fbpx
Mánudagur 04.júlí 2022
FréttirHelgarmatseðillMatur

Dýrðlegur helgarmatseðill í boði Sollu og Hildar

Sjöfn Þórðardóttir
Föstudaginn 8. apríl 2022 13:28

Mæðgurnar Solla Eiríks og Hildur Ársælsdóttir eiga heiðurinn af helgarmatseðlinum að þessu sinni sem er hinn dýrðlegasti og vegan. MYND/SAGA SIG.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mæðgurnar Solla Eiríks og Hildur Ársælsdóttir bjóða upp á dýrðlegan helgarmatseðil sem er vegan og allir sælkerar eiga eftir að elska. Veganréttirnir eru svo girnilegir og brögðin einstök, þið eigið eftir að elska þessa rétti.

Solla og Hildur hafa í samvinnu við Bresk-Ameríska bókaforlagið Phaidon gefið út matreiðslubókina Vegan at Home, þar sem Solla gerir uppskriftirnar og Hildur tekur myndirnar. Bókin er á ensku og er gefin út víða erlendis, á Íslandi fæst bókin í Pennanum Eymundsson og Costco. Þær eru nýkomnar heim frá London þar sem þær voru að fylgja eftir útgáfu bókarinnar með pomp og prakt.

Þegar við leituðum til Sollu og Hildar með helgarmatseðilinn brugðust þær strax jákvætt við fullar tilhlökkunar að gleðja lesendur með sælkera uppskriftum sem eiga sér enga líka. Mæðgurnar gefa lesendum DV.is uppskrift af dýrindis máltíðum fyrir laugardags- og sunnudagskvöld og guðdómlega ljúffengum vöfflum sem eru fullkomnar með sunnudagskaffinu. Allar myndirnar af réttunum tók Hildur og er einstaklega fallegar.

Á laugardagskvöldið mæla mæðgurnar með þriggja sælkerarétta máltíð sem enginn verður svikinn af.

Forréttur

Grillaðir melónubátar með kryddmauki

1 lítil melóna

Kryddmauk

1 msk. maukuð grilluð paprika

1 msk. olía af grilluðu paprikunni

½ – 1 tsk. chiliflögur

½ tsk. hlynsýróp

¼ tsk. sjávarsaltflögur

Allt maukað saman í mortel eða blandara eða með töfrasprota.

Ofan á

pístasíur, þurristaðar á pönnu og gróf saxaðar.

Veljið litla melónu, svo sneiðarnar verði um það bil 15-20 cm langar. Skerið í tvennt og kjarnhreinsið með skeið. Skerið hvorn helming í um það bil fjóra báta. Penslið grillpönnu með olíu og látið hitna svo hún verði mjög heit. Setjið melónusneiðarnar á og látið grillast í sirkað tvær mínútur á hvorri hlið. Takið af pönnunni, setjið 1-2 tsk. af kryddmaukinu á hverja sneið, stráið pístasíunum yfir og berið fram.

Aðalréttur

Grillaðir ostru sveppir (king oyster) m/hnetumauki og brokkolí

4 ostru sveppir, skornir í tvennt

Skerið grunnar rákir í báðar hliðarnar á hverjum sveppahelmingi. Byrjið á að gufusjóða sveppina. Látið vatn í pott, sirkað 10 cm, látið suðuna koma upp, setjið sigti yfir pottinn með sveppunum í og svo lok yfir. Látið gufusjóða í um 12-15 mínútur. Takið sveppina úr sigtinu, þerrið létt mesta vatnið og setjið þá á disk. Hellið maríneringuna yfir og látið marínerast í um 10 mínútur. Ef þið viljið undirbúa matinn kvöldinu áður mega sveppirnir liggja í maríneringu í sólarhring, verða bara bragðmeiri.

Penslið grillpönnu með olíu og látið hitna svo hún verði mjög heit. Raðið sveppunum á og látið grillast í sirkað 3-4 mínútur á hvorri hlið.

Marínering

1 ½ msk. olía

safi og hýði af 1 sítrónu

2 hvítlauksrif, pressuð

1 msk. ferskt timian

1 daðla, smátt skorin

1 tsk. sjávarsalt

Allt maukað saman í mortel eða með töfrasprota.

