Einn elskaðasti köttur landsins, Diego, sem má jafnan sjá bregða fyrir inni í verslunum í Skeifunni, varð fyrir bíl í morgun og er nokkuð slasaður. Var hann fluttur á dýraspítala þar sem verið er að gera að sárum hans, en ekki ert vitað um líðan hans. Frá þessu er greint í Facebook-hópnum Spottaði Diego, en það er hópur sem spratt út frá vinsæla hópnum Spottaði kött og er alfarið helgaður Diego og ævintýrum hans í Skeifunni.
Hafa margir farið í pílagrímsferð til Skeifunnar að berja köttinn augum en líklegt þykir að hitta hann fyrir í versluninni A4 þar sem hann leggur sig ofan á ljósritunarpappír. Jafnvel er það vinsælt meðal kattelskandi ferðamanna að freista þess að sjá Diego.
Vinsæla Twitter-síðan Bodega Cats hefur vakið athygli á honum og því uppátæki A4 að skrá hann sem sérstakan meðmælanda með pappír.
— Bodega Cats (@Bodegacats_) February 2, 2022
Rúmlega 9 þúsund manns eru í hópnum Spottaði Diego og hefur batakveðjunum rignt þar inn nú í morgun.