fbpx
Sunnudagur 19.maí 2024
Fréttir

Væri ekki á lífi ef ekki fyrir heiðursmanninn Meyvant frá Eiði – Hetjudáð í hernáminu sem varð að ævilangri vináttu þvert yfir landsteina

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 20. júlí 2023 22:28

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Breskur hermaður komst hársbreidd frá því að týna lífinu í óviðri á Íslandi á tímum hernámsins. Dóttir hans selur í dag handverk í von um að geta endurgoldið þá lífsbjörg sem faðir hennar fékk, en afkomandi bjargvættarins glímir við gífurlega sjaldgæfan sjúkdóm. 

Sue Frecklington deildi sögu sinni með BBC í vikunni til að vekja athygli á baráttu hetjunnar Sunnu Valdísar Sigurðardóttur.

Síungi heiðursmaðurinn

Heiðursmaðurinn Meyvant Sigurðsson, heitinn, kom víða við á langri og ævintýralegri ævi. Afkomandi ekki ómerkari Íslendinga en Skálda-Rósu og Natans Ketilssonar, fæddur árið 1896 og látinn árið 1990 og náði því að fylgjast með sjálfstæðisbaráttu Íslendinga, spænsku veikinni, tveimur heimsstyrjöldum, hernámi Íslands – og svo kalda stríðinu. Meyvant fylgdist með Háskóla Íslands rísa, og starfaði þar í ýmsum störfum, sem umsjónarmaður á Nýja-Garði, svo dæmi sé tekið, og að lokum sem dyravörður í Háskólabíó en þar lauk Meyvant störfum fimm dögum fyrir áttræðisafmælið.

Það er ákveðið merki um þá umbrotatíma sem hann lifði, á langri ævi, að hann var handhafi ökuskírteinis númer 68 og varð einn af þeim fyrstu sem störfuðu sem atvinnubílstjórar hér á landi, en ekki var hann þó ókunnur akstri því áður hafði hann meðal annars ekið um olíu á hestvagni. Hann var sannkallaður brautryðjandi, í bókstaflegri merkingu, enda voru það ófáar leiðirnar sem Meyvant keyrði fyrstur allra. Hann var einnig bóndi og var kenndur við jörðina Eiði á Seltjarnarnesi, sem landsmenn þekkja í dag sem Eiðistorg.

Til gamans má nefna að Meyvant mótmælti því á sínum tíma að Eiðsgrandinn yrði kallaður Eiðsgrandi, enda héti jörðin Eiði og hefði heitið því öldum saman. Mótbárum hans var þó vísað á bug með vísan til þess að Seltirningar hefðu venjuhelgað heitið Eiðsgrandi og við það sæti. Því hefur það verið einskonar uppreist æru hans þegar Eiðistorgið reis og fékk þá nafn í samræmi við jörðina, en ekki í samræmi við málvenjuna.

Meyvant var áberandi hluti samfélagsins í Reykjavík á 20. öld, og fylgdist hann með þessum litla bæ vaxta og dafna úr borg yfir í bæ. Hann fylgdist þó ekki bara með heldur tók virkan þátt. Hann var áberandi í félagsstörfum, lét til sín taka í verkalýðsmálum, þá sérstaklega varða réttindi og öryggi ökumanna í samfélagi sem var rétt að byrja að kynnast bifreiðum. Hann var vinsæll, félagslyndur og þekktur fyrir aðdáunarverða lífsgleði og þrótt, enda lýst langt fram eftir aldri sem síungum ungling. Hann var kallaður heiðursmaður, enda var hann heiðursfélagi fjölda félaga.

Í viðtali við Morgunblaðið í tilefni af áttræðisafmæli sínu sagði hann:

„Það hefur hjálpað mér í lífinu að ég er léttlyndur, kveinka mér ekkert þó ég fengi áföll í lífinu. Stundum rífst ég bara við sjálfan mig og brýni mig til dáða. Ég bý hér úti við sjóinn í húsinu mínu sem er æði tómlegt eftir að konan dó. En ég hefi sólina allan daginn á einhverjum glugganum, fallegt útsýni og sólsetrið á Flóanum. Og mér líður vel.“

Væri ekki til í dag ef ekki væri fyrir Meyvant

Það eru þó ekki bara Íslendingar og afkomendur sem minnast Meyvant af hlýju. Áðurnefnd Sue Frecklington greindi frá því í viðtali við BBC í vikunni að hún hefði hreinlega aldrei fæðst, ef ekki væri fyrir Meyvant.

