Þetta er mat Jacob Kaarsbo, sérfræðings hjá dönsku hugveitunni Tænketanken Europa og fyrrum sérfræðings hjá leyniþjónustu danska hersins.
Fyrsta markmið Rússa í stríðinu var að ná höfuðborginni Kyiv á sitt vald. Það mistókst og varð Pútín því að skipta um markmið og lýsti hann því yfir að það hefði allan tímann verið markmiðið að ná Donbas á vald Rússa.
Nú er um þrjár vikur síðan Rússar hófu sókn í Donbas, eftir að hafa hörfað frá Kyiv, en að mati Kaarsbo mun þeim ekki takast að leggja héraðið undir sig eða „frelsa“ það frá „úkraínskum nasistum“ en Pútín hefur haldið því fram að nasistar ráði ríkjum í Úkraínu. Þ
Í samtali við Jótlandspóstinn sagði hann að Rússar hafi eytt miklu púðri í stríðið. Þeir hafi sent fjölmennt herlið inn í Úkraínu en herliðið hafi ekki verið til orustu reiðubúið. Þeir hafi sótt fram á breiðri víglínu og því misst meira af mönnum og búnaði en ella. Stærðfræðin gangi einfaldlega ekki upp og því muni Rússar ekki ná Donbas á sitt vald.
Hann sagðist ekki telja mögulegt fyrir Rússa að hefja sókn á nýjan leik því þeir geti ekki kallað fleiri hermenn til starfa eða bætt búnað sinn. Hann benti á að breskur sérfræðingur hafi fyrir nokkru haldið því fram að rússneski herinn myndi brotna saman innan tveggja vikna. Svo bjartsýnn sé hann ekki sjálfur en telji að nú séu um tvær vikur í að rússneski herinn brotni saman. Þá geti hann ekki sótt frekar fram og muni smám saman enda í vörn.
Talið er að Rússar hafi misst allt að helming hermanna sinna og búnaðar í orustunni um Kyiv og það getur skipt sköpum í stríðinu. Kaarsbo sagði að í kjölfarið hafi hersveitir verið sameinaðar og það gefist ekki vel. Það sé ekki bara hægt að sameina hersveitir einn, tveir og þrír. Þær séu sérhæfðar. Sumar séu skriðdrekahersveitir, aðrar stórskotaliðshersveitir og enn aðrar sjái um birgðaflutninga. Það gefist ekki vel að sameina þær, það taki tíma að byggja hersveitir upp.