fbpx
Miðvikudagur 08.maí 2024
Fréttir

Sonur Signýjar í fráhvörfum vegna heróínfíknar og fær ekki aðstoð – „Ég er farin að hugleiða að ná sambandi við dópsala“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 28. janúar 2023 12:15

Signý Ingibjörg Hjartardóttir. Mynd: Facebook.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Signý Ingibjörg Hjartardóttir er örvæntingarfull móður, í sporum sem enginn ætti að þurfa að vera í. Sonur hennar, 46 ára gamall maður, illa haldinn af heróín- og morfínfíkn kvelst nú heima hjá henni í fráhvörfum. Í síðustu viku sótti Signý hann til Portúgals þar sem hann var vegabréfalaus og heimilislaus og náði hún með aðstoð ræðismanns og borgaraþjónustunnar, en umfram allt stórfjölskyldunnar, að koma honum heim til Íslands. Því miður beið mannsins ekki viðeigandi aðstoð á Íslandi heldur áframhaldandi kvöl.

„Ég er hrædd um að þetta endi illa,“ segir ósofin og nær ráðalaus Signý, sem féllst á að veita DV viðtal um málið, enda brýnt að vekja athygli á því. „Við erum ekki ein í þessum sporum,“ segir hún.

Sjá einnig: Valgerður um viðtalið við móður fíkils í fráhvörfum – „Finn mikið til með þeim“ – Ópíóðafíkn eitt helsta viðfangsefnið á Vogi

Áður en Signý hélt til Portúgals hafði hún fengið í gegn að sonur henanr fengi bráðabirgðavegabréf til að hann kæmist heim til Íslands. Stórfjölskyldan lagði í púkkið fyrir fargjöldum og hótelgistingu.

„Hann var búinn að vera lengi í harðri neyslu, þarna úti og lengi áður hér heima. Ástandið á honum var orðið skelfilegt. Hann var búinn að týna vegabréfinu sínu og gat því hvergi komist í húsaskjól því hann gat ekki framvísað neinu til að segja deili á sér. Ég var bara með símanúmerið hans en engan dvalarstað en það sýnir best hvað hann var tilbúinn að gefast upp og koma heim að hann mætti á fyrirfram ákveðinn stað.“

Með hjálp ræðismanns tókst að útvega vegabréfið en það tók dálítinn tíma og mæðginin þurftu að verja rúmlega tveimur sólarhringum ytra áður en flogið var heim. Síðan tók við afar erfið og snúin atburðarás sem ekki sér fyrir endann á:

„Við lentum síðan á föstudeginum í síðustu viku um kl. 16. Þá var hann byrjaður í fráhvörfum og við fórum þangað sem lá beinast við, á bráðamóttöku Landspítalans. Þar var bara litið á hann og okkur sagt að fara niður á bráðageðdeild. Þar var bara horft á okkur, mér rétt eitthvert blað og sagt: Þið eigið ekki að vera hér, þeir eiga ekkert með að senda ykkur hingað.“

Signý neyddist því til að fara heim með fárveikan son sinn í fráhvörfum en þar hringdi hún í Læknavaktina í síma 1770 og lýsti ástandinu. „Hún segir mér að hringja á sjúkrabíl og fara með hann á bráðamóttöku. Þar var hann með næringu í æð og einhver lyf í tvo daga. Mér var sagt að hann yrði síðan innritaður á aðra deild af því hann þyrfti fráhvarfsmeðferð.“

Útskrifaður bjargarlaus eftir tvo daga

Tveimur dögum síðar var sonur Signýjar útskrifaður frá bráðamóttökunni. Hann fékk tvær töflur af Risolid með sér. Um er að ræða lyf sem ætlað er áfengissýkisjúklingum í fráhvörfum og virkar ekki á ópíóðafráhvörf. Engin lyf voru ávísuð á hann í Heilsuveru.