Það var í maí árið 1940 þegar Hermann Jónasson, forsætisráðherra, tilkynnti þjóðinni að Bretar hefðu hernumið Ísland. Þannig atvikaðist það að breski hermaðurinn Phil Frecklington fann sig staddan á Íslandi þegar stórviðri braust út. Var Phil hætt kominn og hefði líklega illa farið fyrir honum hefði Meyvant ekki komið honum til bjargar.

„Ef ekki væri fyrir þessa íslensku fjölskyldu væri ég ekki hér í dag,“ sagði Sue í viðtalinu, en hún er dóttir Phil.

Meyvant og Phil

Faðir hennar hafi verið þjálfur fyrir hernað á norðurslóðum, en það hafi þó lítið komið að gagni þegar herdeildin hans lenti hér í gífurlega slæmum stormi, en nokkrir úr liði hans týndu lífinu.

„En honum var bjargað af manni sem hét Meyvant sem var að leita að kindunum sínum, eins og ég skildi það, í þessum stormi. Svo hann tók hann[Phil] með sér á bóndabæinn sinn og hlúði að honum. Eftir þetta héldu þeir vinskap og ég fæddist eftir stríðið.“

Og vinskapurinn lifði bæði Meyvant og Phil, en fjölskyldur þeirra hafa haldið sambandi í um 80 ár.

Meyvant – Mynd/timarit.is

Tifandi tímasprengjan og hetjan Sunna

Einn afkomenda Meyvants er hetjan Sunna Valdís Sigurðardóttir, en hún glímir við afar sjaldgæfan sjúkdóm sem kallast AHC og fellst í stökkbreytingu á geni. Aðeins hafa á níu hundruð einstaklingar í heiminum öllum greinst með sjúkdóminn og Sunna Valdís er sú eina á Íslandi. Sjúkdómurinn gerði það að verkum að Sunna Valdís, sem er á sautjánda aldursári, er með þroska á við þriggja ára barn og glímir við tíða krampa og lömunar- og flogaköst. Foreldrar Sunnu eru Sigurður Hólmar Jóhannesson og Ragnheiður Erla Hjaltadóttir, en Ragnheiður er langafabarn Meyvants.

Hversdagslegir hlutir á borð við vatn, sólskin og streita geta leitt til þess að Sunna litla fær kast og hafa foreldrar henni lýst. því að hún sé í raun eins og tifandi tímasprengja þar sem þau geti aldrei vitað hvað dagurinn hafi í för með sér.

Sue segir við BBC að hún og eiginmaður hennar hafi verið knúin til að hjálpa. Þau hafa því skipulagt handverkshátíðar til að vekja athygli á AHC-sjúkdómnum og til að fjármagna rannsóknir.

Sue og eiginmaður hennar. Mynd/Facebook

„Hún er yndisleg. Hún elskar að klæða sig í hlébarðamynstur og hún getur verið full af gleði. Hún elskar að hjóla í sérútbúnu hjólinu sínu.“

Sue hefur því saumað teppi og eiginmaður hennar, Tony, hefur útbúið skartgripi og skorið út við. Þennan varning selja þau svo á áðurnefndum hátíðum en til þessa hefur þeim tekist að safna hátt í milljón.

„Þetta er að einhverju leyti endurgjald fyrir mitt eigið líf,“ sagði Sue.

„Ég finn það innra með mér að þetta er eitthvað sem ég verð að gera til að segja takk fyrir að ég sé hérna í dag.“

Áhuginn lítill því gróðavonin er lítil

Blaðamaður sló á þráðinn til Sigurðar Hólmars, sem iðurlega er kallaður Siggi, en hann segir að málið eigi sér vissulega langa sögu. Það hafi verið tengdamóðir hans, Gunnhildur, sem hafi byrjað að skrifast á við Sue þegar þær voru táningar. Héldust samskiptin stöðug í gegnum árin og með nýrri tækni færðu þær sig yfir á rafræna miðla og eru enn í samskiptum í dag.

Eftir að Sunna Valdís hafi greinst með AHC þá hafi Sue viljað aðstoða. Hún hafi svo undanfarin misseri orðið mjög virk í þeim góða hóp sem hefur myndast í kringum Sunnu Valdísi og baráttu hennar fyrir betra lífi, til dæmis hafi Sue farið með á ráðstefnu um sjúkdóminn í október.

Um er að ræða mjög sjaldgæfan sjúkdóm, sem gerir það að verkum að lítil áhersla er lögð á að rannsaka hann eða finna við honum lækningu, en Siggi bendir á að lyfjafyrirtækin hafi hreinlega ekki áhuga þar sem sérhæfð lyf við sjúkdómnum væru ólíkleg til að skila hagnaði. Sem sé vissulega sorgleg staðreynd.

Því þurfi fjölskyldan að treysta á að vekja athygli lækna og vísindamanna og fá þá í lið með sér. Það hefur sem betur fer tekist vel, en vísindamenn víðan af eru í reglulegum samskiptum við fjölskylduna og svo eru haldnar ráðstefnur einu sinni á ári.

Kært er á milli fjölskyldnanna og eru fjölskylda Sunnu þakklát fyrir aðstoðina. Vert er að minnast á heimildarmyndina Human TimeBombs í leikstjórn Ágústu Fanneyjar Snorradóttur, en þar er fjallað um sjúkdóminn og baráttu Sunnu. Að myndinni koma mikill fjöldi sérfræðinga, vísindamanna, aðstandenda og sjúklinga, en til marks um hversu alvarlegur sjúkdómurinn er þá létust sex börn úr honum á meðan myndin var gerð. Myndin veltir upp þeirri spurningu hvers vegna sjaldgæfir sjúkdómar fá ekki það vægi sem þeir ættu að hafa og hvers vegna rannsakendur og vísindamenn ættu að veita AHC athygli.

Líklega óraði Meyvant ekki fyrir því, þegar hann var í leit að kindum sínum í óveðri á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar, að þessi dagur ætti eftir að verða til þess að þremur aldarfjórðungum síðar ætti kona eftir að sitja í Bretlandi og sauma saman teppi til að styðja við barnabarnabarnabarn hans. Að sama bragði er þó næstum öruggt að Meyvant hefði orðið ánægður með þá framvindu, en í minningargrein sem birtist um Meyvant í Morgunblaðinu er hann sagður hafa litið svo á að sönn vinátta væri eitt af því dýrmætasta sem hægt væri að gefa, jafnt sem að þiggja.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Miklir fjárhagserfiðleikar hjá körfuknattleiksdeild UMFN

Miklir fjárhagserfiðleikar hjá körfuknattleiksdeild UMFN
Fréttir
Í gær

Sviptingar í Landsrétti – Ákæru gegn látinni móður Jónasar James Norris vísað frá dómi

Sviptingar í Landsrétti – Ákæru gegn látinni móður Jónasar James Norris vísað frá dómi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Lýsir yfir áhyggjum af vanþekkingu forsetaframbjóðenda

Lýsir yfir áhyggjum af vanþekkingu forsetaframbjóðenda
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þorgerður Katrín las Bjarna pistilinn: „Ég vil hvetja fólk til þess að skoða heimabankann hjá sér“

Þorgerður Katrín las Bjarna pistilinn: „Ég vil hvetja fólk til þess að skoða heimabankann hjá sér“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Langveik ung kona fékk liðsauka í barningi sínum við Sjúkratryggingar – Sögð hafa þurft samþykki stofnunarinnar fyrir aðgerð sem læknir sagði nauðsynlega

Langveik ung kona fékk liðsauka í barningi sínum við Sjúkratryggingar – Sögð hafa þurft samþykki stofnunarinnar fyrir aðgerð sem læknir sagði nauðsynlega
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Allir efstu sex forsetaframbjóðendurnir hafa djammað

Allir efstu sex forsetaframbjóðendurnir hafa djammað