Í skýrslunni kemur fram að staða sænskra öryggismála hafi gjörbreyst við innrás Rússa í Úkraínu og að ekki sé hægt að útiloka árás á Svíþjóð. Fram kemur að eftir því sem stríðið dregst á langinn, sé vaxandi hætta á að það geti stigmagnast og leitt til árása á önnur lönd.
„Sænsk öryggismálastefna verður að taka með í reikninginn hættuna á að stríð Rússa gegn Úkraínu stigmagnist og verði að stóru evrópsku stríði. Það getur haft í för með sér beitingu kjarnorkuvopna eða annarra gjöreyðingavopna með hörmulegum afleiðingum fyrir öryggismál á heimsvísu, en þó sérstaklega í Evrópu, þar á meðal þjáningar og dauða saklauss fólks,“ segir meðal annars í skýrslunni.
Nefndin segir að svo lengi sem rússneskar hersveitir séu bundnar í Úkraínu sé geta Rússa til að beita hervaldi annars staðar takmörkuð. Það þýði þó ekki að Rússar geti ekki beitt hervaldi í nærumhverfi Svíþjóðar. Þeir hafi enn getu til að beita flugher, flota, langdrægum vopnum eða kjarnorkuvopnum gegn Svíþjóð.