Maður á einhverfurófi sem þjáist af miklum athyglisbresti hefur í langan tíma verið ofsóttur af fólki sem kúgar út úr honum lyf sem honum eru ávísuð af lækni, Ritalin Uno. Ofsóknirnar náðu hámarki þann 22. júlí síðastliðinn þegar kona sem er nágranni mannsins reyndi að stinga hann með hnífi eftir að hún og karlmaður höfðu ruðst inn í íbúð mannsins og krafið hann um lyf.
DV hefur undir höndum kæru lögmanns mannsins vegna málsins en kært er vegna vopnaðs ráns, tilraunar til mannsdráps og húsbrots. Áðurnefnd kona sem býr í sama fjölbýlishúsi og þolandi árásarinnar hefur tíðkað að hleypa karlmönnum inn í húsið þvert á fyrirmæli húsvarðar um að þeim skuli meinuð innganga. Konan og mennirnir telja sig eiga tilkall til Ritalin Uno lyfs sem þolandinn fær frá lækni sínum mánaðarlega, en það tilkall er með öllu tilhæfulaust.
Laugardaginn 22. júlí kom maður að íbúð þolandans og barði að dyrum, en mennirnir þekkjast. Sagðist hann hafa gleymt peysu inni hjá honum. Þolandinn bauð honum inn. Var þá barið aftur að dyrum og þegar þolandinn opnaði ruddust inn konan sem býr í húsinu og karlmaður með henni. Það var honum þvert um geð að þau kæmu inn en þau voru vopnuð og hann óttaðist þau. Konan stökk í átt að honum og lagði til hans með hnífi er hann hafði hörfað undan parinu upp í rúm. Maðurinn sem hafði barið dyra og borið fyrir sig að hafa gleymt peysu skarst í leikinn og tókst að afstýra því að konan stingi manninn á hol en hnífurinn lenti á kafi í rúmdýnu þar sem hann lá.
Konan er sögð hafa verið hamslaus af bræði og öskraði á þolanda árásarinnar að þau ætluðu að fá „allt“ og vísaði til lyfjanna sem þau voru að krefja hann um. Fyrir atbeina mannsins sem afstýrði hnífstungunni tókst að koma parinu út úr íbúðinni en þau héldu þó áfram að ofsækja íbúann og virðast hafa skemmt hurð að íbúðinni tveimur dögum síðar.
Fram kemur í kæru lögmanns þolanda árásarinnar að hnífurinn sem konan lagði til hans með sé enn fastur í rúminu og lögregla geti kannað það. Ennfremur liggur fyrir hljóðupptaka af símtali milli þolandans og mannsins sem ruddist inn í íbúðina með konunni, frá 1. ágúst, en samtalið vakti honum svo mikinn ótta að hann hafði samband við lögmanninn. DV hefur hljóðupptökuna undir höndum en í símtalinu neitar maðurinn því ekki að konan hafi stungið hnífi í rúmdýnu þolandans. Þá virðist maðurinn kenna þolandanum um þar sem hann hafi ekki afhent þeim það sem þau vildu. Bendir símtalið til sektar mannsins í málinu. Af samhenginu má ráða að hann haldi því fram að þolandinn hafi átt að kaupa líf sitt með því að afhenda parinu lyfseðilsskyld lyf.
Síðast en ekki síst er vitni að árásinni, maðurinn sem kom í veg fyrir að hnífurinn færi í þolanda árásarinnar.
Lögmaðurinn greinir frá því í kærunni að skjólstæðingur hans hafi átt bókaðan tíma í kærumóttöku hjá lögreglunni kl. 11:00 þann 2. ágúst. Þangað fór lögmaðurinn með honum en eftir nokkra bið var þeim tjáð að ekki væri hægt að taka við kærunni. Ástæðan var sú að lögreglan vildi sameina málið öðru málsnúmeri þar sem kærandinn hefur áður kært fólkið fyrir ofsóknir og ofbeldi sem hafa átt sér stað í húsinu. Rannsóknarlögreglumaðurinn sem hafi verið úthlutað fyrra máli kærandans sé hins vegar í sumarfríi og því væri ekki hægt að taka við kæru fyrr en hann kæmi til baka eftir 3-4 vikur.
„Engu máli skipti þó að skjólstæðingur og lögmaður hans upplýstu að þeir væru þangað komnir til að kæra nýtt brot eða að skjólstæðingur óttaðist um líf sitt eftir atvik næturinnar. Þá kom ekki fram nein haldbær skýring á því hvers vegna skjólstæðingi mínum var úthlutaður tími til að leggja fram kæru, mætti þar með lögmanni, en allt í einu var úthlutaður tími dreginn til baka, að því er virtist með geðþóttaákvörðun,“ segir í kærunni. Segir lögmaðurinn jafnframt að með þessu hafi viðkomandi starfsmaður lögreglu brugðist starfsskyldum sínum.
Þá segir ennfremur í kærunni:
„Skjólstæðingur minn er á einhverfurófi og með alvarlegan athyglisbrest. Þeir sem ekki hafa þjálfun í að vinna með fötluðum geta tekið látbragði hans merki um að honum sé ekki alvara eða að afstaða hans sé önnur en hún er. Sumum stendur ógn af fötluðu fólki á einhverfurófi eða á erfitt með samskipti við fólk á einhverfurófi.
Það má aldrei láta slík vandamál hafa þær afleiðingar að fatlaður einstaklingur fái ekki aðstoð lögreglu. Fötluðu fólki í félagslega viðkvæmri stöðu ber að tilnefna réttargæslumann til þess að svona hlutir komi ekki upp.“
Lögmaðurinn krefst þess að meint brot parsins verið rannsökuð ítarlega og rannsóknarheimildum lögreglu verði beitt til hins ýtrasta. Farið er fram á gæsluvarðhald yfir parinu á meðan meðferð málsins stendur. Þá gerir lögmaðurinn kröfu um að verða tilnefndur réttargæslumaður mannsins.
Ljóst er að maðurinn sem hér á í hlut býr við mikið óöryggi og ógn. Hefur hann farið fram á að verða úthlutað félagslegri íbúð á öðrum stað svo hann geti flutt úr þessu húsnæði. Einnig hefur hann farið fram á að fá úthlutað öryggishnappi vegna viðvarandi og hættulegra ógnana fólksins. Þau mál eru í vinnslu.