New York varð um áramótin sjötta fylki Bandaríkjanna sem leyfir með lögum að einskonar moltugerð verði viðurkennd útfararleið í fylkinu. Washington varð fyrsta ríkið til að heimila slíkt árið 2019 en síðan bættust Colorado og Oregon í hópinn árið 2021 og Vermont og Kalifornía í fyrra.
„Ég ætlast til að framleidd verði molta úr líkama mínum eftir minn dag og fjölskyldan mín veit af því. Hvað þau gera við moltuna eftir minn dag er þeirra mál,“ hefur AP fréttastofan eftir Howard Fishcer, 63 ára gömlum fjárfesti í New York.
Valkosturinn er sagður henta þeim sem að vilji haga lífi sínu og ekki síður dauða á sem umhverfisvænasta hátt. Þá er um afar praktískan valkost að ræða í stórborgum þar sem landrými er af skornum skammti og ekki ákjósanlegt að nota það sem er í boði í grafreit.
Útförin fer þannig fram að líkami hins látna fer í endurnýtanlegt hylki ásamt ýmsum lífrænum efnum á borð við viðarspæni, heyi og dauðum blómum. Þannig skapast kjöraðstæður fyrir örverur sem stuðla að niðurbroti íkamsleifanna en á rúmum mánuði ætti næringarrík molta að vera orðin til. Hver líkami ætti að skaffa um einn rúmetra af moltu sem síðan er hægt að nota til þess að planta trjám eða græða upp land með einhverjum hætti.
Því fer þó fjarri að allir séu sáttir við að þessi valkostur sé nú í boði og margir eru þeirrar skoðunar að það sé fullkomið virðingarleysi fyrir jarðneskum leifum fólks að nota aðferð sem er þekkt til að losna við matarafanga með praktískum hætti.
Katrina Spade, stofnandi mannlegu moltugerðarinnar Recompose, er ekki á þeirri skoðun. Hún bendir á að það að brenna líkamsleifar, sem orðinn er vinsæll valkostur itl að bregðast við skorti á landi undir hefðbundnar grafir, mengi mikið. Þá sé það afar falleg tilhugsun í huga margra að líkami þeirra nýtist til þess að rækta tré eða einhverskonar blóm.