Fimmtudagur 25.febrúar 2021
Fréttir

Úlfúð vegna greinar í Læknablaðinu – Lærdómur læknis af faraldrinum sagður meiðandi

Jón Þór Stefánsson
Laugardaginn 20. febrúar 2021 16:00

Myndin tengist fréttinni ekki beint.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í grein sem birtist í seinasta tölublaði Læknablaðsins hélt sérnámslæknirinn Indriði Einar Reynisson því fram að læknastéttin keyrði heilbrigðiskerfið áfram, og að læknar væru óumdeilanlegir leiðtogar heilbrigðiskerfisins. Í pistli hans segir:

„Ég ætla alls ekki að gera lítið úr mikilvægi annarra heilbrigðisstétta í þessum faraldri: hjúkrunarfræðingar, lífeindafræðingar, sjúkraliðar, sjúkraflutningamenn og fleiri voru okkur stoð. Hins vegar er það deginum ljósara að læknar keyra heilbrigðiskerfið áfram. Við leggjum línurnar við meðhöndlun faraldursins sem þjóðin glímir við. Við berum ábyrgðina á meðferðinni en við þekkjum líka okkar takmörk. Við verðum að geta stigið fram og sýnt forystuhæfileikana sem í okkur búa. Læknar eru leiðtogar heilbrigðiskerfisins og það verður aldrei tekið af okkur.“

Heilbrigðisstarfsfólk svarar

Þessar staðhæfingar Indriða hafa vakið upp reiði og pirring margra, þá sérstaklega hjá fólki sem vinnur í heilbrigðiskerfinu, en eru ekki endilega læknar. Þónokkrir einstaklingar hafa tjáð sig um málið á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum, þeirra á meðal er hjúkrunarfræðingurinn Anna Kristín B. Jóhannesdóttir, sem skrifaði pistil um málið á Vísi í dag.

„Ég leyfi mér að halda því fram að flest þeirra sem starfað hafi innan heilbrigðiskerfisins á þessu viðburðaríka ári hafa gert sér grein fyrir þeim mætti sem þverfaglegt samstarf heilbrigðisstarfsfólks felur í sér. Hver hlekkur í þeirri ógnarstóru keðju sem heilbrigðiskerfið okkar er hefur reynst vera ómissandi og rétt eins og samfélagið okkar í heild þá er heilbrigðiskerfið okkar ekki sterkara en veikasti hlekkur þess.

Í greinarstubb sem skrifaður var á dögunum í Læknablaðinu bar á þeim misskilningi að ein heilbrigðisstétt sé höfuð og herðar heilbrigðisþjónustu á Íslandi og aðrar stéttir séu einungis hennar stoð í því göfuga hlutverki sem baráttan við Covid-19 hefur verið og heldur áfram að vera.“

„Misskilningurinn er margþættur“

Í pistli sínum segist Anna ætla sér að gera grein fyrir misskilningi Indriða. Hún kemur með viðeigandi viðlíkingu og ber heilbrigðiskerfið við líkamann. Þar sem séu mörg svið sem sinni mismunandi hlutverkum, og þó eitt kerfið virðist mögulega mikilvægara en annað þá sé sannleikurinn sá að þetta starfi allt saman sem heild.

„Misskilningurinn er margþættur og mun ég reyna að gera honum skil hér. Rétt eins líkaminn þá er heilbrigðiskerfið samansafn mismunandi starfssviða sem sinna aðskildum hlutverkum en tengjast þó innbyrðis. Þó að í fyrstu sýnist það svo að þau geti starfað án hvors annars verður það morgunljóst þegar á reynir að svo er ekki.

Erfitt getur reynst lækni að ávísa réttum lyfjum við nýjum vírus án þess að hafa lyfjafræðing sér til halds og trausts. Jafnframt getur reynst hjúkrunarfræðingi erfitt að hjúkra sjúklingi, leggja mat á líðan hans og grípa inn í án þess að hafa lækni sér innan handar.