Hnetumauk

2 dl soðnar kjúklingabaunir eða ½ krukka niðursoðnar kjúklingabaunir

2 dl ristaðar heslihnetur, hægt að nota pekanhnetur

1 dl grilluð paprika, einfalt að nota tilbúna grillaða papriku úr krukku

1 msk. tómatpúrra

2 hvítlauksrif, pressuð

safi og hýði af 1 límónu

2 ½ msk. zathar kryddblanda ( ¼ tsk. chiliflögur, ½ tsk. cumin, ½ tsk. timian, ½ tsk. sjávarsalt flögur, 1 tsk. sumac, 1 msk. ristuð sesamfræ)

1 tsk. sjávarsaltflögur

Allt sett í matvinnsluvél og maukað saman.

Grillað brokkolíni

3-4 stönglar brokkolíni pr mann

Smá olía

1 tsk. sjávarsaltflögur

Sett í skál, hellt yfir smá olíu sem er “nudduð” inn í brokkolíið.

Penslið grillpönnu með olíu og látið hitna svo hún verði mjög heit. Raðið brokkolíinu á og látið grillast sirkað 1 ½ mínútu á hvorri hlið, kryddið með sjávarsaltflögum.

Sýrður vegan rjómi

2 dl sýrður vegan rjómi

2 msk. ferskur kóríander, smátt saxaður

3 mintublöð, smátt söxuð

hýði af 1 sítrónu

smakkið til með sjávarsaltflögum

Hrærið öllu saman í skál.

Eftirréttur

Bláber með mulningi og hafra/kókosrjóma

500 g bláber, fersk eða frosin

½ bolli möndlumjöl

½ bolli fínt spelt, hægt að nota glútenlausa mjölblöndu

½ bolli tröllahafrar

3 msk. kókospálmasykur eða hrásykur

1 tsk. lyftiduft

1 tsk. kanilduft

75 g vegan smjör eða smjörlíki, mjúkt

½ tsk. sjávarsaltflögur

Hitið ofninn í 200°C. Setjið allt nema bláberin í skál og hnoðið saman í höndunum, blandið bláberjunum saman við. Setjið bökunarpappír á bökunarplötu og “myljið” deigið á plötuna, bakið í 12-15 mínútur, eða þar til þetta hefur fengið á sig gullin brúnan lit. Gott að hræra í eftir 6-7 mínútur.

Berið fram með 50/50 þeyttum hafra rjóma og kókosjógúrt, byrjið á að þeyta hafrarjómann og þegar hann er stífþeyttur þá hrærið þið kókosjógúrt út í.

Mæðgurnar bjóða upp á þessa guðdómlegu vegan vöfflur með sunnudagskaffinu sem enginn stenst.

Vegan sunnudags vöfflur

1 ¾ bolli jurtamjólk

2 tsk. eplaedik

240 g fínt spelt

2 ½ tsk. vínsteins lyftiduft

½ tsk. sjávarsaltflögur

¼ bolli kókosolía, bráðin

1 tsk. vanilludropar

Byrjið á að setja jurtamjólkina og eplaedikið í krukku, látið standa í 5-10 mínútur svo mjólkin byrji að ystast. Sigtið speltið í skál ásamt lyftiduftinu, bætið út í salti, kókosolíu, vanilludropum og jurtamjólkur-blöndunni og hrærið mjög létt saman. Því minna sem þið hrærið því léttari verða vöfflurnar. Bakið í vöfflujárni, og berið fram með ferskum berjum eða sultu og vegan þeyttum rjóma, til dæmis frá Oatly.

Í kvöldverð á sunnudagskvöld mæla mæðgurnar með fljótlegu chili, sem borið er fram með avókadó og avókadó súkkulaðitrufflum að bestu gerð.

