fbpx
Föstudagur 24.mars 2023
Fréttir

Valgerður um viðtalið við móður fíkils í fráhvörfum – „Finn mikið til með þeim“ – Ópíóðafíkn eitt helsta viðfangsefnið á Vogi

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 28. janúar 2023 19:00

Valgerður Rúnarsdóttir. Mynd/Anton Brink

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Þetta er mjög stórt mál, ópíóðafíkn og meðferð við henni, við lifum og hrærumst í þessu á Vogi,“ segir Valgerður Rúnarsdóttir, forstjóri Vogs og framkvæmdastjóri lækninga hjá SÁÁ. DV hafði samband við hana í framhaldi af fréttaviðtali sem birtist í morgun, við móður miðaldra ópíóðafíkils, sem virðist ekki fá nema mjög takmarkaða aðstoð við að fara í gegnum hastarleg fráhvörf sem hann er núna að ganga í gegnum.

Sjá einnig: Sonur Signýjar í fráhvörfum vegna heróínfíknar og fær ekki aðstoð – „Ég er farin að hugleiða að ná sambandi við dópsala“

Signý Ingibjörg Hjartardóttir náði í son sinn til Portúgal í síðustu viku og kom honum til Íslands. Hann er afar illa farinn af neyslu heróíns og morfíns. Maðurinn er nú að fara í gegnum mjög þjáningarfull fráhvörf, læknar hafa ekki viljað ávísa á hann nema mjög takmörkuðu magni fráhvarfalyfja og hann hefur beðið eftir meðferðarplássi á Vogi frá því í nóvember, en þar er sérhæfð fráhvarfsmeðferð.

„Ég þekki ekki til þessa manns eða hans sögu en yfirleitt fær fólk sem er að koma í fyrsta sinn pláss inni á Vogi innan tveggja vikna og skiptir þá engu máli í hvernig neyslu þú ert,“ segir Valgerður. „Við erum með skilgreinda forgangshópa en síðan fáum við fólk sem kemur frá Landspítalanum og læknar setja í forgang.“ Segir Valgerður að það hafi áhrif á biðtíma ef viðkomandi hefur verið áður inni á Vogi og þá skipti máli hve langt er síðan það var.

DV bar þetta undir Signýju sem segir að sonur hennar hafi síðast verið á Vogi fyrir fjórum árum og þá hafi hann alls ekki verið jafn langt leiddur í fíkn sinni og núna.

Valgerður bendir einnig á Göngudeild SÁÁ í Efstaleiti en þar meta ráðgjafar þörf fólks sem þangað kemur. „Við erum þar með ráðgjafa sem koma auga á þau tilfelli sem þarf virkilega að sigta frá og flýta fyrir innlögn. En hinir eru kannski á biðlista. Mjög stór hluti bíður stutt en meðalbiðtími í heild er um 70 dagar. Sumir bíða lengi og biðin verður mjög erfið fyrir þá sem bíða lengst ef það er ekkert sem grípur inn í í millitíðinni.“

Varðandi göngudeildina þá bendir Signý á að sonur hennar eigi pantaðan tíma þar en ekki fyrr en 7. febrúar. Ljóst er því að göngudeildin mun ekki leysa bráðavanda hans.

Sívaxandi vandi

Eins og kom fram í fyrri frétt er sonur Signýjar háður heróíni og morfíni. Hvort tveggja fellur undir ópíóða. „Ópíóðar eru öll morfínskyld lyf, þar á meðal heríón, sem sagt lyf sem virka á ópíóðaviðtaka heilans. Hér er heróín ekki landlægt heldur eru það lyfin, aðallega OxyContin og Contalgin. Í Bandaríkjunum er auðvitað heróín en þar er samt miklu útbreiddari vandi af lyfjunum, rétt eins og hér, fólk er að nota háskammta af ópíóðum, löglegum eða ólöglegum, en þó að þetta séu lögleg lyf þegar þau koma úr apótekunum eru þau orðin ólögleg um leið og þau eru seld á svörtum markaði. Fólk borðar ópíóða, reykir þá eða sprautar í æð. Þetta er mjög hættuleg neysla og hefur vaxið mjög á Íslandi síðustu ár, við höfum séð stigmögnun í þessum vanda.“

