkar almennilega. En lausnin sem ríkisstjórnin kom með var tilbúin 1. desember og geri ég því ráð fyrir að flestir hafa fengið greitt seint þar sem þau gátu þá skráð sig sem voru gjaldgeng í þessa lausn. Ég sá umræðu þar sem grindvíkingar vissu ekki af þessu og geri ég ráð fyrir að einhverjir séu í vandræðum með tekjuhliðina. Á ekki von á að lausnin sem þau bjóða upp á nái til allra.

„Þetta er langt í frá að vera tæmandi listi og margt í viðbót sem hægt væri að bæta við þessa punkta en yfirleitt missir það marks að hafa þetta of langt. Jafnvel er þetta þegar orðið of langt til að einhver nennir að lesa þetta en alveg sama hvað ég reyni að hafa þetta styttra þá næ ég því ekki.“ 

Hverjar eru framtíðarlausnirnar?

Pétur listar næst upp framtíðarlausnir fyrir bæjarbúa.

„Svo eru það framtíðarlausnir fyrir grindvíkinga. Það er mikilvægt að allir fái viðunandi lausn svo að þau geti lifað sómasamlegu lífi hvort sem þau ákveða að flytja aftur til Grindavíkur eða ekki. Það eru margir sem vilja ekki lifa í þeirri óvissu sem tengist mögulegum jarðskjálftum og eldgosum til framtíðar í Grindavík og enn fleiri sem vilja flytja til baka,“ segir Pétur og bætir við: „Hvort sem við ákveðum að fara tilbaka eða ekki þá eru þetta stór mál sem væri gott að heyra lausnir á sem fyrst.“

  • Náttúruhamfaratryggingar – Hús sem eru dæmd ónýt eða skemmd, það þarf að breyta lögum/reglum svo eigendur hafi tækifæri að byrja upp á nýtt hvort sem það er í Grindavík eða ekki. Það er mikilvægt að byrja á þessu sem fyrst ef vilji er til þess. (Það gæti vel verið að ekki sé vilji til þess og þá þurfum við að skoða með að setja af stað þrýstiafl sem kemur yfirvöldum í skilning um að þetta sé nauðsynlegt).
  • Eignir sem eru ekki ónýtar en eigendur geta ekki hugsað sér að flytja heim. Hvaða lausnir standa þeim til boða. Ef þú ætlar að flytja til baka, þá er aðalmálið að eignin sé í lagi og að allt virki eins og því ber að virka. Mikilvægt er að yfirvöld vinni vel að því að koma Grindavík á þann stað að allt sé eins eðlilegt og hægt er. En þau sem geta ekki hugsað sér að vera í Grindavík lengur, þá er mikilvægt að heyra hvaða lausnir séu í boði fyrir þau.

„Framundan eru miklir óvissutímar og því lengur sem engin svör eða lausnir fást við spurningum þá verður fólk óþreyjufullt. Það munu alls konar tilfinningar springa út í loftið eins og reiði, uppgjöf, sorg, gleði og svo mætti lengi telja. Það sem mun líka gerast er að fólk mun þjappa sér saman og búa til þrýstihóp til að ýta á yfirvöld að koma með svör og svo auðvitað lausnir. Þessi þrýstihópur getur líka ákveðið að taka málin í sínar hendur og einfaldlega boðið sig fram sem flokkur til að annars vegar koma þessum málum tengt grindvíkingum í góðan farveg og svo hins vegar til að lagfæra almennt það sem snýr að húsnæðismálum og fjármagnsstofnunum. Því það er ljóst að einhver er að fá sér ábót af kökunni og láta aðra greiða fyrir þessa ábót.

Læt þetta nægja í bili og vona svo innilega að við fáum lausnir fljótlega sem eyðir þessari óvissu sem við erum í tengt bæði samfélagi okkar og framtíðar húsnæðismöguleikum fyrir fjölskyldur okkar. Með vinsemd og virðingu.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt