fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Fréttir

Segir brotthvarf vinsæls skólastjóra lýsa sinnuleysi Reykjavíkurborgar – „Börnin elska hana“

Jakob Snævar Ólafsson
Mánudaginn 10. júlí 2023 16:30

Laugarnesskóli er einn þeirra skóla í Reykjavík sem þarfnast hefur mikils viðhalds undanfarið. Mynd: Valli

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eins og DV greindi frá um liðna helgi hefur Sigríður Heiða Bragadóttir, skólastjóri Laugarnesskóla í Reykjavík til síðustu 17 ára, neyðst til að láta af störfum vegna heilsuspillandi aðstæðna í húsnæði skólans. Mikil vandræði hafa verið undanfarin ár vegna myglu- og rakaskemmda í skólanum og viðgerðir hafa þótt ganga hægt og illa. Nokkuð hefur verið um að kennarar hafi hætt vegna veikinda af völdum myglu og rýma hefur þurft sumar kennslustofur.

Sigríður var farin að nálgast eftirlaunaaldur en hafði hugsað sér að starfa í einhver ár í viðbót. Læknar hafa hins vegar ráðlagt henni að hætta strax vegna veikinda sem hún hefur glímt við og rakin eru beint til myglunnar í húsnæði skólans.

Sjá einnig: Sigríður neyðist til að fara fyrr á eftirlaun vegna heilsuspillandi aðstæðna – „Mörg tár hafa fallið líka“

Ákvörðunin var Sigríði afar erfið og hún var ekki reiðubúin að ræða við fjölmiðla þegar DV hafði samband við hana um helgina. Hún ræddi hins vegar brotthvarf sitt við RÚV fyrr í dag. Hún segir að eftir að hafa glímt við veikindi síðustu þrjú ár, sem voru fyrst rakin til myglunnar í húsnæði skólans fyrr á þessu ári, hafi ekki annað verið hægt en að hætta. Framkvæmdum sem hugsaðar hafa verið til að gera lagfæringar á húsnæði skólans, sem duga eiga til lengri tíma, hefur ítrekað verið frestað og Sigríður segist ekki hafa getað meira.

Mikil eftirsjá að Sigríði

Fréttamaður DV hafði samband við Eyrúnu Helgu Aradóttur, formann foreldrafélags Laugarnesskóla, og spurði hvað henni finnst um brotthvarf Sigríðar. Ljóst er að hún og fleiri foreldrar nemenda við skólann eru mjög hrygg vegna þess að Sigríður hefur neyðst til að láta fyrr af störfum en ætlunin var:

„Þetta er gríðarlegt áfall. Fyrir okkur öll í Laugarnesskóla. Foreldra, börn og hennar samstarfsfólk. Hún hefur verið afar farsæll og vinsæll skólastjóri. Það er mjög mikil eftirsjá að henni og ömurlegt að þessi ótímabæru starfslok hennar séu núna.“

„Við erum mjög döpur. Ég held að ég tali fyrir hönd fjölda fólks. Börnin elska hana. Foreldrar eru heilt yfir, held ég, mjög ánægð með hennar störf. Eftirsjáin er gríðarleg og þetta er áfall. Þetta er áfall fyrir okkur í hverfinu að missa hana.“

„Algjörlega fyrir neðan virðingu borgarinnar“

Eyrún fór ekki í grafgötur með að henni þykir Reykjavíkurborg vera langt frá því að hafa staðið sig sem skyldi þegar kemur að lagfæringum á myglu- og rakaskemmdum í húsnæði Laugarnesskóla og annarra skóla í sama hverfi og segir það hafa átt sinn þátt í starfslokum Sigríðar:

„Þetta er mjög dapurleg birtingarmynd af sinnuleysi borgaryfirvalda í skólamálum hverfisins.“

„Mér finnst þetta algjörlega fyrir neðan virðingu borgarinnar að koma svona fram við skólana.“