Valgerður bendir á að í fyrra hafi 300 manns verið í þörf fyrir meðferð vegna ópíóðafíknar en ríkið greiði fyrir 90. „Það hefur ekkert breyst. Við erum á fullu að svara þörfinni fyrir þessa miklu aukningu og við viljum gera betur.“

Telur fráhvörin ekki lífshættuleg

„Ég finn mikið til með þeim, með þessum manni og aðstandendum hans,“ segir Valgerður eftir lestur viðtals DV við Signýju. Hún hefur ekki skýringar á því hvers vegna hann virðist ekki hafa fengið viðeigandi þjónustu og getur ekki metið stöðuna þar sem hún þekkir ekki til mannsins og sögu hans. Hins vegar segist hún telja að læknar ávísi fráhvarfslyfjum á þá sjúklinga sem eru í þörf fyrir það. „Ég veit ekki af hverju hann er ekki kominn inn á Vog, ég geri ráð fyrir að hann sé á biðlista. Ég býst við að hann viti hvað bíður hans ef hann fær ekki efni og ekki nein lyf, það er erfitt að fara svona inn í óplanað umhverfi.“

Hún segir fráhvörf frá ópíóðafíkn í grundvallaratriðum ekki vera lífshættuleg þó að þau geri verið afar þjáningarfull:

„Það er vissulega möguleiki á því að fólki svelgist á uppköstum en í grundvallaratriðum eru fráhvörf af áfengisfíkn og róandi lyfjum hættulegri. Þá geta sjúklingar fengið krampa og verið í óráði og það er hættulegt.“ Valgerður telur ennfremur að ópíóðafíklar í fráhvörfum séu ekki hættulegir öðrum því þeir hafi ekki orku til að vinna skaða.

„Við erum að sinna þessum vanda og erum með lyfjameðferð sem virkar við honum og erum að reyna að halda í við þessa eftirspurn sem hefur aukist svo mikið,“ áréttar Valgerður.

Lesendur höfðu samband við Signýju til að hjálpa

Valgerður segir ennfremur að ópíóðafráhvörf gangi yfir á fremur stuttum tíma, nokkrum dögum hjá þeim sem neyta ópíóða með því að reykja þá eða sprauta þeim í sig en fráhvörfin taki eithvað lengri tíma hjá þeim sem borða ópíóðana. Sonur Signýjar reykir og borðar ópíóða auk þess að taka þá í gegnum nefið. Hann hefur ekki notað neitt í viku en er enn mjög veikur. Hins vegar segist Signý hafa fengið rétt lyf fyrir hann í bili. Fólk sem las fréttina hafi sett sig í samband við hana og útvegað henni lyf.

„Ég er allavega búin að fá rétt lyf fyrir hann fyrir helgina. Fólk sem las greinina hafði samband. Þetta er svo absúrd, árið er 2023 og ég er að keyra út um allan bæ og snapa lyf af fólki, venjulegu fólki, ekki læknum, ekki bráðamóttöku, ekki bráðageðdeild, ekki heimilislækni, ekki Vogi.“

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Snapchat-perri fyrir dóm á Akureyri – „Sýndi henni vanvirðandi, ósiðlegt og lostugt athæfi“

Snapchat-perri fyrir dóm á Akureyri – „Sýndi henni vanvirðandi, ósiðlegt og lostugt athæfi“
Fréttir
Í gær

Samverustund vegna Stefáns Arnars Gunnarssonar

Samverustund vegna Stefáns Arnars Gunnarssonar
Fréttir
Í gær

Banaslys í Hvalfirði

Banaslys í Hvalfirði
Fréttir
Í gær

Frosti birtir opið bréf til ritstjórnar Heimildarinnar og spyr ágengra spurninga um Eddu Falak

Frosti birtir opið bréf til ritstjórnar Heimildarinnar og spyr ágengra spurninga um Eddu Falak