fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Fréttir

Barn var undanþegið skólaskyldu í 3 vikur – Annað foreldrið ósátt og kærði

Jakob Snævar Ólafsson
Miðvikudaginn 11. október 2023 21:00

Mennta- og barnamálaráðuneytið

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mennta- og barnamálaráðuneytið birti fyrr í dag úrskurð sinn, frá 2. mars síðastliðnum, vegna stjórnsýslukæru sem ráðuneytinu barst 1. júní 2022.

Kæran var lögð fram af foreldri barns sem hafði fengið undanþágu frá skólaskyldu í 3 vikur á skólaárinu 2021-22 en barnið stundaði nám í ónefndum grunnskóla í Reykjavík. Undanþágan var að sögn veitt þar sem það foreldri barnsins sem það átti lögheimili hjá taldi það ógna öryggi þess að mæta í skólann á umræddu tímabili.

Barnið átti ekki lögheimili hjá foreldrinu sem kærði ákvörðunina til ráðuneytisins. Var kæran lögð fram á þeim grundvelli að hún hefði ekki verið borin undir foreldrið og fór viðkomandi fram á að skráningu vegna undanþágunnar í kerfi skólans yrði breytt úr „í leyfi“ í „óleyfileg fjarvist“ eða annað sambærilegt.

Foreldrar barnsins fóru með sameiginlega forsjá yfir því á tímabilinu sem málið snýst um og því tók ráðuneytið kæruna til greina.

Foreldrið sem kærði var upplýst af umræddum grunnskóla um að barninu hefði verið veitt undanþága frá skólaskyldu eftir að ákvörðun þess efnis hafði verið tekin en beiðnin um undanþáguna var aldrei borin undir kærandann. Kærandinn fór fram á að undanþágan yrði afturkölluð en grunnskólinn hafnaði því.

Foreldrið sem kærði vísaði til þess að samkvæmt lögum yrðu báðir forsjárforeldrar að koma að meiriháttar ákvörðunum er varða daglegt líf barns og undanþága frá skólaskyldu gæti vart talist annað en meiriháttar ákvörðun í ljósi víðtækra áhrifa sem slíkt hafi á viðkomandi barn.

Taldi foreldrið sem lagði fram kæruna að það hafi raunar verið vítavert að sér hefði ekki verið kynnt umsókn um undanþágu frá skólaskyldu, fyrir barnið, fyrr en eftir að hún hafði verið samþykkt.

Segir ekki hafa verið sýnt fram á að öryggi barnsins hafi verið ógnað

Kærandinn vísaði í ákvæði laga um að ríkar ástæður þurfi að vera fyrir því að veita barni undanþágu frá skólaskyldu. Skólanum hefði borið að sýna fram á að öryggi barnsins hefði verið hætta búin fengi það ekki undanþágu, og leggja eigið mat á það en ekki taka mið af mati lögheimilisforeldrisins.

Reykjavíkurborg, fyrir hönd grunnskólans, færði rök fyrir því að tímabundin undanþága frá skólaskyldu teldist ekki meiriháttar ákvörðun um daglegt líf barns í skilningi barnalaga. Borgin vísaði einnig í grunnskólalög og sagði þau veita skólastjórnendum rúmar heimildir til að taka ákvörðun um undanþágu frá skólaskyldu og að í lögunum væri ekki kveðið á um að slík ákvörðun verði að hljóta samþykki beggja foreldra viðkomandi barns.

Borgin vísaði til mats skólastjórans, sem ráðfærði sig við umsjónakennara barnsins, um að undanþágan frá skólaskyldu hefði ekki svo veruleg áhrif á námslega framvindu barnsins að ekki væri unnt að fallast á beiðnina.

Reykjavíkurborg vísaði einnig til þess að skólastjórinn hefði átt munnleg samskipti við barnavernd í tengslum við málið og fengið upplýsingar um að mál sem tengdist barninu hafi verið til rannsóknar hjá lögreglu.

Barnaverndin hafi ekki talið tilefni til þess að skólastjórinn tilkynnti fjarvistir nemandans sérstaklega til barnaverndar. Reykjavíkurborg vísaði að lokum til þess að foreldrið sem barnið átti lögheimili hjá hafi haft heimild til að óska eftir umræddri undanþágu án samþykkis þess foreldris sem kærði ákvörðunina.

Skólastjóra heimilt að veita undanþágu sé fyrir því gild ástæða

Í niðurstöðu sinni vísar Mennta- og barnamálaráðuneytið í ákvæði grunnskólalaga um að heimilt sé að veita barni tímabundna undanþágu frá skólaskyldu telji skólastjóri gildar ástæður vera fyrir því. Nákvæmar leiðbeiningar um hvað teljist gild ástæða fyrir slíkri undanþágu séu ekki til staðar í aðalnámskrá grunnskóla. Þar af leiðandi hafi skólastjórar nokkurt svigrúm til að leggja mat á umsóknir um undanþágu frá skólaskyldu.

Ráðuneytið vísar einnig til ákvæða barnalaga þar sem segi að það foreldri sem barn sé með lögheimili hjá hafi heimildir til að taka afgerandi ákvarðanir um daglegt líf barnsins, t.d. um val á grunnskóla. Þessi heimild sé til staðar þótt að foreldri sem barn sé ekki með lögheimili hjá deili forsjá með lögheimilisforeldri.

Það er því mat ráðuneytisins að lögheimilisforeldrið hafi haft heimild til að sækja um undanþágu fyrir barnið frá skólaskyldu og að barnalög leggi ekki þá skyldu á herðar grunnskólanum og Reykjavíkurborg að hafa samráð við báða foreldra um slíka umsókn.

Vísar ráðuneytið ennfremur til gagna málsins og segir þar koma fram að mál sem tengdist barninu hafi verið til rannsóknar hjá lögreglu á því tímabili sem undanþágan varði og til að tryggja öryggi þess hefði umsóknin um undanþágu frá skólaskyldu verið lögð fram. Það hefði verið eindregin afstaða lögheimilisforeldrisins að barnið yrði að fá undanþáguna í þessar 3 vikur öryggis síns vegna. Það komi einnig fram í gögnum málsins að undanþágan hefði ekki verið talin hafa skaðleg áhrif á námsframvindu barnsins.

Ráðuneytið telur að heildarmat á aðstæðum barnsins hafi farið fram vegna umsóknarinnar og tekur ekki undir það með foreldrinu sem lagði kæruna fram að það hefði verið ómálefnalegt að líta til afstöðu lögheimilisforeldrisins til þess að öryggi barnsins væri ekki tryggt í skólanum.

Þar af leiðandi var ákvörðun grunnskólans um að veita barninu undanþágu frá skólaskyldu í 3 vikur staðfest.

Úrskurðinn í heild sinni má lesa hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“
Fréttir
Í gær

Henrietta segir foreldrajafnrétti stærsta jafnréttismálið – „Þetta misrétti hef ég upplifað á eigin skinni“

Henrietta segir foreldrajafnrétti stærsta jafnréttismálið – „Þetta misrétti hef ég upplifað á eigin skinni“
Fréttir
Í gær

Tók meira en tvö ár að fá svör frá Reykjavíkurborg

Tók meira en tvö ár að fá svör frá Reykjavíkurborg