Eins og DV greindi frá fyrir í dag hefur Brynjar Joensen Creed, 52 ára fjölskyldufaðir, verið dæmdur í sex ára fangelsi fyrir margvísleg kynferðisbrot gegn stúlkum á grunnskólaaldri.
Dómurinn gegn Brynjari hefur nú verið birtur á vef dómstólanna. Sjá hér
Dómurinn staðfestir ýmsar upplýsingar sem komið hafa fram í DV um málið, meðal annars þær að við sum brot sín notaði Brynjar fyrirtækisbíl sem hann hafði til afnota í starfi sínu hjá stóru heildsölufyrirtæki. Er Brynjar var handtekinn þann 8. nóvember í fyrra haldlagði lögreglu bílinn og notaðist við gögn úr ökurita hans. Einnig var gerð húsleit á heimili Brynjars þar sem lagt var hald á tölvur, snjallsíma, minnislykla, kynlífshjálpartæki og fleira.
Þann 12. október árið 2021 kærði Barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar Brynjar fyrir kynferðisbrot gegn ungri stúlku. Samkvæmt framburði stúlkunnar hafði hún nokkrum sinnum hitt mann sem hafði tekið af henni klámfengin myndbönd gegn greiðslu í formi peninga, fata, áfengis og veipvökva.
Stúlkan sagði að maðurinn væri á hvítum bíl sem hún taldi að væri merktur einhverri kaffitegund, en það passar fullkomlega við vinnustað Brynjars. Í eitt skipti er stúlkan hitti Brynjar keyrði hann með hana á afskekkt svæði hjá bílakjallara. Þar tók hann út á sér liminn og sagði stúlkunni að veita sér munnmök. Hún segist ekki hafa þorað að segja nei og gert það. Strax eftir brotið skutlaði hann stúlkunni að Nettó þar sem hún hitti vini sína.
Ofannefnd lýsing er aðeins örlítið brot af öllum þeim brotatilvikum sem lýst er í dómnum en Brynjar var meðal annars sakfelldur fyrir tvær nauðganir en sýknaður af einum slíkum ákærulið vegna skorts á sönnunum. Í dómnum er lýst undarlegum stigaleik sem Brynjar lék við þolendur sína en DV hefur áður greint frá leiknum.
Um leikinn segir í texta dómsins:
„Í símunum fundust einnig m.a. ljósmyndir og myndskeið í samræmi við leik ákærða þar sem stig voru aðallega gefin fyrir kynferðislegar athafnir. Reglur leiksins voru einnig í símanum en stigin voru fleiri eftir því sem athafnirnar urðu grófari. Þannig voru fimm stig gefin fyrir að veifa, brosa, hoppa, klappa eða sleikja varir en 1.000 stig gefin fyrir að sýna píku, rass í doggy, strjúka píku, putta eða leika með dót. Fyrir ,,orgasm“ voru gefin 10.000 stig en ekkert fannst sem sýndi einstakling fá fullnægingu. Ljósmyndir tengdar leiknum voru 318 og myndskeið 11.“
Eiginkona Brynjars bar vitni fyrir dómi. Í máli hennar kom fram að hún vissi ekkert um brot hans gegn ólögráða stúlkum. Hins vegar vissi hún um framhjáhald Brynjars með fullorðnum konum. Í texta dómsins kemur fram að auk samskipta sín við ólögráða stúlkur hafi Brynjar átt í sambærilegum samskiptum við fullorðnar konur og stundað kynlíf með þeim. Þetta framhjáhald var vandamál í hjónabandinu og leituðu hjónin meðal annars til hjónabandsráðgjafa vegna þessa trúnaðarbrests.
Í sálfræðimati á Brynjari kom fram að hann virðist ekki vera haldinn eiginlegri barnagirnd, þ.e. gagnvart ókynþroska börnum, heldur virtist hann ekki hirða um aldur kvenna sem hann sóttist eftir kynferðislegum samskiptum við. Yngsta stúlkan sem Brynjar átti í þesskonar samskiptum við var nýorðin 13 ára þegar samskiptin hófust.
Brynjar er fæddur og uppalinn á Vopnafirði og bjó þar til 42 ára aldurs. Hann stundaði nám í grunndeild rafiðnar og grunndeild málmiðnaðar, vann á nokkrum stöðum, var til sjós í um 10 ár en hefur unnið hjá heildsölufyrirtækinu þar sem hann var síðast við störf frá 2014. Hann lenti í bílslysi árið 2009 og var metinn 21% öryrki.
Í viðtölum við geðlækna vegna réttarmats segist Brynjar hafa oft velt því fyrir sér hvort eitthvað sé að geðheilsu hans. Hann verði aldrei reiður og hafi aldrei lent í átökum. Hann hafi um nokkurt skeið átt í vandræðum með áfengi.
Brynjar var ákærður fyrir kynferðislega áreitni við börn, fyrir vörslu og dreifingu á kynferðislegu efni með börnunum og fyrir nauðgun og önnur kynferðisbrot gegn þeim. Hann var sakfelldur fyrir flesta ákæruliði, meðal annars tvær nauðganir en ekki sakfelldur fyrir þriðja tilvikið um nauðgun sem á að hafa átt sér stað á gistiheimili, fyrir utan að sannað þótti með játningu hans sjálfs að hann hafði munnmök við stúlkuna.
Var Brynjar dæmdur í sex ára fangelsi en frá því dregst sá tími sem hann hefur setið í gæsluvarðhaldi. Hann var jafnframt dæmdur til að greiða stúlkunum fimm miskabætur, frá einni milljón króna upp í tvær og hálfa milljón. Ennfremur var hann dæmdur til að greiða málskostnað upp á samtals um þrjár milljónir króna.
Jafnframt þessu var Brynjar úrskurðaður í mánaðarlangt gæsluvarðhald. Rannsókn stendur yfir á fjölmörgum öðrum ætluðum brotum hans sem eru af svipuðu tagi og þau sem hann var dæmdur fyrir í dag.