Eyrún segir að það sé einnig mikil eftirsjá að öðru starfsfólki Laugarnesskóla sem neyðst hefur til að láta af störfum vegna veikinda af völdum myglunnar en hún segir að smæð húsnæðisins, miðað við nemendafjölda, hjálpi heldur ekki við að halda kennurum í skólanum og lítið þokist áfram hjá borgaryfirvöldum:

„Fólk er að hætta út af starfsumhverfi. Skólinn er orðinn allt of lítill. Það er búið að samþykkja stækkun á skólanum. Stækkunin var samþykkt fyrir tæpu ári síðan og það er ekkert að gerast. Starfsfólkið er að hætta bæði út af þessum rakaskemmdum og myglumálum og af því að starfsumhverfið er óásættanlegt.“

Eyrún segir að það hafi lengi verið vitað að mikil þörf væri á að stækka húsnæði Laugarnesskóla og Reykjavíkurborg hafi einfaldlega ekki mætt henni:

„Við erum að missa gríðarlega flotta kennara.“

Eyrún segir ástandið ekkert vera betra þegar kemur að nauðsynlegum framkvæmdum í öðrum skólum í hverfinu:

„Það er eitt ár síðan að samþykkt var að stækka alla skóla í hverfinu. Laugarnesskóla, Langholtsskóla og Laugalækjarskóla og það er ekkert að frétta. Þetta er bara í ferli.“

Segir fátt um svör hjá borginni og að mygluvandamál séu í öllum skólum hverfisins

Svörin sem Eyrún segir að borgaryfirvöld veiti þegar skýringa er leitað á þessum töfum virðast lýsa úrræðaleysi og vanmætti:

„Þeir vita eiginlega ekki á hvaða skóla þeir eiga að byrja. Þetta eru þau svör sem við höfum fengið. Þetta er svo fyrir neðan virðingu borgarinnar. Maður ætlast til meira af Reykjavíkurborg. Það er bara þannig.“

Hún segir borgina hafa veitt foreldrum litlar upplýsingar og ekki sýnt tilburði til að hafa þau með í ráðum.

„Starfshópur á vegum Reykjavíkurborgar, sem átti að skila af sér einhverjum greiningarniðurstöðum 1. júní, hafnaði til dæmis fundarbeiðni með fulltrúum foreldra og hefur, að okkur vitandi, ekki skilað neinum niðurstöðum ennþá. Við vitum í rauninni ósköp lítið og það sem við erum bara að biðja um er heildstæð lausn fyrir skólann þar sem viðgerðir, stækkun og þróun skólalóðarinnar er sett fram í tímasettri framkvæmdaáætlun.“

Eyrún segir að mygluvandamál séu til staðar í öllum skólum í hverfinu, sem hafi einfaldlega verið illa sinnt:

„Það eru allir skólar í hverfinu myglaðir. Það eru leikskólar, allir grunnskólarnir. Íþróttaaðstaðan í hverfinu er gjörsamlega fyrir neðan allar hellur og hverfið hefur verið bara vanrækt í heild sinni. Það verður eitthvað að gerast. Við krefjumst úrbóta. Það er bara þannig.“

Að lokum lofaði Eyrún störf Sigríðar, fráfarandi skólastjóra Laugarnesskóla, í hástert og vart verður annað séð en að Sigríður hafi verið skólastjóri af lífi og sál:

„Hún er bara ein sú allra besta leyfi ég mér að segja. Börnin mín sögðu: „Ha, hún getur ekki hætt.“ Þegar ég hugsa til baka til míns skólastjóra þá þekkti ég hann ekki. Hún þekkir öll börnin með nafni. Hún kemur út og tekur á móti þeim á morgnana. Hún er algjörlega einstök og það er gríðarlegt áfall fyrir okkur að missa hana.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Sveitarstjórn í Gran Canaria ríður á vaðið og setur á ferðamannaskatt – Tekur gildi eftir áramót

Sveitarstjórn í Gran Canaria ríður á vaðið og setur á ferðamannaskatt – Tekur gildi eftir áramót
Fréttir
Í gær

Ingólfur Kjartansson dæmdur í átta ára fangelsi

Ingólfur Kjartansson dæmdur í átta ára fangelsi
Fréttir
Í gær

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“