fbpx
Fimmtudagur 16.maí 2024
Fréttir

Segir fráleitt að svipta Megas heiðurslaunum

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 19. desember 2021 09:20

Megas, Magnús Þór Jónsson. Mynd/Stefán

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég hef megnustu óbeit á þeirri hugmynd að Alþingi geti farið að kveða upp einhverja siðferðisdóma yfir þeim listamönnum sem það hefur sett á heiðurslaun,“ segir Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, upplýsingafulltrúi Íslenskrar erfðagreiningar, í færslu á Facebook í fyrradag. Allherjar- og menntamálanefnd Alþingis, sem ákvarðar um heiðurslaun listamanna, hafa borist ábendingar og athugasemdir vegna veru Megasar á listanum, í ljósi ásakana á hendur honum um kynferðisbrot gegn Bergþóru Einarsdóttur árið 2004.

Bergþóra tilkynnti brotið til lögreglu skömmu eftir að það átti sér stað og kærði það formlega árið 2011. Lögregla rannsakaði hins vegar aldrei málið. Þóra segist hafa ríka samúð með Bergþóru en listin eigi ekki að vera undir ritskoðun stjórnmálafólks:

„Þótt þáttur Megasar í því sé afar ógeðfelldur þá er hann mikill listamaður og listin á ekki að vera undir ritskoðun stjórnmálafólks og það á ekki að ýta undir pólitíska sjálfsritskoðun af neinu tagi. Það er hættulegt og sagan hefur ekki farið mjúkum höndum um slíka tilburði.“

Afar lífleg og málefnaleg skoðanaskipti eru undir færslunni, sem þekkt fólk tekur þátt í. Eru skoðanir mjög skiptar. Kristján B. Jónasson útgefandi segir:

„Þetta er sjónarmiðið: Listamenn fremja glæpi en þeir eru samt svo miklir snillingar að það skiptir ekki máli. Ég kannast vel við að hugsa svona. Ef við ætlum að breyta viðhorfum í samfélaginu verðum við að leggja þessa hugsun að baki.“

Halldór Birgisson segist á hinn bóginn ekki vera til í þá hugsun að sé maður sakaður um glæp eða ósiðlegt athæfi þá sé hann réttlaus.

Einar Steingrímsson stærðfræðingur segir:

„Það er samt rétt að hafa í huga að þessi umræða er eingöngu sprottin af frásögn Bergþóru. Og þótt okkur finnist ekki ástæða til að lýsa yfir efasemdum um það sem hún segir, þá þýðir það ekki að við sem erum utanaðkomandi séum þar með skuldbundin til að líta á það sem staðreyndir málsins, þegar við höfum bara heyrt eina hlið á því.

Af hverju ættum við, sem ekkert vitum um málið nema frásögn eins aðila, að draga ályktanir og láta þær hafa áhrif í máli eins og þessu með heiðurslaunin?“

Vigdísi Grímsdóttur rithöfundi er mikið fyrir í umræðunni og hvetur okkur til að standa með fórnarlambinu gegn gerandanum:

„Það er enginn að hugsa um Megas og hvað hann, gamall listakallinn, gerði Bergþóru, tvítugri stúlku í góðri trú á sitt idol. Hversu margir hafa ekki farið flatt á þeirri trú, hversu margir hafa ekki tapað reisn sinni og virðingu við slíka bernskuhugmynd; að frægur maður sé besti náunginn.

Við hugsum ekki um þetta heldur um glæpinn sem Bergþóra þurfti að burðast með allan tímann þangað til að hún reis upp og sagði frá – og vittu til, Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, sárin gróa ekki við það að stigið sé fram og sagt frá, þau staðfestast, þau verða til á nýjan hátt og það er ógeðslegt og þér ber að skilja það; þú verður að a. m.k. að hugsa það.

Heiðurslaunin eru það minnsta sem Megas missir, ellilaunin koma í staðinn með nákvæmlega sama hætti. Hann tapar engu, hann missir enga peninga, ekki krónu. Sjálfsvirðinguna deyddi hann sjálfur.

Þóra, ég held að þú þurfir að læra stafrófið upp á nýtt og hugsa með öðrum en elítunni og valdamönnunum; þú ert komin í allt of þægilegan glákubómul og ég held að þér sé um megn að dæma um hvað hin hefðbundna saga segir, verði hún til þegar þar að kemur.

Stattu með fórnarlambinu, gegn gerandanum og gerðu það alla leið; þú þarft ekkert að óttast, þú átt ekki að þurfa að fara í skóla og fá samþykki til þess að standa með réttlætinu og þú átt ekki einu sinni að velta því fyrir þér; þú af öllum. OMG.“

Þóra segist engan veginn vera að verja gjörðir Megasar og svarar þessu svo:

„Ég stend með Bergþóru og trúi hennar sögu. Heiðurslaun Megasar koma því ekkert við.  Ég held ekki að framtíð eða sálarheill  Bergþóru ráðist af hégóma nokkurra  alþingismanna sem í eftirsókn eftir velþóknun lýðsins láta eftir sér að fara að dæma í sakamálum án þess að hafa til þess neinar forsendur. Þingmenn eiga að gæta þess að lögregla og dómstólar geti tekið á svona málum af viti og ættu að snúa sér að því. Ég er bara að benda á að um leið og við gefum grænt ljós á þá hugmynd að það megi nota opinberar valdastofnanir til þess að svipta fólk viðurværi sínu án dóms og laga að þá erum við komin á hættulega braut. En þetta er auðvitað óvinsæl skoðun í dag og best að láta sig bara berast með straumnum.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Einar Ágúst sneri við blaðinu eftir símtal frá þekktum handrukkara – „Þitt hjartalag á ekki heima hérna“

Einar Ágúst sneri við blaðinu eftir símtal frá þekktum handrukkara – „Þitt hjartalag á ekki heima hérna“
Fréttir
Í gær

Fleiri nýleg gjaldþrot Ásgeirs – Mörg hundruð milljónir í súginn

Fleiri nýleg gjaldþrot Ásgeirs – Mörg hundruð milljónir í súginn
Fréttir
Í gær

Jóhanna Vigdís fær á baukinn eftir viðtal við Höllu Hrund: „Furðulegar spurningar satt að segja“

Jóhanna Vigdís fær á baukinn eftir viðtal við Höllu Hrund: „Furðulegar spurningar satt að segja“