Nóttin var tíðindalítil í Grindavík miðað við undanfarna daga. Vonast yfirvöld almannavarna til þess að geta hleypt íbúum inn á svæðið í stutta stund til að geta sótt nauðsynjar.
Samkvæmt RÚV bárust nýjustu gögn til Veðurstofunnar klukkan 2:00 í nótt og von er á nákvæmari gögnum gervihnatta síðar í dag. Fundur til að meta stöðuna er haldinn klukkan núna klukkan 9:30. Ríkisstjórnin mun funda í hádeginu um byggingu varnargarða um mikilvæg mannvirki.
Mesta skjálftavirknin er núna norðaustur af Grindavík og er styst um 800 metrar í kvikuna. Þetta þýðir að eldgos getur hafist með mjög stuttum fyrirvara.
Um 160 Grindvíkingar hafa sofið í fjöldahjálparstöðvum í Kópavogi, Reykjanesbæ og Selfossi, en alls búa um 3800 manns í bænum. Fólk hefur dvalið hjá vinum, ættingjum, í sumarbústöðum og jafn vel hjá ókunnugum sem hafa boðist til þess að hjálpa.
Miklar skemmdir eru á mannvirkjum vegna jarðhræringanna, bæði húsnæði og götum. Sums staðar sést mikið landsig eins og á golfvellinum.