Sigmundur Guðbjarnason, prófessor emiritus og fyrrverandi rektor Háskóla Íslands, er látinn, 92 ára að aldri. Sigmundur lést síðastliðinn fimmtudag. Morgunblaðið greinir frá þessu í dag.
Sigmundur fæddist 29. september 1931 á Akranesi. Hann lauk stúdentsprófi frá MA og doktorsprófi í efnafræði frá Technische Hochscule í Munchen árið 1959.
Eftir að hafa unnið um tíma í Bandaríkjunum var hann áberandi í íslensku atvinnulífi og gegndi starfi yfirverkfræðings og framleiðslustjóra hjá Sementsverksmiðju ríkisins. Árið 1970 varð hann prófessor í efnafræði við Háskóla Íslands og var hann þar til starfsloka árið 2001. Á árunum 1985 til 1991 var hann rektor Háskóla Íslands.
Hann var forstöðumaður Efnafræðistofu Raunvísindastofnunar HÍ frá 1971 til 1983, varaforseti verkfræði- og raunvísindadeildar HÍ frá 1975 til 1977 og deildarforseti 1977 til 1979.
Þá sat hann í stjórn Sementsverksmiðju ríkisins á árunum 1971 til 1981 og var stjórnarformaður 1973 til 1977. Hann var einnig formaður stjórnar Náttúruverndar ríkisins 1995-1999. Þá gegndi hann formennsku í fjölda nefnda og ráða, var meðal annars formaður Rannsóknarráðs Íslands 1994-1997.
Sigmundur hlaut riddarakross fálkaorðunnar árið 1985 og stórriddarakrossinn árið 1991. Þá var hann kjörinn meðlimur í Konunglegu sænsku verkfræðivísindaakademíunni árið 1987.