Eins og hefð er fyrir fór Þrettándagleði ÍBV fram síðastliðinn föstudag 6.janúar. Segja má að eftirvæntingin hafi verið óvenju mikil í ár enda hafði heimsfaraldur Covid-19 þau áhrif að fögnuðurinn var í uppnámi síðustu ár. Fyrir Covid-19 var Þrettándagleðin mikið sjónarspil og fór gleðin fram með hefðbundnum hætti í ár. Gleðin var auglýsingt með eftirfarandi hætti Þrettándablaði ÍBV.
„Flugeldasýning, blysför, álfabrenna, jólasveinar, tröll, tónlist og margt fleira,“ segir í auglýsingunni. Fjölmargir bæjarbúar mættu í göngu sem lá að brennunni og vöktu ýmsar kynjaveru athygli, þar á meðal tvö tröll, eins og hefð er fyrir. Í ár þykja tröllin þó hafa farið út fyrir öll velsæmismörk, annars vegar svokölluð Skessa sem í ár var merkt með nafninu Edda Flak, sem augljóslega er tilvísun í hlaðvarpsstjórnandann Eddu Falak. Þá var hitt tröllið klætt upp sem múslimi einnig vakið talsverða hneykslan og sagt vera dæmi um rasisma.
Það var fréttamiðillinn Mannlíf sem vakti fyrst athygli á málinu en síðan þá hafa umræður farið á fullt og sýnist sitt hverjum.
Haraldur Pálsson, framkvæmdastjóri ÍBV, segir í samtali við DV að hefð sé fyrir því að nefna tröllin einhverju nafni. Árum saman hafi annað tröllið, svokölluð Skessa, verið nefnd eftir Gauja litla og hin síðari ár og fyrrum lögreglustjóranum Páleyju Borgþórsdóttur. Hitt tröllið hafi verið nefnt eftir Heimi Hallgrímssyni árum saman, fyrst verið klætt upp í fótboltabúning en eftir að Heimir tók við starfi sem knattspyrnuþjálfari í Katar hafi tröllið verið klætt upp í hefðbundinn klæðnað á þeim slóðum. Haraldur segir að ákvarðanir um hvernig tröllin eru klædd eða hvað þau séu nefnd séu ekki inni á borði ÍBV heldur sé það gert af sjálfboðaliðum sem sjá um að stýra tröllunum í göngunni.
„En ég tek undir það að það er ljótt að uppnefna fólk og við biðjumst afsökunar á þessu. Ég er viss um að þessi umræða verður til að við munum bæta okkur að ári,“ segir Haraldur.
Talsverð umræða hefur skapast um fögnuðunn á umræðuvettvangi Eyjamanna á Facebook, Heimakletti. Þar er meirihlutinn sem tjáir sig afar ósáttur við hvernig að þessu var staðið. „Skammarlegt, rosalega fordómafullt,“ segir einn Eyjamaður og annar bætir við: „Svo ógeðslega óviðeigandi og ömurlegt – Fannst engum sem að þessari hátíð kemur neitt athugavert við þetta?“
Þá stígur Ragnheiður Borgþórsdóttir, systir Páleyjar sem „var“ Skessan um árabil, fram og rifjar upp nafnahefðina og segir að mögulega hafi ekkert verið að því að nefna Skessuna bara Edda Falak. „En Edda Flak stakk í hjartað. Eyjamenn voru þekktir fyrir uppnefni fyrir einhverjum áratugum en ég hélt að við værum vaxin upp úr því einelti,“ skrifar Ragnheiður.
Á Twitter var bent á að ákveðnir hópar séu búnir að skrímslavæða Eddu Falak fyrir það eitt að tala um mál sem aðrir reyni að þagga niður sem og að gefa þolendum pláss.
Edda skrifar á Twitter að þarna sé heilt íþróttafélag og bæjarfélag að hvetja til ofbeldis og „stóri boginn er að segja konum að halda kjafti þegar þeim er nauðgað.“
Tók Edda fram að hún muni greinilega hafa nóg að gera á þessu ári.
Hér er heilt íþróttafélag og bæjarfélag að hvetja til ofbeldis og stóri boginn er að segja konum að halda kjafti þegar þeim er nauðgað. Ég hef greinilega nóg að gera á þessu ári. https://t.co/G086LZWIqU
— Edda Falak (@eddafalak) January 8, 2023