„Ég var svo hissa,“ segir Signý, sem spurði hvort sonur hennar hefði útskrifað sig sjálfur en svo reyndist ekki vera. Undanfarna daga hefur Signý farið á milli heilbrigðisstofnana í örvæntingarfullri leit að þjónustu fyrir son sinn. „Við erum búin að fara allan hringinn, alla vikuna, á bráðamóttökuna, bráðageðdeildina, læknavaktina. Okkur var sagt að það mætti ekki skrifa út svona sterk lyf á kvöldvakt en samt var hann látinn hafa Risolid.“ Maðurinn fékk einnig uppáskrifaðar fimm töflur af lyfinu Stesolid sem inniheldur Díazepam, en það hefur róandi, kvíðastillandi, krampastillandi og vöðvaslakandi verkun. En því miður var lyfjaávísunin rangt skráð og á Læknavaktinni var fullyrt að ávísað hefði verið á hann 25 töflum. En Signý fór sjálf með syninum til að leysa út lyfin og það voru 5 töflur í stykkjatali. „Ég fer allt með honum og hún skrifaði á hann 5 töflur í fyrradag ásamt Risolid tölfunum tveimur. Ég fór sjálf í apótekið og þurfti að fara í tvö af því það er bara eitt apótek sem afgreiðir töflur í stykkjatali.“

Hefur beðið eftir plássi á Vogi síðan í nóvember

Sótt var um pláss fyrir son Signýjar á Vogi í nóvember en hann hefur enn ekki fengið inni. Velta má því fyrir sér hver gæti verið framar í forgangsröðinni en langt leiddur fíkill í herón og morfín. Á Vogi er heimild til að gefa manninum þau lyf sem hann þarf á að halda til að komast í gegnum fráhvörf, sem er nauðsynlegt upphaf bata frá fíkn. Þarf tíu daga meðferð til að sigrast á fráhvörfum vegna ópíóðaneyslu.

Signý segir að sonur hennar þurfi Librium með Risolid. Það fengi hann í eðlilegri fráhvarfsmeðferð á Vogi, þar sem hann í raun ætti að vera núna. „Þá er ekki þessi fíkn og þessi ofboðslega vanlíðan. Þessi lyf eru til á bráðamóttökunni“ segir Signý en heimildir til að gefa syni hennar þau lyf sem hann þarfnast virðist skorta. „Í gær á bráðageðdeildinni, þá var honum sagt að drekka Gatorade! Það er eitthvað sem börnum með ælupest er gefið. Ég er bara svo hissa á þessu…“ segir ráðþrota Signý.

„Ég var hrædd um sjálfa mig“

„Ég var hrædd um sjálfa mig í gærkvöld,“ segir Signý og vísar til þess að þá var sonur hennar trylltur af kvölum vegna fráhvarfanna. Í dag kastar hann upp, nær stundum að sofa og er þess á milli hræðilega kvalinn. Signý segir að henni mæti algjört ráðaleysi í kerfinu þar sem hver vísar á annan og hún upplifir fordóma gegn fólki með fíknsjúkdóma.

„Þú færð aldrei nein svör, þú færð bara skít. Fordómar gegn fíklum eru algjörir, hafðu í huga að við erum að tala um mann sem getur varla gengið. Samt er verið að fetta fingur út í að ég sé að tala máli hans af því hann sé orðinn lögráða, yfir 18 ára aldri. Þegar kerfinu hentar þá get ég ekki verið röddin hans en þegar það hentar til dæmis lögreglunni þá má ég vera röddin hans.“

Signý leitar allra ráða til að útvega syni sínum lyf sem geta slegið á vanlíðanina. „Það er rosalegt hart að ég hef verið snapa róandi lyf hjá fjölskyldumeðlimum, eina og eina pillu. En það dugar auðvitað mjög skammt. Ég er farin að hugleiða að ná sambandi við dópsala. En ég veit ekkert um þennan dópheim.“

Hún segir að í dag haldi sami hringurinn áfram, það sé læknavaktin, bráðamóttakan og bráðageðdeildin. Miðað við það sem á undan er gengið er ekki að búast við að sonur hennar fái úrlausn sinna mála. Þetta viðtal er neyðarkall móður með brostið hjarta. Hún spyr: „Er þetta boðlegt árið 2023? Viljum við að fíklar fái ekki tækifæri til að snúa við af þessari hræðilegu braut? Ég er svo hrædd, hans vegna og mín vegna, ég óttast að þetta endi ekki vel.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Nuddstofa Mariu býður upp á eistnanudd – „Þetta er alveg eðlilegt, ég þurrka þetta bara og spyr hvort allt sé í lagi“

Nuddstofa Mariu býður upp á eistnanudd – „Þetta er alveg eðlilegt, ég þurrka þetta bara og spyr hvort allt sé í lagi“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Dagur og Hildur tókust á um bensínstöðvalóðirnar – „Fullkomin vanhæfni, ábyrgðarleysi, fúsk og kæruleysi“

Dagur og Hildur tókust á um bensínstöðvalóðirnar – „Fullkomin vanhæfni, ábyrgðarleysi, fúsk og kæruleysi“