fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fréttir

Ósakhæfur barnaníðingur á sambýli fyrir geðfatlaða veldur ólgu í Mosfellsbæ – Börn í næstu húsum og leikskóli í götunni

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 17. júní 2021 21:00

Frá Krókabyggð. Mynd: Já.is

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kristlaug Elín Gunnlaugsdóttir og Rúnar Geir Garðarsson, íbúar við götuna Krókabyggð í Mosfellsbæ, hafa haft samband við DV með ábendingar um að dæmdur, en ósakhæfur barnaníðingur, sem er mjög hömlulaus í hegðun sinni við börn, sé vistaður á sambýli fyrir geðfatlaða sem er í götunni. Í götunni eru margar barnafjölskyldur og börn þeirra Kristlaugar og Rúnars, sem búa í næsta húsi við sambýlið, eru 3ja og 9 ára.

Það getur verið úr vöndu að ráð með ósakhæfa afbrotamenn en þessi maður hefur áður komið við sögu í fréttum DV, en þá bjó hann hjá öldruðum foreldrum sínum og skorti aðstoð frá bænum. Hann hefur síðan fengið inni á sambýli en það húsnæði virðist óheppilega staðsett með tilliti til afbrigðilegs háttalags hans.

Sjá einnig: Varað við íslenskum manni sem áreitir börn í gegnum Snapchat

Þann 26. febrúar síðastliðinn birti DV frétt með ofangreindri fyrirsögn. Þar segir meðal annars:

„Undanfarið hefur maður sem kallar sig Sigga Halldórsson sent fjöldann allan af óviðeigandi og klámfengnum skilaboðum á börn á aldrinum 9 til 14 ára. Siggi Halldórsson er ekki rétt nafn mannsins og raunar mun maðurinn hafa notað fleiri Snapchat-reikninga undir öðrum nöfnum.

Málið hefur verið mikið í umræðunni í Facebook-hópunum Beauty Tips 30+ og  „Við birtum nöfn og myndir af dæmdum barnaníðingum.“

Maðurinn er á fertugsaldri. Kona sem DV ræddi við lýsir því að hann hafi brotið gegn syni hennar og vini hans skömmu eftir aldamótin, en þá var umræddur maður á unglingsaldri. Það atvik komst ekki upp fyrr en löngu síðar og eftir að það var kært til lögreglu lét lögregla málið falla niður, meðal annars með þeim orðum að maðurinn væri ósakhæfur.“

DV ræddi við foreldra mannsins í vetur og kom eftirfarandi meðal annars fram í spjalli við þau:

„Umræddur maður er fatlaður og er fötlun hans rakin til slyss sem hann varð fyrir tveggja ára gamall. Að sögn foreldranna nýtur hann ekki aðstoðar bæjarfélagsins en hann hefur búið á heimili þeirra alla tíð. Hins vegar sé hann undir handleiðslu geðlæknis hjá Geðendurhæfingu Kleppspítala. Hún segir son sinn aldrei hafa verið greindan sérstaklega hvað varðar raskanir eða geðsjúkdóma en ljóst sé að hann er á eftir í þroska. Talið er að hann hafi orðið fyrir framheilaskaða við slysið í æsku.

Aðspurð hvort búið sé að taka á málinu sem varðar áreitni mannsins við börn undanfarið, sagði móðirin: „Hann er kominn með takkasíma.“ Viðurkennir hún að sú ráðstöfun hafi fyrst verið gerð í gær. „Það er ekki tölva á heimilinu,“ segir hún ennfremur og telur fullvíst að sonur hennar hafi ekki lengur aðgang að snjalltækjum til að áreita börn.“

Móðirin greindi einnig frá því að maðurinn hefði verið sakfelldur fyrir kynferðislega áreitni gegn barni árið 2013. Hann hafi hins vegar verið metinn ósakhæfur og gert að sæta geðmeðferð.

Voru fullvissuð um velvalda vistmenn

Þau Kristlaug og Rúnar hafa skrifað bréf til allra bæjarfulltrúa og varabæjarfulltrúa í Mosfellsbæ, til leikskólastýru á leikskóla sem staðsettur er við enda götunnar, og til ýmissa starfsmanna bæjarins.

Þar segir að þau hafi verið fullvissuð um að vistmenn á heimilinu yrðu vel valdir, þ.e. með það í huga að gatan er full af barnafjölskyldum og leikskóli við enda hennar, og þess yrði gætt að velja ekki fólk sem hætta gæti stafað af. Vera barnaníðingsins ósakhæfa virðist ekki í samræmi við þessi fyrirheit.

Þau segja enn fremur í bréfi sínu:

„Okkur finnst þetta óábyrg afstaða velferðarsviðs og þar með talið sveitarfėlagsins hvernig framganga hefur verið í þessu máli og algjörlega röng ákvörðun að vista kynferðisafbrotamann, sem sýnir af sér ítrekaða brenglaða hegðun á þessu heimili hér í götunni, í nálægð við hús þar sem börn búa, meðal annars í næsta húsi.  Ég skora á velferðarsvið að finna lausn á þessu máli með því að vista umræddan einstakling á viðeigandi heimili á viðeigandi stað.  Annars þarf að kalla saman íbúafund um þetta mál hið fyrsta með aðkomu ýmissa aðila eins og rétt hefði verið í upphafi þessa máls.

Við viljum svör við því hvers vegna Mosfellsbær opnar heimili fyrir geðfatlaða inn í miðju íbúðarhverfi án þess að upplýsa íbúa hverfisins um hvaða starfsemi fer þar fram.  Þykir ykkur eðlilegt að íbúar í kring heyri af, í samtölum við íbúa bæjarins út í búð, þeirri starfsemi sem fram á að fara í húsnæðinu?  Af hverju hefur engum verið kynnt þessi starfsemi, hvernig hún fer fram eða að heimilið hýsi geðfatlaða einstaklinga og/eða menn sem hafa verið ásakaðir, kærðir og farið fyrir dómstóla vegna barnaníðs?

Sem foreldrar 9 ára gamals drengs og 3ja ára stúlku, sem búa við hliðina á þessari starfsemi sem fer fram í húsinu krefjumst við útskýringa á því hverjar ástæður ykkar eru, að maður sem hefur ítrekar verið ásakaður, kærður og farið fyrir dómstóla vegna þess að hann hefur verið að tæla til sín unga drengi, sýnt mikla óæskilega kynferðislega hegðun til ungra drengja og meðal annars ítrekað sýnt þeim kynfæri sín, búi hér við hliðina á okkur?

Finnst ykkur eðlilegt og í lagi að okkur líði illa á eigin heimili? Að við treystum okkur ekki til þess að skilja son okkar einan eftir til styttri tíma á sínu eigin heimili?  Að okkur líði ílla í hvert skipti sem við sjám manninn fyrir utan heimilið okkar?  Að okkur finnist börnin okkar ekki örugg á heimilinu lengur?

Það er einnig leikskóli við endann á götunni hjá okkur, teljið þið þetta eðlileg vinnubrögð bæjarins?  Er maðurinn best vistaður í rótgrónni íbúargötu bæjarins, sem er full af ungum börnum?“

Kristlaug segist ætla að fara alla leið með þetta mál og hún krefst úrlausnar á því frá bænum hið fyrsta. Verði málið ekki leyst fljótt verði að kalla saman íbúafund vegna þess.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu