fbpx
Föstudagur 03.maí 2024
Fréttir

Réðst á dreng sem ætlaði að gera dyraat

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 23. apríl 2024 12:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Maður hefur verið dæmdur í Héraðsdómi Reykjaness fyrir að ráðast á dreng, sem hafði ætlað sér að gera dyraat heima hjá manninum, og slá hann í andlitið og halda honum niðri.

Það kemur ekki fram í dómnum í hvaða sveitarfélagi atvikið átti sér stað en það var embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum sem ákærði manninn svo að líklega hefur það átt sér stað á Suðurnesjum.

Maðurinn var ákærður fyrir bæði líkamsárás og barnaverndalagarbrot með því að hafa í lok október 2022 ráðist á drenginn með því að rífa í hálsmálið á fatnaði hans, slá hann í andlitið, draga hann niður í jörðina og halda honum þar. Hlaut drengurinn áverka eftir árásina en þar var um að ræða roða á hálsi vinstra megin og roða á kinnbeini hægra megin og í kringum hægra auga.

Um málsatvik segir í dómnum að þegar lögreglan hafi verið kölluð á vettvang hafi verið þar maðurinn og vinur hans að rífast við hóp drengja. Sagði vinurinn að drengirnir hefðu veist að þeim með orðum og að þeir hefðu gripið í þá meðan beðið var eftir lögreglu. Drengirnir tjáðu lögreglumönnum að þeir hefðu verið í hádegismat í skólanum og farið út af skólalóðinni til að gera dyraat. Drengurinn sem maðurinn réðst á hafi farið að heimili mannsins og síðan hafi þeir séð manninn hlaupa á eftir drengnum og ná honum niður í jörðina og halda um andlit hans með opnum lófa. Þeir hafi hins vegar ekki séð manninn kýla drenginn í andlitið.

Hafi áður verið gert dyraat

Drengurinn sagðist hafa ætlað að gera dyraat hjá manninum en maðurinn hafi komið út áður en færi hafi gefist til að hringja bjöllunni. Hann hafi þá hlaupið burt en maðurinn náð honum og kýlt hann í hægra kinnbeinið tvisvar eða þrisvar. Maðurinn hafi síðan tekið í kjálka hans og haldið honum niðri en hafi sleppt honum áður en lögreglan kom á vettvang.

Í skýrslutöku hjá lögreglu sagði maðurinn að daginn áður en atvikið átti sér stað hafi hópur drengja barið á dyr heimilis hans og farið út á götuhorn til að sjá hvort hann myndi elta þá. Þegar atvikið hafi átt sér stað hafi bæði verið lamið og sparkað í útidyrnar á heimili hans. Hann hafi náð drengnum sem hafi bankað og gripið um hann báðum höndum og sett hann í sitjandi stöðu. Hann neitaði því alfarið að hafa hent drengnum í jörðina og að hafa slegið hann.

Maðurinn hélt sig við þennan framburð fyrir dómi.

Drengurinn bar vitni fyrir dómi og sagði eins og hann hafði gert á vettvangi að ætlunin hafi verið að gera dyraat heima hjá manninum. Hann og fleiri drengir hafi verið að gera dyraat og hafi gert það áður en atvikið varð. Maðurinn hafi slegið hann tvisvar í andlitið og lagt hann síðan í jörðina en ekki haldið honum niðri.

Aðrir drengir sem báru vitni fyrir dómi sögðu að ætlunin hafi verið að gera dyraat hjá manninum og að þeir hefðu einnig gert það daginn áður. Enginn þeirra sagðist hafa séð manninn slá drenginn en hann hafi sagt þeim öllum að maðurinn hafi slegið hann.

Læknir staðfesti fyrir dómi vottorð sem hann veitti vegna áverkanna sem voru á drengnum.

Ekkert hreki framburð drengsins

Í niðurstöðu Héraðsdóms Reykjaness segir að læknisvottorð, ljósmyndir og framburður vitna renni stoðum undir framburð drengsins. Hann hafi verið með minniháttar áverka í andliti og ekkert bendi til annars en að hann hafi hlotið þá eftir samskipti hans við manninn.

Það segir ennfremur í niðurstöðunni að framkoma drengsins hafi verið óásættanleg og ekki óeðlilegt að maðurinn myndi bregðast við með einhverjum hætti. Viðbrögð hans hafi hins vegar verið „full harkaleg“ í ljósi þess að hann sé fullorðinn en þolandinn barn.

Maðurinn var því sakfelldur. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að hann hafði ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi. Einnig var litið til þess að aðdragandi atviksins var sá að drengurinn hafi verið að valda manninum „ástæðulausu ónæði“.

Því þótti hæfilegt að dæma manninn í 30 daga skilorðsbundið fangelsi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Karl Arnar hristir hausinn: „Snúið fyr­ir einka­fyr­ir­tæki að standa í sam­keppni við djúpa vasa rík­is­ins“

Karl Arnar hristir hausinn: „Snúið fyr­ir einka­fyr­ir­tæki að standa í sam­keppni við djúpa vasa rík­is­ins“
Fréttir
Í gær

Kjartan vill að stakir frídagar verði færðir að helgum: Slíta í sundur vinnuvikuna og valda margvíslegu ónæði

Kjartan vill að stakir frídagar verði færðir að helgum: Slíta í sundur vinnuvikuna og valda margvíslegu ónæði
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harry Potter-stjarnan opnar sig um vinslitin við JK Rowling

Harry Potter-stjarnan opnar sig um vinslitin við JK Rowling
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Gullúr sem fannst á líki eins af farþegum Titanic seldist á rúmar 200 milljónir króna

Gullúr sem fannst á líki eins af farþegum Titanic seldist á rúmar 200 milljónir króna