Ragnar gerir þetta að umtalsefni á Facebook-síðu sinni og er tilefnið atburðirnir á Reykjanesi sem hafa haft gríðarleg áhrif á líf Grindvíkinga að undanförnu. Spyr Ragnar Þór hvað lífeyrissjóðirnir ætla að gera fyrir þá.
„Nú hafa bankarnir ákveðið að fella niður vexti og verðbætur á húsnæðislánum Grindvíkinga, í þrjá mánuði, en sjóðirnir bera fyrir sig lagaóvissu um málið,“ segir hann og heldur áfram:
„Lífeyrissjóðirnir geta sem sagt haft stjórnarformenn sem hafa réttarstöðu sakbornings eða verið þátttakendur með öðrum hætti í stærsta samkeppnisbrotamáli Íslandssögunnar en borið fyrir lagaóvissu við að fylgja samkeppni á fjármálamarkaði?“
Ragnar segir að auðvitað sé alltaf lagaóvissa þegar kemur að því að gera eitthvað fyrir fólkið og aldrei megi hafa samráð þegar taka þarf samfélagslega mikilvægar ákvarðanir.
„Við megum ekki og getum ekki! Öðru máli gegnir þegar verja þarf kerfið eða aðlaga að þörfum fjármálakerfisins eða sérhagsmuna. Ekkki er langt síðan að breyta þurfti lögum um fjárfestingaheimildir lífeyrissjóða svo SA gæti þrýst þeim í að bjarga Icelandair.“
Ragnar vísar í heimasíðu Landssamtaka lífeyrissjóða þar sem segir að hlutverk samtakanna sé meðal annars að gæta í hvívetna hagsmuna sjóðfélaga, hafa frumkvæði í þjóðmálaumræðu um málefni sjóðanna og lífeyrismál og stuðla að jákvæðri ímynd þeirra.
„Það þarf ekki að kafa djúpt til að komast að þeirri niðurstöðu að landssamtökin sinni hvorugu þessu hlutverki. Og set ég stórt spurningarmerki um hvort það sé hreinlega löglegt að sjóðirnir fjármagni þessi samtök. Það er alltaf að koma betur og betur í ljós að lífeyrissjóðirnir eru plága í íslensku samfélagi.“
Ragnar Þór nefnir enga tiltekna lífeyrissjóði á nafn í færslu sinni en fyrir helgi var greint frá því að Gildi lífeyrissjóður væri stærsti lánveitandi lífeyrissjóðanna í Grindavík.
Í umfjöllun RÚV síðastliðinn fimmtudag kom fram að Gildi hefði boðið Grindvíkingum upp á sex mánaða frystingu afborgana fasteignalána en jafnframt var bent á að lög um lífeyrissjóði takmarki svigrúm þeirra til að gefa eftir lánagreiðslur.