Ómögulegt er fyrir allar starfsstéttir að stuðla að heilbrigði sjúklinga sinna ef að ræstingum er ekki sinnt og enn ómögulegra er að útskrifa sjúklinga af sjúkrahúsi ef að endurhæfingarúrræði, öldrunarstofnanir og heimahjúkrun grípa ekki sjúklinga eftir útskrift.

Þessi upptalning á því hvernig hin mismunandi svið og stéttir heilbrigðiskerfisins spila saman gæti verið miklu lengri því heilbrigðiskerfið okkar er sem fyrr sagði löng og flókin keðja með ótal hlekkjum.“

„Fullyrðingin meiðandi“

Anna bendir þá sérstaklega á fullyrðingu Indriða sem var á þann veg að lærdómur kórónuveirufaraldsins væri sá að ein stétt væri leiðtogi alls kerfisins. Hún segir að fullyrðing hans sé meiðandi fyrir aðrar stéttir heilbrigðiskerfisins sem séu oft í stanslausri kjarabaráttu.

„Misskilningurinn sem um ræðir birtist einnig í þeirri fullyrðingu að lærdómurinn sem dreginn sé af faraldrinum sé sá að ein stétt dragi heilbrigðiskerfið áfram og stýri því.

Ekki einungis stenst sú fullyrðing ekki skoðun því eins og flestir vita sem starfa innan heilbrigðiskerfisins þá er því stýrt af mörgum stéttum, heldur er fullyrðingin meiðandi fyrir þann slag sem heilbrigðisstéttir hafa þurft að eiga í kjarabaráttum sínum og gegn gegndarlausum niðurskurði síðustu misseri. Þessa slagi höfum við þurft að taka þrátt fyrir þann dug sem við höfum sýnt af okkur síðastliðið ár.“

Að lokum segir Anna að það sé heilbrigðiskerfinu fyrir bestu að heilbrigðisstarfsfólk standi saman, og að viðhorfin sem birtust í grein Indriða hafi ekki verið á þann veg.

„Það er okkur í hag sem erum heilbrigðisstarfsfólk að standa saman sem eitt og vinna þverfaglega að markmiðum sem hljóta að vera okkur öllum sameiginleg; að ráða Covid-19 að niðurlögum, byggja upp gott heilbrigðiskerfi sem er aðgengilegt öllum óháð stétt og stöðu og stuðla að ánægjulegu starfsumhverfi. Viðhorf sem birtust í umræddri grein stuðla ekki að þessum markmiðum og því rann mér blóðið til skyldunnar að svara henni.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Móðir Bjarna var spilafíkill – „Það var í síðasta skipti sem ég sá hana á lífi“

Móðir Bjarna var spilafíkill – „Það var í síðasta skipti sem ég sá hana á lífi“
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Rauðagerðismálið: Segir lögreglumenn ekki sofa og rannsóknin sé enn á byrjunarreit

Rauðagerðismálið: Segir lögreglumenn ekki sofa og rannsóknin sé enn á byrjunarreit
Fréttir
Í gær

„Við sjáum engan gosóróa eins og er,“ segir náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu

„Við sjáum engan gosóróa eins og er,“ segir náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu
Fréttir
Í gær

Almannavarnir um jarðskjálftana: „Þyrla Landhelgisgæslunnar farin á svæðið“

Almannavarnir um jarðskjálftana: „Þyrla Landhelgisgæslunnar farin á svæðið“
Fréttir
Í gær

Vara við torkennilegum símtölum – Bylgja slíkra símtala þessa dagana

Vara við torkennilegum símtölum – Bylgja slíkra símtala þessa dagana
Fréttir
Í gær

Katrín útskýrði fyrir þýskum blaðamanni af hverju baráttan gegn kórónuveirunni hefur gengið svo vel hér á landi

Katrín útskýrði fyrir þýskum blaðamanni af hverju baráttan gegn kórónuveirunni hefur gengið svo vel hér á landi