Inn á Facebook-hóp þar sem barist er gegn ofbeldismenningu er varað við karlmanni á þrítugasta ári sem nýlega var dæmdur fyrir að ganga í skrokk á, og nauðga, konu sem hann hafði keypt vændi af.
Umræddur maður, Vilhjálmur Freyr Björnsson, var nafngreindur í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í dag, en áður hafði dómurinn verið nafnhreinsaður. Ákvörðun var tekin um að endurbirta dóminn, með nafni Vilhjálms, þar sem hann hafi engin tengsl við þolanda í málinu og því ekki hægt að vísa til hagsmuna þolanda varðandi nafnhreinsun.
„Þessi maður er á Tinder. Ef hann poppar upp hjá ykkur endilega reporta prófílinn hans. Því fleiri sem tilkynna hann því líklegra er að hann verði bannaður á tinder.“
Með færslunni fylgdi skjáskot af Tinder-prófíl Vilhjálms. Í athugasemdum kom fram að hann hafi einnig búið sér til aðganga þar sem hann gengur undir fölsku flaggi og kalli sig meðal annars Halldór.
Vilhjálmur var þann 20. desember dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir brot sín. Í dómsorði segir:
„Við ákvörðun refsingar ákærða verður litið til þess að atlaga ákærða að brotaþola var ofsafengin og gróf og að með háttsemi sinni olli hann brotaþola alvarlegum líkamlegum áverkum og braut gegn kynfrelsi hennar og þeim trúnaði sem hún sýndi honum með komu sinni til hans. Megi telja mildi að ekki urðu enn alvarlegri afleiðingar fyrir brotaþola. Ákærði framdi brot sín af eigingjörnum hvötum og skeytti engu um heilsu og velferð brotaþola. Var ásetningur ákærða sterkur en hann frelsissvipti brotaþola í um þrjár klukkustundir og beitti hana á þeim tíma líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi.“
Vilhjálmur varð það til málsbóta að hafa sótt vímuefnameðferð og játað háttsemi sína að hluta. Að öðru leyti ætti hann sér engar málsbætur.
Sjá einnig:
Þetta er nafn mannsins sem var dæmdur fyrir að frelsissvipta og nauðga vændiskonu
Frelsissvipti vændiskonu og misþyrmdi henni hrottalega