Nóg var að gera hjá lögreglu í nótt sem þurfti að sinna þónokkrum málum sem tengdust ölvun og fólki í annarlegu ástandi. Þá var maður handtekinn í Árbæ grunaður um að hafa ítrekað um nóttina gert tilraunir til að brjótast inn.
Ökumaður var stöðvaður í nótt grunaður um akstur undir áhrifum. Þótti lögreglumönnum ökumaðurinn vera sljór og gekkst ökumaður við því að hafa tekið inn þríhyrningsmerkt lyf sem gæti haft áhrif á aksturshæfni. Ökumaður var þá handtekinn og færður á lögreglustöð í hæfnismat og blóðsýnatöku en sleppt að því loknu.
Í miðborginni var skömmu síðar tilkynnt um líkamsárás. Lögregla fór og ræddi við árásarþola en vitað er hver gerandi er.
Þá var einstaklingur í annarlegu ástandi handtekinn við skemmtistað í miðbænum eftir að hafa lent í útistöðum við dyraverði. Einstaklingurinn fór í burtu en kom aftur vopnaður hafnaboltakylfu og var ógnandi í hegðun. Engan sakaði þó og var einstaklingnum gert að sofa úr sér í fangaklefa.
Lögregla hafði afskipti af þó nokkrum ökumönnum sem eru grunaðir um akstur undir áhrifum og voru fjórir ökumenn handteknir á svæði Hafnarfjarðar, Garðabæ og Álftaness, og færðir á lögreglustöð í sýnatöku
Á svæði Kópavogs og Breiðholts hrasaði ölvaður maður og datt á veitingastað. Hlaut hann stóran skurð og var fluttur á bráðamóttöku. Á sama svæði voru tveir ökumenn stöðvaðir grunaðir um akstur undir áhrifum. Annar þeirra er í dagbók lögreglu sagður hafa verið „mjög ósamvinnuþýður“.
Í Árbæ var tilkynnt um þjófnað á rafmagnshlaupahjóli. Lögregla hafði stuttu seinna afskipti af manni á hlaupahjólinu og var málið afgreitt með vettvangsformi.
Í sama hverfi var tilkynnt um innbrot um miðnætti. Þá hafði tilkynnandi komið að einum manni innandyra sem þó tókst að koma sér undan áður en lögregla kom.
Tveimur tímum seinna var aftur gerð tilraun til innbrots í Árbæ, en þá hafði húsráðandi vaknað við skarkala og komið að manni sem var hálfur kominn inn um svalahurðina. Maðurinn komst þó undan.
Skömmu síðar barst lögreglu innbrotsboð frá stofnun í Árbæ. Lögreglumenn fóru á vettvang og var þar einn handtekinn, grunaður um innbrot og tilraun til innbrots í áðurnefndum málum
Um hálf þrjú í nótt urðu lögreglumenn varir við eld í Elliðaárdal. Eldurinn reyndist vera í vinnuskúr og handtók lögregla tvo menn á svæðinu vegna gruns um íkveikju, en báðir voru í annarlegu ástandi og fengu að verja nóttinni í fangaklefa.