Karlmaður hefur verið dæmdur í 10 mánaða fangelsi fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni.
Lögreglu barst tilkynning um par í annarlegu ástandi í verslun í Reykjanesbæ þann 16. apríl 2022.
Þegar lögregla kom á vettvang sást maðurinn aðhafast eitthvað í farangursgeymslu bifreiðar og í kjölfarið ganga með hvítan poka inn í verslun og inn á snyrtingu sem var þar. Lögreglumenn bönkuðu á læstar dyr salernisins og kröfðust þess að maðurinn myndi opna. Hann varð ekki við því.
Var honum þá tilkynnt að lögregla myndi opna hurðina. Heyrðust. þá hávaði innan af salerninu og taldi lögregla að maðurinn væri að koma sönnunargögnum undan og opnuðu því hurðina. Maðurinn reyndi að koma í veg fyrir það. Þegar lögregla kom inn á salernið var maðurinn enn með pokann sem hann hafði tekið úr bifreiðinni á sér.
Báðu lögreglumenn um að maðurinn myndi sýna þeim hvað hann væri með í vösum. Þar fundust 12 stykki af OxyContin töflum í spjaldi. Maðurinn sagðist vera með þær vegna vinnuslyss sem hann hefði lent í.
Síðan fann lögregla opinn sælgætispoka með mörgum hvítum töflum undir poka í ruslatunnu inn á salerninu. Maðurinn sagði þetta vera Xanax töflur sem kona sem var með honum á svæðinu ætti.
Maðurinn var þá handtekinn. Við öryggisleit hrundu 80 mg OxyContin töflur úr buxnaskálmum hans. Einnig fundust margar töflur í nærbuxunum hans, í poka undir kynfærum hans. Eftir að hann var færður í fangaklefa fundust töflur á gólfi klefans og eins var hann með töflur í endaþarmi.
Alls var um að ræða 224 töflur af OxyContin, bæði 40 mg og 80 mgr, og líka 321 stykki af Alprazolam (Xanax).
Maðurinn sagði við skýrslugjöf hjá lögreglu að hann tæki OxyContin að læknisráði og væri hann með lyfseðil. Hann fái tvo pakka í mánuði og hann hafi verið með tvo pakka. Í dómi segir:
„Hann kvaðst stundum fela lyfin og þess vegna hafi hann verið með þau á sér þegar lögregla hafi haft af honum afskipti en það hafi komið fyrir að lyfjum hafi verið stolið af honum. Ákærði neitaði því að vera að selja OxyContin. Hann sagði að töflurnar sem lögregla hafi fundið í sælgætispoka í ruslafötunni á snyrtingunni væri Xanax en hann hafi ekki átt þær og það vissu allir hvernig Xanax liti út. Ákærði hélt að „stelpan“ hafi átt þær. Að öðru eyti vildi ákærði lítið tjá sig.“
Fyrir dómi hélt maðurinn því enn fram að hann hefði fengið töflurnar uppáskrifað og að Xanax töflurnar hafi verið í eigu konunnar sem var með honum. Hún hafi verið þjófótt og hann því falið töflurnar m.a. í endaþarmi, enda ekki viljað láta stela þeim af sér. Hann hafi ekki viljað hleypa lögreglumönnum inn á snyrtinguna því þar hafi hann verið að gera þarfir sínar.
Konan kannaðist þó ekki við töflurnar. Hún hafi hitt hann á hóteli og farið með honum á bifreið til Keflavíkur þar sem hún hafi ætlað að sækja lyf á heimili sitt. Þau hafi farið á veitingastað en lögregla komið þangað og maðurinn læst sig inni á salerni. Hún hafi ekki átt þær töflur sem fundust þar inni. Seinna hafi maðurinn hringt í hana og viljað að hún greiddi fyrir töflurnar sem lögreglan hafði tekið.
Lögreglumaður sem kom á vettvang bar einnig vitni og segir um þann vitnisburð: „Ákærði hafi verið handtekinn og við öryggisleit á honum hafi mikið magn af töflum hrunið úr buxnaskálmum hans. Poki með töflum hafi einnig fundist undir kynfærum ákærða. Eftir að ákærði hafi verið færður í fangaklefa hafi fundist töflur á gólfi klefans og þá hafi aftur verið gerð öryggisleit á honum. Ákærði hafi þá gripið um afturendann og fundist hafi poki með töflum í endaþarmi hans og einnig hafi hrunið töflur úr endaþarmi hans þegar hann hafi beygt sig fram.“
Dómari taldi það fráleita skýringu að maðurinn hefði falið lyf undir kynfæri og í endaþarmi sem væru löglega fengin. Töflurnar hafi ekki verið í upprunalegum umbúðum og hafi verið um töluvert magn að ræða. Bendi það til þess að lyfin hafi ekki verið ávísuð af lækni. Ekki væri hægt að taka tillit til útprentun sem maðurinn sagði koma úr apóteki þar sem hún tæki til tímabils eftir að atvik urðu.
Maðurinn átti nokkurn sakaferil sem var rakinn í dóminum allt til ársins 2013. Þótti refsing hæfilega ákveðin 10 mánuðir.