Fljótlegt Rauðrófu – chili

2 msk. olía

2 laukar

6 hvítlauksrif

5 msk tómatpúrra

2 stk. ferskur chili, smátt saxaður

2 glös grilluð paprika (300 g)

2 krukkur bakaðar baunir (lífrænar frá Himneskt)

800 g rauðrófur, soðnar og rifnar (fljótlegt að nota forsoðnar)

800 g passata

2 msk. sítrónusafi

2 msk. chili

3 tsk. cumin

1 tsk. reykt paprika

1 tsk. oreganó

2 tsk .sjávarsalt

smá pipar eftir smekk

Berið fram með:

2 stk. avókadó

vegan sýrður rjómi

ferskur kóríander

1 límóna, skorin í báta

Snögg sultaður rauðlaukur (sjá uppskrift hér fyrir neðan)

Hitið olíu í potti og mýkið lauk og hvítlauk í um 2-4 mínútur, eða þar til laukurinn byrjar að gyllast. 
Bætið tómatpúrru og kryddi út í og hrærið vel saman. Sigtið olíuna frá paprikunni og skerið paprikuna í minni bita og setjið út í. Rífið soðnu rauðrófurnar á grófu rifjárni og setjið út í. Bætið passata tómötunum út í ásamt sítrónusafa. Látið sjóða við vægan hita í 8-10 mínútur. Berið fram með avókadó, vegan sýrðum rjóma, snögg sultuðum rauðlauk og ferskum kóríander. Hægt er að bera réttinn fram í taco skeljum eða tortillum, eða með hrísgrjónum.

Snögg sultaður rauðlaukur (meðlæti með chili réttinum)

1 stk. lítill rauðlaukur, skorinn í þunnar sneiðar

1 sítróna (lífræn), skorin í sneiðar

2 msk. eplaedik, lífrænt

2 msk. vatn

2 msk. hlynsíróp

2 msk. sítrónusafi

½ tsk. sjávarsalt

Skerið laukinn í þunnar sneiðar og sítrónuna í aðeins þykkari sneiðar. Setjið lauk og sítrónu í krukku. Hellið restinni af uppskriftinni yfir, setjið lokið á og hristið. Ef vökvinn nær ekki að fljóta yfir laukinn má setja aukalega 1 msk. af hverjum vökva (vatni, sítrónusafa, sírópi og ediki). Ef það vantar mikið upp á má tvöfalda vökvann í uppskriftinni. Látið standa í smá stund. Best er að láta standa yfir nótt. Geymist í lokuðu íláti í kæli í nokkrar vikur.

Avókadó súkkulaðitrufflur

1 meðalstórt avókadó eða 2 lítil

100 g dökkt  súkkulaði

1 msk. hlynsíróp eða 2 döðlur

smávegis sjávarsalt

nokkrir dropar vanillu, appelsínu, eða piparmyntudropar

Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði. Maukið avókadó í matvinnsluvél og hellið súkkulaðinu út í ásamt restinni af innihaldsefnum og maukið. Smakkið deigið til að athuga hvort þurfi meiri sætu eða bragðdropa. Kælið blönduna í u.þ.b. 30 mínútur. Mótið svo kúlur og veltið upp úr kakó eða kókosmjöli eða söxuðum hnetum. Trufflurnar geymast best í kæli eða frysti.

Vert er að geta þess að mest allt hráefnið fæst í Bónus og vörurnar hennar Sollu, Himneskt, fást í Bónus sem passa einstaklega vel í þessa rétti.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

HelgarmatseðillMatur
Fyrir 3 vikum

Ómótstæðilegur helgarmatseðill með ítölsku ívafi í boði Lindu Ben

Ómótstæðilegur helgarmatseðill með ítölsku ívafi í boði Lindu Ben
Matur
Fyrir 3 vikum

Gabríel töfrar fram tryllingslega gott tígrisrækjusalat

Gabríel töfrar fram tryllingslega gott tígrisrækjusalat
HelgarmatseðillMatur
20.05.2022

Maríanna er brjáluð í nautasteikur og ekkert gleður hana eins mikið og Tiramisu

Maríanna er brjáluð í nautasteikur og ekkert gleður hana eins mikið og Tiramisu
Matur
18.05.2022

Ný vörulína frá Kaju sem á eftir að slá í gegn

Ný vörulína frá Kaju sem á eftir að slá í gegn
Matur
09.05.2022

Risarækjukokkteill eins og hann gerist bestur

Risarækjukokkteill eins og hann gerist bestur
Matur
08.05.2022

Vegan með Vítalíu – Mjúkar og djúsí súkkulaðibitakökur

Vegan með Vítalíu – Mjúkar og djúsí súkkulaðibitakökur